Jónas Hallgrímsson

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, en hann er fæddur þann 16. nóvember árið 1807 að Hrauni í Öxnadal.
Það ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum um Jónas en hann var eins og flestir vita, skáld gott, náttúrufræðingur, stofnandi tímaritsins Fjölnis og mikill nýyrðasmiður svo fátt eitt sé nefnt. Semsagt: fluggáfaður (en það er einmitt eitt af þeim fjölmörgu orðum sem Jónas smíðaði).

Í tilefni af fæðingardegi þessa merka manns er því ekki úr vegi að birta mannlýsingu á Jónasi sjálfum, ritaða af félaga hans Konráði Gíslasyni, en þarna koma fyrir mörg góð og gild lýsingarorð (annað orð sem Jónas smíðaði) sem eru eftilvill lítið notuð í dag en þó auðskilin og skemmtileg og mætti nota oftar:

„Jónas var gildur meðalmaður á hæð, þrekvaxinn og limaður vel, en heldur feitlaginn á hinum seinni árum sakir vanheilsu, vel réttur í göngu, herðamikill, baraxlaður og nokkuð hálsstuttur, höfuðið heldur í stærra lagi, jarpur á hár, mjúkhærður, lítt skeggjaður og dökkbrýnn. Andlitið var þekkilegt, karlmannlegt og auðkennilegt, ennið allmikið og líkt því, sem fleiri enni eru í hans ætt. Hann var réttnefjaður og heldur digurnefjaður, granstæðið vítt, eins og oft er á Íslendingum, og vangarnir breiðir, kinnbeinin ekki eins há og tíðast er á Íslandi, munnurinn fallegur, varirnar mátulega þykkar. Hann var stóreygur og móeygður, og verður því ekki lýst, hversu mikið fjör og hýra var í augum hans, þegar hann var í góðu skapi, einkum ef hann ræddi um eitthvað, sem honum þótti unaðssamt um að tala.“

Við getum öll haldið upp á dag íslenskrar tungu með því einu að vanda okkur við að tala fallegt mál, ekki aðeins í dag heldur alla daga, eins og við getum, því það er miklu skemmtilegra að hafa fjölbreyttan (annað orð frá Jónasi) og góðan orðaforða.
Eins hvet ég alla til þess að líta á Nýyrðavefinn hjá Stofnun Árna Magnússonar en hann var opnaður í tilefni dagsins.
http://nyyrdi.arnastofnun.is/

.


Dæmi um nokkur falleg orð smíðuð af Jónasi:

aðdráttarafl
almyrkvi
áttfætla
berjalaut
brandugla
brekkusóley
bringsmalaskotta
bróðurpartur
einstaklingar
eldsumbrot
fjaðurmagnaður
fjölbreyttur
fluggáfaður
geislabaugur
gulbröndóttur
hafflötur
haförn
hagamús
heiðardalur
himingeimur
hryggdýr

 

Grein: Birta Þórhallsdóttir
Forsíðumynd: Kristín Sigurjónsdóttir