Fjölskyldan saman á Fiskideginum mikla, dagana 9. til 12. ágúst 2018 á Dalvík. 

Fjölbreyttur matseðill 25 réttir á matseðlinum, Stærsta pizza Evrópu 120″ 640 sneiðar í hverri pizzu, fiskborgarar á stærsta færibandagrilli landsins, fish and chips, filsur- fiskipylsur og Sushi. Egils Appelsín og Samál koma inn í hóp aðalstyrktaraðila, flokkun á rusli, fiskisúpukvöldið og stórkostleg tónlistarveisla þar sem að landslið íslenskra tónlistarmanna mun fara á kostum í tónlistarveislu sem endar með ógleymanlegri flugeldasýningu.

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli er nú haldinn í 18. sinn. Frá upphafi hefur markmið hátíðarinnar verið að fólk komi saman, hafi gaman og borði fisk. Enn fremur er allur matur og skemmtan á hátíðarsvæðinu ókeypis.

.

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli – Matarveislan mikla.
Í átjánda sinn er boðið til matarveislunnar miklu á Dalvík, sem flestir Íslendingar þekkja núorðið. Fiskidagurinn mikli er hátíð í sérflokki. Á Fiskideginum mikla sem er fyrsta laugardag eftir verslunarmannahelgi eru allar veitingar og skemmtanir fríar á hátíðarsvæðinu. Á síðustu árum hafa milli 27 og 31 þúsund manns komið á hátíðarsvæðið við Dalvíkurhöfn ár hvert. Dagskrá á sviði hefst klukkan 11:00 að morgni og stendur sleitulaust til klukkan 17:00.
Dagskráin er alltaf fjölbreytt, bæði á sviðinu og víðar á hátíðarsvæðinu. Mikill fjöldi fólks tekur árlega virkan þátt í undirbúningi þessarar hátíðar og margir vinna mikla sjálfboðavinnu, bæði dagana fyrir og á hátíðardaginn sjálfan.

.

Vináttukeðja – Setning hátíðarinnar – Mamma hljómar.
Það má segja að setning Fiskidagsins mikla sé með Vináttukeðjunni og hún verður hlekkjuð saman neðan Dalvíkurkirkju kl. 18:00 föstudaginn 10. ágúst með ljúfri og skemmtilegri dagskrá. Meðal þeirra sem fram koma á Vináttukeðjunni eru: Friðrik Ómar Hjörleifsson, Gyða Jóhannesdóttir, Vandræðaskáldin, Selma Björnsdóttir, karlaraddir og leikskólabörn úr Dalvíkurbyggð. Vinátturæðuna 2018 flytur Geir Jón Þórisson, börnin fá fána, knúskort og vináttuböndum verður dreift. Í lokin verður risaknús til þess að leggja vináttu og náungakærleikslínur fyrir helgina. Að venju verður flutt lagið “Mamma” sem endar í háum tónum og bombum. Lagið er eftir Friðrik Ómar Hjörleifsson og textinn eftir stjórnarformann Fiskidagsins Mikla Þorstein Má Aðalsteinsson.

.

Fiskisúpukvöldið góða.
Fiskisúpukvöldið sem svo sannarlega hefur slegið í gegn, er nú haldið í 14. sinn. Að venju er það fjöldinn allur af fjölskyldum sem tekur þátt. Súpukvöldið hefst að vanda kl. 20:15 og þar bjóða íbúar gestum og gangandi heim í fiskisúpu og að njóta einlægrar gestrisni. Þungi þessa verkefnis liggur á herðum íbúanna og þátttakenda en góðir aðilar leggja þessu verkefni mikið og gott lið. Það eru: Mjólkursamsalan með rjóma, Kristjánsbakarí með brauði, Samherji með fiski og Fiskidagurinn mikli.

.

