Ég er 54 ára mamma og amma og starfa sem þjónustufulltrúi á Bóka- og Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar. Ég er fædd og uppalin á Siglufirði og hef búið hér, með hléum, lengst af. Ég bjó einnig á Ólafsfirði í all nokkur ár og bý að því enn þann dag í dag.

Ég er með verslunarpróf frá Verslunarskóla Íslands og hef einnig stundað nám í verslunarstjórnun við Háskólann að Bifröst. Áhugamál mín eru m.a. lestur góðra bóka, dýr og ganga með sjálfri mér úti í náttúrunni.

Ég er ekki alveg ókunn sveitastjórnarmálum en þegar ég bjó í Hvalfjarðarsveit, þá var ég í Umhverfisnefnd og undirbúningshópi fyrir innleiðingu Staðardagskrár fyrir sveitarfélagið. Hugur minn leitar æ meira í átt að sveitarstjórnarmálum og mig langar að leggja mitt af mörkum, með ykkar hjálp, til að gera gott samfélag ennþá betra.

Það sem á mér brennur helst eru fjölskyldumálin, á sem flesta vegu. Börnin eru okkar dýrmætasti fjársjóður, og það er á okkar ábyrgð að kenna þeim á lífið eins vel og hægt er . Peningum sem varið er í börnin er peningum vel ráðstafað, tel ég.

Umhverfið er mér einnig mikilvægt, og þar finnst mér að við getum bætt okkur án þess að það þurfi að kosta of mikið. Virðing við náttúru og umhverfi er fyrir öllu og einstaklingur getur miklu breytt, að ég tali nú ekki um samvinnu á þessu sviði. Ég vil gera mitt til þess að skila heilnæmu og hreinu umhverfi til komandi kynslóða.

Kæru íbúar, setjum x við H-listann og setjum börnin okkar í forgang.

 

 

Upplýsingar af: facebooksíðu H-listans