Þessi grein er skrifuð annarsvegar með umræðu um þörf fyrir stefnumótun í flugmálum landsins í huga, sem gagnar öllum landsmönnum og einnig sem smá áminning um hversu langt við vorum í rauninni komin í þessum málum þegar 1950.

Svo langt að í stóru sænsku tímariti birtist grein með dásamlegum ljósmyndum þar sem Svíarnir dáðst að uppbyggingu flugsamgagna á Íslandi. (“Allir fljúga á Íslandi segir í greininni og það eru 4 stórar flughafnir þar og 40 minni flugvellir víðsvegar um landið,” þið getið lesið stutta þýðingu á þessari grein og séð stórkostlegar ljósmyndir hér neðar. Ljósmyndarinn er hinn mikli Íslandsvinur Hans Malmberg.)  Sjá grein hér á mbl.is: Fjársjóður Hans Malmbergs

Hvert hvarf þessi metnaðarfulla flugsamgöngusaga ?

Hrapaði hún eða dó hún út vegna stjórn-áhuga og stefnuleysi ríkisvaldsins eða voru hagsmunir „Mammons“ látnir ráða framyfir öryggi og hagsmuni landsbyggðarinnar ?

Greinarhöfundur ætlar ekki að rökræða þessar ástæður hér og nú og það eru til aðrir sem eru betur til þess fallnir að skrifa flugsögu Íslands.

Sá t.d. grein á mbl.is frá 16 ágúst 2003. Höldum allri flugsögu Íslands til haga.

Í landi sem liggur 2000 km úti í Atlandshafinu og þar sem ekki er til járnbrautakerfi sem flytur fólk frá strönd til strönd eru velþróaðar flugsamgöngur ómetanlega góður kostur. Íslendingar hafa svo sannarlega tekið til sín þessa nýju samgöngutækni. ALLIR FLJÚGA Á ÍSLANDI. Ljósmyndari: Hans Malmberg.

 

Greinarhöfundur er fæddur og uppalinn í Fjallabyggð og í sumar gerðust þau undur og stórmerki að bæjarfélagið eða réttara sagt bæjarstjórinn tók yfir rekstur flugvallarins eftir að honum tókst að hrista út nokkrar krónur úr sparibaukum ríkis og bæjarfélags  ( 15. millur) til að lagfæra þennan fyrir löngu síðan ónýta flugvöll.

Þar með er Fjallabyggð fyrsta og eina bæjarfélagið á Íslandi sem er með eigin flugmálastefnu, þó svo að hún sé nokkuð óljós og fjárhagslega einkennileg.

Sjá greinar hér um flugmálastefnu Fjallabyggðar á trölli.is: VILJA OPNA FLUGVÖLLINN Á SIGLUFIRÐI Í SUMAR og…….. SVARIÐ KOMIÐ (Svar bæjarstjóra við spurningum bæjarbúa um rekstur og flugmálastefnumótun Fjallabyggðar)

Þetta þótti mörgum óþarfa „landsbyggðarfrekja“ frá fólki sem er nýbúið að fá bæði rándýr jarðgöng og snjóflóðavarnargarða. En lesandi góður, reyndu að misskilja mig rétt, ég hef ekkert á móti opnun flugvallarins, það var hið mesta öryggisþarfaþing.
Mínar efasemdir í þessu máli snúast um hvort það sé virkilega í verkahring bæjarfélaga að reka flugvelli ?

Sá sem beitti sér hart í þessu flugvallar- og nýlega líka í hafnarmálum Fjallabyggðar er núverandi bæjarstjóri Hr. Gunnar Birgisson en þegar hann var „stórborgarþingmaður“ sagði hann eftirfarandi í ræðu varðandi samgönguáætlun 2005-2008:

………”Í fyrsta lagi vekur það athygli varðandi flugmálaáætlun að verið er að eyða um 200 milljónum í lengingu á Þingeyrarflugvelli. Þetta er varaflugvöllur fyrir Ísafjörð þar sem eru 25–30 lendingar á ári, aðallega út af því að Fokker-vélarnar geta þá verið fulllestaðar, þ.e. með 50 farþega í staðinn fyrir 25 eða 28 eða hvað það er.

Maður spyr: Hverju skilar þessi fjárfesting? Þetta er náttúrlega bara algjör della, virðulegi forseti………”

Í sömu ræðu um hafnarmál sagði hann eftirfarandi: ……..”Maður spyr einnig: Hvers vegna er verið að stækka þessar hafnir og garða endalaust? Nú er það í auknum mæli svo að menn landa í þessum höfnum og skipin stækka en svo minnka þau aftur og hvað eina. Ég held að þurfi að fara eitthvað yfir þetta…….”

