Þegar okkur þykir eitthvað mjög gott segjum við stundum “þetta er eins og draumur í dós” og man ég þá sérstaklega hvað mér fannst gott að fá kokteilávexti með róma í eftirrétt á hátíðisdögum hér í denn. Þessar ávaxtadósir voru svo sem ekkert sérstakar en innihaldið var þá lúxusvara og var eins og innflutt sólskin frá Suður Afríku í sætri sósu.

Man einnig að mér fannst dósirnar í Siglósíld mjög flottar, glansandi og fínar með flottu vörumerki en ég held nú að okkur Siglfirðingum hafi farið það betur að setja síld í tunnur en í dósir.
Innihaldið í þessum dósum var svo sem enginn draumur í dós en þetta dugði ofan í Rússana og svo fengum við Lödu bíla í staðinn í gegnum einhverja einkennilega vöruskiptasamninga við Sovétríkin.

Svíarnir hins vegar kunnu þetta og þeir keyptu “Islandssill” í stóru magni vegna þess að þessi stóra feita sumar síld sem veiddist fyrir norðan og austan Ísland var sú allra besta og hún passaði best fyrir niðursuðuverksmiðjurnar sem voru til í hundraðatali hér á vesturströnd Svíþjóðar.

Stórar verksmiðjur og lítil fjölskyldufyrirtæki, hver með sína leyniuppskrift og flottar umbúðir fyrir sína einstöku gæðasíld, fallegar litprentaðar blikkdósir og auglýsingar á “emalj” skiltum. Mikið lagt í að markaðssetja vörur og það skapaðist heil iðnarargrein í kringum þessa dósagerð.

 

Hið glæsilega vörumerki Sigló síldar verksmiðjunnar.

 

Faðir minn Björgvins S Jónsson vann lengi vel sem verkstjóri hjá Siglósíld og hér má sjá margar ljósmyndir úr hans einkasafni í tveimur gömlum greinum á siglo.is

Gamla Sigló-Síld. Myndir úr safni Björgvins Jónssonar

Meira af myndum úr Sigló-Síld

Það sem ýtti við mér að skrifa þessa grein um drauma í síldardósum var að þegar ég var á heimleið frá Sigló í sumar kom ég við í Lysekil og þá sé ég risastóra 25 kg síldardós í búðarglugga í miðbænum. Þessi búð var aldrei opin en vinkona mín sem býr þarna kom mér seinna í samband við eigandann og ég keypti af honum dósina. Hann var ekkert sérstaklega viljugur til að selja mér dósina en þegar ég sagði honum að ég myndi gefa Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði þessa merkilegu dós, þá lét hann mig fá hana á skikkanlegu verði.

Gegnum þessi dósakaup komst ég í kynni við merkilegan mann sem heitir Henrik Harnevie en hann safnar síldardósum og er með um 1.500 dósir í skápum í stofunni heima hjá sér í Lysekil. Henrik hefur einnig skrifað bók um niðursuðuverksmiðjur, dósagerð og dósaprentun í Lysekil.

Til gamans má geta fyrir forvitna Siglfirðinga sem kannski spáðu stundum í hvað var gert við alla þessa síld sem við tróðum í tunnur heima á Sigló að í heimildum frá 1962 (fæðingarár mitt og Henriks) búa um 13.000 mans í bæjarfélaginu Lysekil.

Um 600 mans hafði atvinnu í síldarverksmiðjum, 378 vinna við dósagerð og umbúðaframleiðslu og síðan bætist við um 100 manns vinnur við umbúðahönnun og prentun á blikkdósum.

Þetta var stór og mikilvægur iðnaður sem var mjög háður innflutningi á góðri síld og hrognum í kavíargerð frá Íslandi.

Þetta er allt meira og minna horfið í dag.

