Áramót eru tímamót sem fá man til að hugsa bæði afturábak og áfram.

Að minnast þess liðna á árinu fer með man í ferðalag í tíma og rúmi þar sem horfinna vina og ættingja er saknað og minnst.

Skemmtilegir atburðir standa samt oftast uppúr ef maður er ekki heltekin af sorg og söknuði, einhvernvegin heldur lífið áfram með kröfu um að því sé lifað og að allir geri sitt besta í að skila betri heimi í hendurnar á börnum og barnabörnum.

Því börnin eru framtíð heimsins!

En það er ekki af ástæðulausu að það komi upp bæði angist  og sektarkennd þegar horft er til framtíðar með þeim loftslagsbreytingum sem við höfum sjálf skapað á tiltölulega stuttum tíma í sögu mankynsins.

Um jól og áramót minnumst við látinna ættingja og vina.

 

Heimþrá er einkennilegur krónískur sjúkdómur sem dettur yfir mig og marga aðra brottflutta á þessum árstíma. Þetta er eins og eilíf ástarsorg sem engan enda tekur, sambandinu var aldrei endanlega slitið, það var ekki hægt og svo snýst þetta líka mikið um söknuð frá góðri barnæsku í fallegum einangruðum firði á norðurhjara veraldar.

En Nonni minn, langar þig ekkert til að búa þarna núna ?

Þessa spurningu fæ ég oft og margir halda reyndar að ég búi þarna ennþá gegnum skrif mín á siglo.is og trolli.is………..

….úr fjarlægð gegnum nálægð sem alnetið hefur skapað.

Jú, auðvitað vill ég búa þarna núna, sérstaklega eftir heimsókn mína í sumar þar sem var verið að minnast 100 ára kaupstaðarafmælis Siglufjarðar. Breytingarnar eru stórkostlegar og atvinnutækifærin hafa breyst, nýir möguleikar skapast og þátttaka í sköpun framtíða sögu er lokkandi.

Saga minna heimahaga var á allra vörum á Íslandi  og ég sjálfur tók þátt í að koma með smá hliðarspor í þessari merkilegu sögu með sýningunni Á leið til Íslands  „På väg mot Island“ og  Samnorræna strandmenningarhátíðin var eins og dásamleg kópía af Skandínavískum landlegum í denn.

Met aðsóknar helgi og ár hjá Síldarminjasafninu.

Og Aníta Elefsen á svo sannarlega skilið að vera kosin maður ársins á Siglufirði og Ida Marguerite Semey er til sóma í austurbænum.

Norskt – Íslenskt – Danskt blóð brennur í æðum þeirra og þær elska sína Fjallabyggð og fólkið í fjörðunum elska þær fyrir að vera það sem þær eru, nefnilega: Stórkostlegar Íslenskar Fjallkonur.

Fjörðurinn fagri í bláum vetraskugga

 

Svo er nú ekki lélegt að Gústi Guðsmaður er kominn aftur á Torgið og hann mun örugglega gefa mér fallega Jesús mynd með óskiljanlegum texta á bakhliðinni næsta sumar.

Bíð enn eftir að hans æviágrip komi upp úr skrifborðskúffum okkar ástkæra prest, veit að hann er búinn að skrifa þessa sögu. Við Siglfirðingar höfum alltaf átt mikið af skrifandi og ljósmyndandi fólki…… og prestum.

Og ofan á allt þá endar þetta 2018 með útgáfu tveggja bóka sem hafa snert mig djúpt og skilja eftir sig meira enn 100 kíló af heimþrá í minni SvÍs-lensku sál.

Ljósmyndabók Síldarminjasafnsins hefur nú þegar farið með mér í 800 km bíltúr og henni hefur verið flett mikið af brottfluttum Siglfirðingum sem og sænsk/íslenskum börnum og barnabörnum.

Bók Hallgríms Helgasonar greip mig heljartökum eins og fjöllin og firðirnir á Tröllaskaga gera svo oft þegar aðkomu fólk fær að upplifa þessa hrikalegu fegurð og andstæður veturs og sumars.

Sjá grein hér á trolli.is: SIGLFIRSK ÞAKKLÆTISKVEÐJA FRÁ ÚTLANDINU

Sumum finnst að þessi fjöll og firðir gleypi mann og að fjöllin séu stanslaust á leiðinni að detta yfir mann.

En mörgum öðrum þar á meðal mér finnst þessi fjöll faðma mig og þau eiga í mér hvert bein.

Það var svo augljóst fyrir mér í sumar að sagan skapar nútímann og framtíðina og ég er svo þakklátur öllum sem leggja sig fram við að varðveita söguna og byggja eitthvað nýtt úr rústum liðins tíma og þar eru jafnt heima- sem og aðkomufólk í lykilhlutverkum því allir sem falla fyrir firðinum fagra finna að hér er gott að lifa.

Framtíðar-áhyggjur og umhverfis angist!

Ekki vill ég enda þennan pistill með Völvuspá um eldgos og veðurfarslegan djöfulgang sem er aldeilis ókeypis í daglegu lífi Íslendinga en það er ekki að ástæðulausu að ég nefndi umhverfis-angist í upphafi greinarinnar eftir að hafa séð skýrslur  Sameinuðu þjóðanna um að við höfum tæp 10 ár að bregðast við og breyta lífi okkar til að skapa framtíð fyrir okkar afkomendur.