Dagskrá á sviði frá klukkan 11:00 til 17:00 – Mætum snemma á laugardagsmorgninum.
Á sjálfan Fiskidaginn mikla, laugardaginn 11. ágúst milli kl. 11:00 og 17:00 verður að vanda margt í boði. Stundvíslega kl.11:00 opna allar matarstöðvar og dagskráin hefst . Við mælum með því að gestir séu mættir strax kl 11.00, þá er gott aðgengi að öllum stöðvum og enginn missir af neinu. Bent er á að verðlaunaafhendingar fyrir fjölskylduratleik og fleira verða mun fyrr í dagskránni en áður, þeir sem eru dregnir út í verðlaunaleikjum verða að vera
á staðnum. Við bendum sérstaklega á árlega heiðrun dagsins sem er í umsjón Svanfríðar Ingu Jónasdóttur fyrrverandi sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar og ræðumann dagsins sem kemur að þessu sinni yfir fjörðinn frá vinum okkar fyrir handan, Grenivík. Ræðumaður Fiskidagsins mikla 2018 er Guðný Sverrisdóttir fyrrverandi sveitarstjóri á Grenivík.

.

Stærsta pítsa landsins, Sushi, flatbrauð með reyktum laxi og Egils Appelsín.
Matseðill Fiskidagsins í ár er ljúffengur og áhugaverður að vanda en Friðrik V. yfirkokkur dagsins er búinn að leggja línurnar að góðum matseðli ásamt sínu fólki. Þar má að sjálfsögðu finna gamla og góða rétti, t.d. síld og rúgbrauð, filsurnar sem eru fiskipylsur í brauði með úrvali af dásamlegum Felix sósum, harðfisk og íslenskt smjör og fersku rækjurnar. Einnig verða fiskborgararnir á sínum stað þar sem verulega öflug grillsveit grillar. Líkt og á síðasta ári sameinast árgangur 1966, sem hefur staðið vaktina í mörg ár, árgangi 1965 sem þýðir einfaldlega enn meiri gleði. Nýir samstarfsaðilar eru: Egils Appelsín en nú verða allir drykkir á hátíðinni í boði þeirra og Sushi Corner á Akureyri og fáum við að smakka þeirra frábæra sushi með ferskum fiski framleiðenda á svæðinu og víðar. Fiskurinn á grillunum er með nýju sniði: fersk bleikja í rauðrófum og hunangi og ferskur þorskur í kryddjurtum og sítrus. Á bás yfirkokksins Friðrik V. og hans fólks verður í boði líkt og á síðasta ári Hríseyjarhvannargrafin bleikja og nýjung í ár verður nýbakað flatbrauð með reyktum laxi frá Arnarlaxi. Akureyri FISH og Reykjavík FISH koma með Fish and chips og það verður sérbás með Indversku rækjusalati í boði Dögunar. NINGS fjölskyldan mætir með risasúpupottinn þar sem boðið verður upp á austurlenska rækju og bleikjusúpu. Aðstoðarkokkur Fiskidagsins mikla Addi Yellow stýrir sasimistöðinni þar sem að laxinn frá Arnarlaxi, bleikja og hrefna verða í boði. Annað hvert ár fáum við stærstu pítsu landsins og jafnvel þó víðar væri leitað, 120 tommu pítsa, úr hverri pítsu koma 640 sneiðar og þetta er einmitt þannig ár. Saltfisk pítsan er samvinnuverkefni Sæplasts, Greifans og Ektafisks. Kaffibrennslan býður upp á svartan Rúbín sem er besta kaffið. Íspinnarnir frá Samhentum – Umbúðamiðlun vinum Fiskidagsins mikla númer 1 klikka aldrei. Síðast en ekki síst býður Samherji upp á sælgæti og merki dagsins.

Allar nánari upplýsingar um matseðilinn veitir Friðrik V. í síma 863-6746.

.