Og í  lok sömu ræðu, skoðun Gunnars á Héðisfjarðargöngum:

.……”Loks eru það Héðinsfjarðargöngin sem er ein sú vitlausasta framkvæmd sem ég hef heyrt um í langan tíma. Það er framkvæmd upp á 6–7 milljarða og jafnvel meira. En það er annað sem ég hefði samþykkt þarna og talið rétt og það er að gera göng frá Fljótunum og beint yfir á Siglufjörð þannig að menn þyrftu ekki að keyra Siglufjarðarskriður því að þær eru allar á hreyfingu og gætu farið á haf út einn góðan veðurdag. En að fara þessa leið er alveg ótrúlegt mál……”

Hægt er að lesa ræðu Gunnars Birgissonar í heild sinni hér: Samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008.721. mál[15:31] Gunnar Birgisson (S)

Það er smá Donald Trump lykt af þessu öllu …………. en batnandi mönnum er best að lifa……..í Fjallabyggð.

 

Auðvitað snýst þetta allt saman um öryggi og valmöguleika í samgöngum og byggðarþróun sem skapar möguleika fyrir framtíðina. Íslenskir ríkisborgarar sem búa úti á landsbyggðinni eiga rétt á að lifa við sama öryggi og valmöguleika og aðrir landsmenn.

Týpísk viðbrögð stórborgarbúa við frétt frá landsbyggðinni um lífsnauðsinlegar öryggis framkvæmdir fyrir suma ríkisborgara Íslands.

 

En eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan má varla nefna fjárfestingar og þróun á landsbyggðinni án þess að einhver “STÓRBORGARI” byrji að kasta tölu á hversu ógeðslega dýrt þetta sé reiknað á hvern haus.

Það er eins og að það megi ekki nefna orð eins og  flugvöllur, jarðgöng og snjóflóðavarnargarðar í landsbyggðarfréttum hvað þá setja öll þrjú orðin í sömu setninguna.

 

Hér má einnig sjá nýlega umræðu á alþingi í tilefni 100 ára flugsögu Ísland og þörfina fyrir að til sé stefnumörkun í flugmálum landsins.
149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

Mótun flugstefnu.

“…………og þetta gæti verið samspil á milli þessarar sértæku eigandastefnu Isavia sem ríkið setti og uppbyggingu innanlandsflugsins — væri til að mynda að Isavia tæki að sér reksturinn á öllum fjórum millilandaflugvöllunum, þ.e. Akureyri, Egilsstöðum, Reykjavík, auk Keflavíkur sem þeir reka í dag. Síðan myndi ríkið með þjónustusamningi við Isavia (Forseti hringir.) einbeita sér betur að minni flugvöllunum og gæti þar með eflt þá samtímis.”

Hmm…….það má nú alveg ræða það hvort að flugstöðin á Akureyri sé nú ekki líkari stórri strætóstoppistöð en millilandaflugstöð. En bráðlega verður ódýrara að fljúga frá þessari stoppistöð til London en til Reykjavíkur.

En nú er nóg komið af landsbyggðarfrekju.

Snúum okkur að dásamlegum ljósmyndum og skemmtilegum myndatextum sem sýna tíðarandann á Íslandi og lauslegri þýðingu á sænsku blaðagreininni úr vikutímaritinu SE frá 1950.

Þið setjið svo þessa sögu og myndirnar inn í ykkar eigin flugsamgöngusögu og “þróun og hrörnun”  þeirra mála í ykkar byggðarlagi.

Því sá sem kann ekki sína sögu mun villast í sinni eigin framtíð!

Fyrir bara 20-30 árum var hesturinn besta faratækið á Íslandi og hann er það sumstaðar ennþá. Reiðskólanámskeið á Íslandi snúast ekki um að kenna börnum einhverjar sirkuskúnstir á hestbaki, nei hér þurfa mörg börn að kunna ríða hesti til þess að komast í skólann á þægilegan máta.

 

Ísland er landið sem hefur allt og ekkert……..

Engar eiturslöngur, engir úlfar eða elgir, tré eða kol og ekkert járngrýti eða járnbrautir.

Þar af leiðandi er það ekkert skrítið að engum hafi dottið það í hug að byggja járnbrautakerfi á þessari eyju. Maður myndi þurfa að flytja inn hverja einustu skrúfu og þar fyrir utan kosta járnbrautateinar offjár í rekstri og viðhaldi.

En svo hefur þetta land ákveðið að í staðin fyrir járnbrautir að fjárfesta í „tip-top“ flugsamgöngukerfi, eitt það besta innanlandsflugkerfi sem til er í heiminum.

5.600 km vegakerfi finnst á Íslandi, sumir vegir eru hræðilega slæmir en aðrir ekki. Sumstaðar er einfalt að leggja vegi eins og í þessum hraunafláka. Smá veghefilsvinna og vegurinn er tilbúinn fyrir kaffipásuna. Þetta er eins og að keyra bíl á tunglinu.