25 Kg síldardós frá ABBA (Aktiebolaget Brödrene Almeln)

 

En áður en við heimsækjum Henrik og dósasafnið hans þá verðum við aðeins að staldra við og ræða um þessa stóru síldardós eða já…þetta er nú reyndar meira líkt stórri málningarfötu en dós. Það tók mig smá tíma að skilja hverskonar síld hafi verið í þessari dós. Það er ekki mikið um texta sem útskýrir innihaldið. Það stendur bara Íslandssíld og 25 kg nettó. En á lokinu stendur: “síldin geymist best ef að pækilinn ætíð flýtur yfir síldina í dósinni.” 

Já…nú skil ég hugsaði ég strax þegar ég hafði lesið textann á ryðguðu lokinu.
Síld er og hefur alltaf verið einn af þjóðarréttum Svía, það eru alltaf fjöldin allur af síldarréttum á þeirra hátíðarhlaðborði allan ársins hring. Og þessi dós sem er með þægilegu haldi og einföldu loki kemur í staðinn fyrir umbúðir eins og hálftunnur og “kvartinga” tunnur sem stærri heimili og veitingastaðir keyptu og drösluðu heim til sín hér áður fyrr.

Í dósinni er einfaldlega umpökkuð kryddsöltuð Íslandssíld með pækli sem tekin er úr stærri tunnum. Síldin var síðan flökuð heima og notuð í heimatilbúna síldarrétti eða hreinlega bara útvötnuð yfir nóttina og síðan steikt á pönnu.

 

Henrik Hernevie dósasafnari stendur hér fyrir framan smá hluta af safninu sínu og sýnir okkur gamla “Míní” svigatunnu sem voru algengar síldarumbúðir fyrir tíma dósaaldarinnar.

Sjá meira um Svigatunnur hér á heimasíðu Síldarminjasafnsins.

Þessar litlu tunnur voru mikið notaðar fyrir aldarmótin 1900 en þá tóku blikkdósir við og líka postulíns baukar, í dag er síld mest seld í glerkrukkum. Henrik er svo ótrúlega kunnugur um alla þessa umbúða og niðursuðusögu og hann sagði að í fyrri heimsstyrjöldinni hafi þessar litlu tunnur verið notaðar aftur vegna skorts á dósaefni. Þá fór maður bara og keypti áfyllingu í tunnuna þegar hún var tóm. Mjög svo umhverfisvænar umbúðir, rétt eins og þegar við fórum með brúsa í Mjólkursamsöluna og sóttum okkur Hólsmjólk í gamla daga..

Það getur svo sem verið að ykkur lesendum þyki það einkennilegt að þessi maður sé með síldardósasafn í stofunni heima hjá sér……já kannski það, en ég segi “guði sé lof”  fyrir að það séu til svona persónur sem taka að sér að varðveita merkilega iðnaðarsögu sinnar heimabyggðar, annars hefði þessu líklega bara verið hent á hauganna. Svona síldarsögu einkasafnara hef ég hitt í mörgum litlum bæjarfélögum úr um alla vesturströnd Svíþjóðar og við skulum ekki gleyma að það sem í dag heitir því virðulega nafni “Síldarminjasafn Íslands”    byrjaði í gegnum ötula vinnu svona áhugafólks eins og Henriks.

Áður en ég hitti þennan snilling þá hafði ég sent honum upplýsingar í tölvupósti um síldarsögu Siglufjarðar og hann sagði mér þegar ég kom í heimsókn að: “ef að við ættum svona flott Síldarminjasafn hér í Lysekil þá mundi ég gefa þetta allt saman á morgun, en við eigum bara lítið byggðasafn þar sem öllu er blandað saman í belg og biðu og ég er ekki til í að láta þetta safn frá mér þangað.” 

Jólasíldardós. Hér sýnir Henrik okkur original litprentunar prufu sem sýnir okkur hversu flókið ferli þessi dósagerð var. Prentun með fjórum umferðum í svörtu og síðan fjórar umferðir í viðbót með lit.

