Á sjötta áratug síðustu aldar leigði ung siglfirsk stúlka S. Marsibil Lútersdóttir herbergi af þeim hjónum Herdísi Þorsteinsdóttur og Jóhanni P. Jónssyni á Norðurgötu á Siglufirði.

Marsibil sagði að þau hjón hefðu verið henni afskaplega góð og sá Herdís til þess að hún fengi alltaf hafragraut og skeið af lýsi á morgnana sem hún lét sig hafa þrátt fyrir að henni hefði þótt lýsið vont. Þegar hún flutti síðan frá þeim heiðurshjónum kom Herdís fyrstu þrjá dagana til Billu að athuga með hana og huga að því hvort allt væri ekki örugglega í góðu lagi.

Þegar Billa, eins og S. Marsibil er jafnan nefnd, flutti úr herberginu árið 1957, vildi Herdís gefa henni gjöf sem gæti fylgt henni í gegnum lífið og kæmi að gagni. Varð þá forláta pottur fyrir valinu sem verið hefur í eigu Billu í 61 ár. Potturinn hefur verið í mikilli notkun alla tíð og eldaðar í honum dýrindis krásir.

Potturinn skoðaður

 

Fyrir þremur árum var Billa á Siglufirði sem oftar og hitti þá Kristínu Sigurjónsdóttur, sonadóttur Herdísar og Jóhanns, á förnum vegi og sagði henni söguna af pottinum góða og fannst Kristínu gaman að heyra þessa frásögn. Í framhaldinu tók Billa þá ákvörðun að með tíð og tíma ætlaði hún að koma pottinum til Kristínar.

Í gær þann 25. ágúst kom Billa til Siglufjarðar og hafði samband við Kristínu og bað hana að finna sig af því að hún væri með nokkuð sérstaka gjöf handa henni.

Kristín brást skjótt við og hitti Billu þar sem hún var á Siglufirði. Þá kom í ljós að gjöfin var þessi forláta pottur sem Herdís, amma Kristínar, hafði gefið Billu árið 1957, og vildi Billa nú að Kristín tæki við pottinum. Billa tók það sérstaklega fram, að henni fyndist sérlega viðeigandi að afhenda pottin núna, þar sem Kristín giftist einmitt á þessu ári.

Kristín þakkar fyrir gjöfina góðu

 

Það skipti engum togum að um kvöldið var potturinn góði fylltur með öllu því besta sem þarf til að gera dýrindis kjötsúpu, enda meira en líklegt að slík súpa hafi oft verið elduð í þessum potti.

Kristín vill koma á framfæri kæru þakklæti til Billu fyrir hugulsemina og þennan gæða pott sem á eftir að verða notaður um ókomin ár.

 

Kjötsúpan kraumar í pottinum

 

 

Súpan bragðaðist alveg sérstaklega vel

 

Frétt og myndir: Gunnar Smári Helgason