Dagskrá um allt svæðið – Fiskasýningin endurbætt meira og götudans hópur.
Skemmti og afþreyingar dagskráin er mjög fjölbreytt að vanda. Vegleg og fjölbreytt dagskrá verður á hátíðarsviðinu allan daginn. GG sjósport leyfir öllum að prófa Sit-On-Top kajakana, fjöldi fallegra og fægðra fornbíla frá Bílaklúbbi Akureyrar verða til sýnis, danshópurinn vefarinn sýnir þjóðdansa vítt og breitt um svæðið. Teikniveröld fyrir börnin verður á sínum stað, börnin fá glaðning þegar þau skila mynd. Frá Reykjavík kemur hinn magnaði Superkidsclub, danshópur ungs fólk. Grímseyjarferjan verður við ferjubryggjuna. Myndasýning um starfsemi Samherja til sjós og lands og persónur úr Latabæ dreifa happdrættismiðum. Leikhópurinn Lotta verður með tvær sýningar yfir daginn á hátíðarsvæðinu þar sem þau verða með söngva úr leikritunum sem þau hafa sýnt s.l. 10 ár. Fiskasýningin magnaða var sett upp innandyra í fyrra og endurbætt og nú höldum við þeim endurbótum áfram með lýsingu, texta, myndböndum og fleiru, þetta verður afar áhugaverð sýning og allir ættu að gefa sér tíma til að skoða og njóta. Um miðjan daginn verður sýndur hákarlaskurður. Þá dansa, syngja og spila listamenn, mála, teikna og sýna listir sínar víða um svæðið. Að venju er Björgunarsveitin á Dalvík með tjald á bryggjunni en þangað er hægt að leita varðandi skyndihjálp, týnd börn og fleira.

Allar nánari upplýsingar um Fiskasýninguna veitir Skarphéðinn Ásbjörnsson í síma 8926662

.

Bílastæða mál.
Skipuleggjendur Fiskidagsins mikla leggja áherslu á að gestir virði leiðbeiningar björgunarsveitarfólks og lögreglumanna um bílastæði. Á Dalvík eru allar vegalengdir stuttar svo það á ekki að vera mikið mál fyrir gesti að ganga. Einnig er óskað eftir því að heimamenn og gestir þeirra geymi bílana heima um þessa helgi.

.

Kvöldtónleikar og flugeldasýning í boði Samherja.
Enn á ný er lagt af stað með stórtónleika að kvöldi Fiskidagsins mikla. Tónleikarnir eru samvinnuverkefni Samherja, RIGG viðburðafyrirtækis Friðriks Ómars, Fiskidagsins Mikla, Exton og fl. Á sjöunda tug tæknimanna, söngvara og hljóðfæraleikara taka þátt í þessari stórsýningu sem er að öllum líkindum ein sú stærsta og viðamesta sem hefur verið sett upp á Íslandi. Meðal þeirra sem koma fram eru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt og Eyþór Ingi Gunnlaugsson. Auk þeirra verða Ragnheiður Gröndal, Helga Möller, Helgi Björnsson, Katrín Halldóra, Egill Ólafsson, Jói P og Króli, Jón Jónsson, Páll Rósinkrans og Eiríkur Hauksson. Að venju er það stórhljómsveit Rigg viðburða eða með öðrum orðum landslið Íslands sem spilar undir. Dagskráin endar með risaflugeldasýningu sem Björgunarsveitin á Dalvík sér um.

Nánari upplýsingar um tónleikana veitir Friðrik Ómar í síma 868-9353
Nánari upplýsingar um flugeldasýninguna veitir Haukur í síma 8538565

.

Flokkun á rusli.
Undanfarið hafa stjórnendur Fiskidagsins mikla unnið að því að skipuleggja flokkun á rusli sem fellur til á fjölskylduhátíðinni. Í ár verður skrefið tekið lengra með samvinnu fjögurra aðila, Samáls samtaka álframleiðenda, Sæplasts, Gámaþjónustu Norðurlands og Fiskidagsins mikla. Stefnt er að því að flokka álpappír, plast og almennt sorp ásamt því að dósir og plastflöskur eru flokkaðar af Björgunarsveitinni á Dalvík og rennur ágóðinn af þeirri söfnun óskiptur til sveitarinnar. Næstu árin stefnir hugur þessara aðila til enn meiri flokkunar og að fá fleiri aðila að borðinu.

