Á litlu verkstæði inn á milli verksmiðjuhúsa á Siglufirði gerast ótrúlegir hlutir.

Þar vinna menn öllum stundum við að breyta, bæta og hreinlega endursmíða bíla. Þegar fréttamenn Trölla bar að garði voru menn að græja fagurrauðan BMW eðalbíl, sem er keppnisbíll, ætlaður í Drift keppnir, og keppir líka í Götuspyrnu.

Þeir feðgar Guðni Sveinsson og Guðni Brynjar Guðnason hafa að undanförnu staðið í ströngu við að gera þennan gullfallega bíl kláran fyrir Bíladaga á Akureyri, sem eru 17. júní ár hvert.

Guðni Brynjar að tengja rafgeyminn, sem er aftan við framsætið

 

Guðni yngri er ökuþórinn og er nú þegar búinn að vinna eitt gull í 6 cylindra flokki á þessum bíl.

Guðni Brynjar Guðnason með bikarinn

 

Bikar fyrir 1. verðlaun í Götuspyrnu í 6 cyl flokki

 

Vélin í bílnum er endursmíðuð af þeim feðgum og skilar milli 400 og 500 hestöflum! Þetta er 6 cyl original vél sem þeir hafa smíðað upp, sett túrbínu og þykkari head-pakkningar, einnig þurfti að breyta pústkerfinu. “Hann er alinn upp við þetta” segir stoltur faðirinn um soninn. “Fyrstu orðin voru Willys, ekki pabbi”.

Hér krauma hestöflin

 

Handbremsan er nokkuð ólík því sem við venjulega fólkið eigum að venjast, þessi er glussa drifin, virkar bara á afturhjólin og er notuð þegar á að snúa bílnum í keppni. Venjulega handbremsan er í bílnum líka.

Handbremsan og gírstöngin

 

“Það er mikið atriði að koma heill heim” segir Guðni eldri, ” það brotnar yfirleitt eitthvað í þessu eða vélarnar springa í loft upp” heldur hann áfram poll rólegur. Eftir hverja keppni er vélin tekin í sundur alveg til grunna til að athuga hvort eitthvað hefur farið úrskeiðis, sem þá er lagað. Þeir hafa verið heppnir fram til þessa og komist alltaf heilir heim, bæði bíll og ökuþór.

Búið er að létta bílinn mikið, allt tekið innan úr hurðum, plast festingar þar sem því verður við komið, og allt fjarlægt sem ekki þarf að vera í bílnum.

Dekkin eru líka sérstök, kölluð “slikker” dekk sem eru sérlega mjúk til að ná betra gripi. Ætlunin er að ná góðum árangri í götuspyrnunni á Bíladögum til að safna stigum upp í Íslandsmeistarann.

 

Frétt og myndir: Gunnar Smári Helgason