Sektarkennd hellist yfir mig líka fyrir að vera einn af þeim persónum sem hafa tekið þátt í þessu velmegunar og innkaupa æði sem hefur einkennt líf okkar allra sem eru fædd á 20 öldinni.

Sé fyrir mér að þegar barnabörnin eru komin til vits og ára eftir 20 ár eða svo að þau spyrji:

Afi, hvað voruð þið eiginlega að hugsa….. ha…..þið eruð búinn að eyðileggja heiminn ???

Afi gamli svarar: Við vissum ekki betur……en innst inni veit ég að það er haugalygi, því við erum búinn að vita þetta lengi. Við vorum bara svo ótrúlega eigingjörn og sjálfselsk og vildum ekki breyta okkar velmegunar lífstíl  fyrr en það varð of seint.

Alltaf gaman að vera gáfaður eftirá eða hvað ?

Mínar umhverfisáhyggjur snerta líka hugsanir mínar um fjörðinn fagra.

Spurningar eins og hvað gerist ef hækkun sjávarmáls drekkir eyrinni ?

Ljósmyndari: Ókunnur Úr safni Sillu – Flóð á Siglufirði. séð til suðvesturs. Hús Jóa í vatnsveitu til hægri (löngu horfið) – 1934 – Aðfaranótt fyrsta vetrardags, 27. október, gekk mikið sjávarflóð og brim meðfram öllu Norðurlandi og olli miklu tjóni. Einna mest tjón varð á Siglufirði. “Sjávarflóðið var svo mikið að flæddi yfir nærri því alla eyrina. Gekk sjórinn inn í fjölda húsa svo fólk varð að flýja heimili sín í dauðans ofboði,” segir í Morgunblaðinu 28. október. Svo hátt var flóðið að á Lækjargötunni “var vatnið mittisdjúpt”. “Í sumum húsum varð vatnið svo hátt að rúmstæði flutu upp,” segir í Einherja 2. nóvember. Í Siglfirðingi segir 3. nóvember: “Braut sjórótið ásamt stórflóði meirihluta allra bryggja og söltunarpalla á austanverðri Eyrinni og víðar.” Morgunblaðið segir: “Á Siglunesi tók sjórinn alla báta, sem þar voru, braut nokkur hús og eyðilagði vergögn.” Ennfremur eyðilagðist þar ný bryggja. Aðrar heimildir herma að sjór hafi fallið yfir Siglunes og ekki munað miklu að bryti að fullu burt eiðið þar sem nesið er lægst. Þá brotnaði einnig norðan af strönd nessins og vestan af því. Sagt er frá því í Siglfirðingi 1. desember að tjón “af völdum veturnóttafárviðrisins” hafi verið metið og að 68 tjónþolar hafi gefið sig fram. Þ. Ragnar Jónasson: Siglfirskur annáll, 1998.

 

Við munum öll mörg flóð með stórgrýti sem hefur kastast yfir Öldubrjótinn.

Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Í miklu aftakaveðri 1982 flæddi sjórinn yfir eyrina og svona var umhorfs í Hvanneyrarkróknum eftir veðrið, þar sem grjóthnullungar voru komnir á land og inná Hvanneyrarbrautina.

 

Siglunesið brotnar meira og meira og getur ekki lengur varið okkur frá ofsa norðuráttarinnar ?

Siglunes. Ljósmyndari: Jóhann Örn Matthíasson

 

Aurskriður falla á snjóflóðavarnargarða í allt blautara veðurfari ?

Stór aurskriða við Suðurgötuna.

 

Geta þessir varnagarðar staðið af sér þungar aurskriður ?

Það eina sem við getum gert er að reyna að taka ábyrgð og skapa framtíð sem byggir á virðingu fyrir náttúrunni og lærdómi úr sögunni eins og síldarhvarfinu og t.d. hætta að skilja jeppann eftir í gangi þegar þú hleypur inn í kaupfélagið á köldum vetrardegi…hehe.

Allt skiptir máli.

Gerðu þitt litla og það eina rétta….Pældu aðeins í þessu.

Lifið heil og gleðilegt ár.

P.s.

Þegar ég skrifa „minningargreinar“ um mína fögru Fjallabyggð þá hlusta ég alltaf á Ellý og Vilhjálm sem er eitthvað sem kemur úr barnæsku minningum frá góðum stundum með Ömmu Nunnu á Hverfisgötu 27.

Eitt af hennar uppáhaldslögum sat í mér við þessa skriftarvinnu en það er lagið:

Heilsaðu frá mér og hluti af textanum hljómar svona:

…….Ung ég fór frá fjarðarströnd

fannst mér þar svo þröngt um mig

ég þráði ókunn stig

en nú finnst mér sem fjörðurinn

er forðum lifði barnsárin

líkjast mest þeim ljúfa stað

er leitaði ég að……

Kær kveðja.

Nonni Björgvins

LISTA YFIR AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON FINNUR ÞÚ HÉR.

TEXTI OG LJÓSMYNDIR:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar