Ferðaskrifstofa Akureyrar, í samstarfi við bresku ferðaskrifstofuna Superbreak, hefur hafið sölu á flugferðum beint frá Akureyrarflugvelli til Bretlands.

Áfangastaðirnir eru alls fjórir; London, Manchester, Liverpool og York. Flogið er með breska flugfélaginu Titan Airways.

Hægt er að bóka flug á ýmsum dagsetningum frá desember 2018 og út mars 2019.

Í tilkynningu frá Ferðaskrifstofu Akureyrar segir að skrifstofan bjóði upp á ýmsar pakkaferðir í tengslum við flugin. Þá hefur ný heimasíða verið sett á laggirnar þar sem hægt er að skoða ferðamöguleika og bóka ferðir eða stök flugsæti.

Nánari upplýsingar um ferðirnar má nálgast á heimasíðunni www.aktravel.is 

Ragnheiður Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofu Akureyrar segist finna fyrir mikilli eftirspurn frá heimafólki.

„Við erum búin að vera í samskiptum við Superbreak um þann möguleika að selja flugsæti frá Akureyri fyrir heimamarkað. Aðrar ferðir sem við bjóðum upp á frá Akureyri núna í haust eru helgarferðir til Dublin og Róm ásamt þessum ferðum til Bretlands. Við finnum fyrir mikilli eftirspurn frá heimafólki eftir beinum ferðum frá Akureyri og reynum að gera okkar besta í að þjónusta markaðinn með það að leiðarljósi að vera samkeppnishæf í verði.“

Mynd: af netinu
Frétt: N4