.

Í hvað götu átt þú heima í – kíktu á www.fiskidagurinnmikli.is

Líkt og undanfarin ár breytum við götunöfnunum á Dalvík í Fiskidagsvikunni úr þessum venjulegu og í fiskanöfn, í ár heita allar götur eftir hvalategundum. Nafnaskilti á að vera komið í götuna þína og listann er einnig að finna á heimasíðu Fiskidagsins mikla. Það væri gaman ef að sem flestir settu status á Facebook og segðu einfaldlega “ Ég á heima í …og síðan nýja nafnið á götunni”.

.

Þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri er áhugaverð.
Á átjánda ári Fiskidagsins Mikla þegar horft er til baka er margt að hugsa um. Eitt af því sem er frábært er þátttaka íbúa og gesta á öllum aldri. Það er magnað að ár eftir ár taki á fjórða hundrað sjálfboðaliðar þátt í að búa til það ævintýri sem fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn Mikli sannarlega er, þessir allra yngstu taka þátt í pökkun og skreytingum og þeir allra elstu pakka, skreyta og taka að sér dómnefndarstörf í skreytingasamkeppnum svo að fá eitt sé nefnt.

.

Frá forvarnarnefnd Fiskidagsins mikla 2018 – Stöndum saman.
Vinna nefndarinnar snýr að því að gera góða hluti enn betur og byrgja brunnin áður en barnið dettur ofan í hann. Í ár gaf forvarnarnefndin út póstkort sem hefur verið sent heim til foreldra barna/unglinga á ákveðnum aldri. Þar er m.a. að finna skilaboð eins og „Mömmu og pabbar við berum ábyrgð á börnum okkar til 18 ára aldurs „ og“ Útivistartíminn er ekki viðmið – heldur bundinn lögum og gildir líka á sumrin“. Póstkortið liggur einnig frammi á þjónustustöðum. Virðum skilaboðin og landslög. Börnum, 18 ára og yngri er óheimilt að tjalda á tjaldsvæðunum nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum. Við þurfum öll að standa saman í að fylgja reglum eftir. Börn mega ekki vera á ferli eftir tilsettan útivistartíma nema í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum.

 

SKILABOÐ – Ekkkert pláss fyrir dóp og drykkjulæti.
Það er von aðstandenda Fiskidagsins mikla að allir skemmti sér vel, njóti matarins og þeirra atriða sem í boði eru. Sérstaklega vonumst við til þess að allir eigi góðar og ljúfar stundir með fjölskyldu og vinum. Fiskidagurinn mikli er fjölskylduhátíð þar sem hvorki er pláss fyrir dóp né drykkjulæti. Aðstandendur hátíðarinnar leggja mikla áherslu á að íbúar og gestir hafi ekki áfengi um hönd á auglýstum dagskrárliðum Fiskidagsins mikla og á það sérstaklega við um
Vináttukeðjuna og á hátíðarsvæðinu á laugardeginum milli kl. 11:00 og 17:00 á hátíðarsvæðinu. Frá upphafi höfum við haft frábæra gesti sem hafa gengið einstaklega vel um og fyrir það viljum við þakka sérstaklega.

Góða skemmtun á fjölskylduhátíðinni Fiskideginum mikla í Dalvíkurbyggð.

Allar nánari upplýsingar veitir Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins Mikla 8979748

Vefsíða Fiskidagsins er: www.fiskidagurinnmikli.is

Fréttatilkynning: aðsend
Myndir frá Fiskideginum 2017: Bjarni Eiríksson