Föstudaginn 1. júní opnar ferðaþjónustan sem rekin er í Sólgarðaskóla í Fljótum og verður opið til 1. september.  Rekstraraðilar og eigendur eru þau hjónin Kristín Sigurrós Einarsdóttir og Alfreð Gestur Símonarson frá Barði.

Sundlaugin á Sólgörðum

Þau ráku einnig ferðaþjónustuna á Sólgörðum í fyrrasumar og höfðu umsjón með sundlauginni. Útisundlaugin á Sólgörðum er mörgum að góðu kunn og var hún tekin í notkun árið 1974. Sundlaugin hefur alltaf verið vinsæl af sveitungum, ferðafólki og nágrannabyggðum enda jafnan heit og mjög skjólsælt á staðnum.

Girnilegar vöfflur eru á boðstólnum á kaffihúsi Guðrúnar frá Lundi

Afgirtur leikvöllur, aðstaða til að grilla og borða nesti er til staðar. Það er mjög vinsælt hjá fjölskyldufólki að nýta sér aðstöðuna.

Kaffihús Guðrúnar frá Lundi, sem rekið er á staðnum, býður upp á vöfflur, kaffi, ís og kalda drykki. Í sumar mun Kristín Sigurrós Einarsdóttir bjóða upp á ferðir um slóðir Guðrúnar frá Lundi.

Guðrún var ein af frægustu rithöfundum landsins og var fædd og uppalin í Fljótum. Kristín Sigurrós er menntaður svæðisleiðsögumaður og hefur í nokkur ár t.d. boðið upp á dagsferðir um slóðir Guðrúnar frá Lundi.

Kristín Sigurrós Einarsdóttir býður upp á dagsferðir um slóðir Guðrúnar frá Lundi

Þau hjónin stefna einnig á að bjóða upp á viðburði, t.d. kvennahlaup, vera með hoppkastala, tónleika, sýna fótboltaleiki o.fl.

Gisting fyrir 20 manns í uppbúnum rúmum eða svefnpokapláss (plús dýnur). Hægt að leigja allt húsið fyrir t.d. ættarmót, veislur gönguhópa og hestaferðir og hólf er fyrir hesta um 400 metra frá húsinu.
Þarna í kring eru frábærir möguleikar til gönguferða og útivistar.

Hægt er að fá frekari upplýsingar á facebooksíðu:  Sólgarða

Sólgarðar.
Mynd/Kristín Sigurrós Einarsdóttir

 

 

Sólgarðar eru staðsettir í Fljótum sem er falleg sveit miðja vega milli Hofsóss og Siglufjarðar. Ekið er um veg 76, Siglufjarðarveg, og beygt á veg nr 788, Flókadalsveg eystri. Þar blasa við skólabyggingar og sundlaugarbygging og þar eru Sólgarðar.

 

Myndir: aðsendar
Frétt: Kristín Sigurjónsdóttir