 

Allar dósir fæðast flatar! Á þessari áprentuðu blikkplötu má sjá verðandi jólasíldardósir og kavíartúpur. Mikilvægt að fá sem mest efni út úr hverri plötu. Þetta ferli var í upphafi mjög svo flókin og tímafrek handavinna. Seinni tíma vélvæðing einfaldaði þetta allt saman og efnið í dósunum varð allt þynnra og léttara.

 

Jólasíldardósir í öllum mögulegum stærðum og gerðum.

 

Vatnslitamynd með litagreiningu sem var síðan breytt og aðlöguð eftir stærð dósarinnar.

 

Ein af dósaverksmiðjunum í Lysekil fór út í framleiðslu á vinsælum “gasgrímum” (Folkgasmask) á stríðsárunum í seinni heimsstyrjöldinni vegna skorts á SÍLD frá Íslandi og þarf að leiðandi var engin þörf fyrir dósir.

 

Dansandi SWING sardínur í tómatsósu.

 

Það er náttúrulega haugalygi að það séu ekta sardínur í þessari glöðu dós. Það er sænsk “Skarpsill” í þessari dós. Skarpsíld er lítil síldartegund sem veiðist í Eystrasaltshafinu og það sama gildir um innihaldið í dósum með Ansjóvís” og “Surströmming“.  Allt saman sænsk smásíld unnin á ólíkan hátt. það er erfitt að útskýra þetta með ólíkar síldartegundir og allskyns vinnslu-orð en fyrir forvitna þá getið þið lesið “allt sem þú nokkurn tímann þarft að vita um síld” hér á heimasíðu ABBA.

Svona markaðssetning minnir mig á álegg í dósum sem var kallað Hafslax en ef ég man þetta rétt þá var soðinn rauðlitaður UFSI í þeim dósum.

 

Lítil dós með syngjandi smásíld í tómatsósu.

 

Yggdra-síld í dillsósu er herramannsmatur.

 

Matjes-síld í heilum flökum eða gaffalbitum. Uppáhalds síld Svíanna, hér seljast árlega um 10 miljónir dósir.

 

Íshafs Matjes-síld með mynd sem gæti verið Hafnarbryggjan á Siglufirði, fjöllin bara dregin saman og gerð hrikalegri.

 

Mjög svo falleg dós frá fyrirtækinu SFKF (Sveriges förenade konserv fabriker) frá ca. 1910 – 20.

 

Þetta dósaform er svolítið sérstakt. Það er tvöfalt lok á þessari, þ.e.a.s. undur skreyttu lokinu er lok sem maður verður að opna með dósahníf og síðan setur maður fallega lokið á.

Þessar dósir hafa varðveist vegna þess að mörgum konum finnst þær fallegar og þær notuð þessar dósir undir saumadótið sitt. Góð auglýsing fyrir fyrirtækið.

 

Kveðja frá Lysekil. Myndin er tekin við Vikarvet byggðasafnið. Einn elsti og best varðveitti fiskibáturinn á vesturströndinni í forgrunninum, nýmálaður og fínn. “Frífararen” byggður 1878 á Orust. Í bakgrunninum má sjá tómar baðstrendur í vetrarsólskyninu, allir túristarnir farnir heim og Lysekil komið í vetrardvala.

 

Lifið heil.

Kær kveðja.

Nonni Björgvins

Lista yfir aðrar greinar eftir Jón Ólaf Björgvinsson finnur þú HÉR.

Og hér er heimasíða með mikið af fræðandi greinum sem Steingrímur Kristinsson og Leó Óla hafa safnað saman í gegnum árinn:

Bland heimilda um fólk og málefni. Tengt Siglufirði hér áður fyrr –

 

Texti og ljósmyndir:
Jón Ólafur Björgvinsson

og aðrar ljósmyndir birtar með leyfi Henriks Hernevie.

Heimildir: Konservfabriker i Lysekils kommun.

Höfundur: Henrik Harnevie og aðstoðarmenn hans Rustan Granvik og Per Stenros