 

Allt gengur hratt fyrir sig á Íslandi.

Í kringum 1937 var Flugfélag Íslands stofnað og er það enn í dag stærsta og stöðugasta flugfélag landsins. Í upphafi hafði Flugfélag Íslands aðalstöðvar sínar á Akureyri sem er lítið bæjarfélag með um 5000 íbúa.

Hér kemur síðan langur listi með flugvéla innkaupasögu félagsins frá 1938 til 1950…………

Þessi flugfloti er nú ekki lélegur útfrá þeirri staðreynd að til eru fleiri flugfélög á þessari litlu lýðræðis eyju sem er með færri íbúa en Malmö.

Mynd 1: Á háannatímanum standa jeppar í röðum á verslunargötum borgarinnar. Á Íslandi eru til 8.000 bílar. Mynd 2: Rúturnar eru líklega besti ferðamátinn fyrir túristana en þú skalt ekki halda að vegalengdirnar séu stuttar. Nei, Ísland er stór eyja.

 

Á Íslandi fljúga allir!

Í Svíþjóð þykir það fréttnæmt að 100 ára öldungar fari í flug, en hér á landi myndi það vera erfitt að finna einhvern sem er 100 ára sem hefur EKKI farið í flugvél.

Mynd 1: Brýr eru nýjasta tískan á Íslandi. 330 brýr hafa verið reistar síðustu 30 árin og meira er væntanlegt. Mynd 2: En það eru enn til kaflar við þjóðveg 1 sem passa bátum betur en bílum.

 

Reykjavíkur flugvöllurinn er stærsti innanlandsvöllur Ísland og hefur ekkert að gera með millilandaflugið sem fer fram á Keflavíkurflugvelli. Flugvöllurinn í Reykjavík sinnir bara innanlandsfluginu og metárið 1948 reiknuðust þar 8.543 lendingar. Í ár hafa 11.268 farþegar farið um Reykjarvíkurflugvöll og þá eru ekki reiknaðar lendingar á milli annarra flugvalla landsins.

Vöruflutningar með flugi voru á sama tíma um 49.562 kg og póstur 12.460 kg.

Veðurskilyrðin á Íslandi gera það erfitt að halda upp jöfnum farþegaflutningum allt árið og má þá nefna að í júlí voru lendingar 861 og í febrúar bara 122.

Mynd 1: 40 litlir flugvellir og 5 stórir tilheyra innanlandsflugkerfinu. Það ætti að duga dágóða stund inní framtíðina. Mynd 2: Á meðan stelpurnar í Stokkhólmi taka sporvagn númer 7 á dans í Gröna Lund þá taka þessar Íslensku flugið á ball á laugardagskvöldum.

 

Fyrir okkur hlutlausa áhorfendur finnst manni nokkuð sérkennilegt að tvö flugfélög séu með ferðir á næstum sama tíma og daga á sömu staðina. En þessi einkennilega samkeppni mun örugglega leiða til samruna og hagræðingar í náinni framtíð.

Nú þegar er hægt að fljúga nær daglega til New York, London, Kaupmannahöfn og Osló.

En á stuttum flugleiðum innanlands eru þessir 1000 hestafla stórfuglar ekki endilega besti ferðamátinn. Sumstaðar er ennþá einfaldast að nota 1 hestafl fyrir sum skólabörn sem þurfa að ríða yfir ár og hrauneyðimerkur sem líkjast landslaginu á tunglinu.

Mynd 1: Það eru glæsilegar línur á bæði flugvél og farþegum. Á leið á ball í Vestmannaeyjum. Mynd 2: Að finna 1000 metra langan flugvöllinn á Heimaey í þoku er……….samt eru flugslys mjög sjalgæf.

 

Stutt um vikutímaritið SE sem var stofnað 1938. Þetta blað var frá fyrstu byrjun karlrembutímarit. Meiningin var að hafa mikið af ljósmyndum og greinum sem höfðuðu til karlmanna á ýmsum aldri. Tæknigreinar og svolítið nakið líka inn á milli. Svolítið eins og LIFE magasín í upphafi blandað með Playboy. En þetta tímarit endaði meira og minna sin feril sem klámblað og fór svo endanlega í gröfina 1981. Guði sé lof.

Sjá meira hér um sögu SE á Wikipedia.

Opnugrein á bls. 16 og 17 í tímaritinu SE. 1950. Bara nokkuð flott “layout”.

 

Lifið heil.

Kær kveðja.

Nonni Björgvins

LISTA YFIR AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON FINNUR ÞÚ HÉR.

TEXTI OG þýðing:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Grein úr tímaritinu SE. tölublað númer 43, 1950:
Landet där allt flyger i luften. bls. 16 og 17.

Greinarhöfundur: Åke Hjelm

Ljósmyndari: Hans Malmberg