Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari, Helgi Kolviðarson, aðstoðarlandsliðsþjálfari og Guðmundur Hreiðarsson markmannsþjálfari keyptu fyrsta álfinn í álfasölu SÁÁ sem hefst í dag. Það voru Kolfinna, Dóróthea og Embla Margrét sem sáu um söluna en álfurinn í ár er að sjálfsögðu í landsliðslitunum í tilefni af þátttöku Íslands í HM í Rússlandi!

Álfasalan stendur fram á sunnudag en hún er stærsta fjáröflunarverkefni SÁÁ ár hvert. Frá upphafi hefur samfélagið tekið álfinum opnum örmum og hafa tekjurnar skipt sköpum í þjónustu við ungt fólk. SÁÁ hvetur Íslendinga til að halda áfram að kaupa álfinn og stuðla þannig að því að ungt fólk geti náð bata og orðið virkir þátttakendur í samfélaginu.

Álfurinn valinn í byrjunarliðið

SÁÁ þakkar landsliðinu kærlega fyrir stuðninginn og sendir því bestu stuðnings- og baráttukveðjur til Rússlands. Áfram Ísland!

Fíknisjúkdómurinn er algengasti og hættulegasti sjúkdómur ungs fólks á Íslandi í dag. Hann herjar á einstaklinga, börn þeirra, foreldra, ástvini og samfélagið allt. Hann er skæður, jafnvel banvænn og mikill fjöldi fólks er í brýnni þörf fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu til að eiga von um bata.

Fjöldi barna á Íslandi er í þeirri stöðu að eiga foreldri eða uppalendur í neyslu. Talið er að eitt af hverjum fjórum til fimm börnum búi þannig við óheppilegar félagslegar aðstæður og stundum alveg óbærilegar. Tölfræði unnin úr gagnagrunni SÁÁ staðfestir að fjölskyldulægni sjúkdómsins er svo mikil að erfðaþátturinn einn og sér getur ekki útskýrt stærðargráðu vandans sem bítur kynslóð fram af kynslóð. Hægt væri að grípa þessi börn og hafa þannig áhrif til góðs með því að bæta fyrstu stig skólakerfisins. Börnin okkar koma inn í þetta skólakerfi úr mismunandi góðu umhverfi og skólinn þyrfti að hafa vit og afl til jafna möguleika þeirra og lífsgæði. Við þurfum að hlúa betur að þessum skólum þannig að þeir geti sinnt því hlutverki eins vel og skyldi.

SÁÁ hefur staðið þessa vakt núna í 40 ár. Þjónusta SÁÁ fyrir börn og ungmenni skiptist í tvo meginþætti. Annars vegar er meðferð fyrir ungmenni með áfengis- og vímuefnavanda og hins vegar sálfræðiþjónusta fyrir 8-18 ára börn áfengis- og vímuefnasjúklinga sem eru í áhættuhópi en hafa ekki þróað með sér vímuefnavanda. Sálfræðiþjónustan veitir börnum opnun og viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldu þar sem áfengis- eða vímuefnavandi er til staðar. Hún hjálpar þeim að skilja betur eigin aðstæður og aðstæður foreldranna og aðstoðar þau við að greina á milli fíknsjúkdómsins og manneskjunnar sem þjáist af honum. Sálfræðiþjónustan er því bæði hugsuð til að rjúfa einangrun barna sem búa við þessar aðstæður og sem forvörn. Um 1300 börn hafa þegar fengið þjónustuna. Til mikils er að vinna.

Þegar rætt er um leiðir til úrbóta fyrir fólk með fíknsjúkdóm gleymist stundum hið augljósa: Það getur ekkert komið í stað meðferðar. Fíkn er heilbrigðisvandi og einstaklingur með alvarlegan fíknsjúkdóm þarf að komast í skjól og undir læknishendur. Meðferð er allt í senn, forvörn, skaðaminnkun og upphaf batagöngu til betra lífs.

Álfasala SÁÁ er mikilvægasta fjáröflunarleið samtakanna. Í 28 ár hefur álfasölufólk fyllt stræti og torg og fengið frábærar viðtökur hjá þjóðinni. Íslendingar hafa sameinast um að kaupa álfinn, smellt honum á mælaborðið og þannig hefur okkur í sameiningu tekist að byggja upp samfellda og heildstæða heilbrigðisþjónustu um forvarnir, afeitrun, eftirmeðferð, göngudeildir, búsetuúrræði og félagsstarf sem tugþúsundir hafa nýtt sér til góðs.

Það eru ekki ofurhetjur sem breyta heiminum heldur venjulegt fólk sem ákveður að leggja sitt af mörkum. Án meðferðar verður enginn bati. Og án álfasölunnar verður lítil meðferð. Íslenska þjóðin hefur gjörbreytt heimi fólks með fíknsjúkdóm. Batinn hefst á Vogi.

Enginn getur hjálpað öllum en allir geta hjálpað einhverjum. Þú getur breytt heiminum – til dæmis með því að kaupa álf!

Arnþór Jónsson,
formaður SÁÁ

Frétt og myndir fengin af vef: SÁÁ