Ida Semey

Ida Semey flutti jólahugvekju á FM Trölla í dag. Hér má lesa hugvekjuna og neðst á síðunni má hlusta á flutning Idu.

Bróðir minn Ian hló upphátt þegar ég sagði honum frá beiðni sr. Sigríðar Mundu um að vera með hugvekju um dönsk jól og við vorum sammála um að jól bernsku okkar hefðu aldrei verið neitt sérlega dönsk, enda við hálf dönsk og hálf hollensk, alin upp á Spáni og núna bý ég á hjara veraldar, í Ólafsfirði og hann í Malmö. En sem börn voru þetta jólin þar sem við ólumst upp í algerri menningarbræðslu.

Foreldrar mínir komu úr ólíkum áttum, mamma mín var dönsk, hún var alin upp í fjölskyldu þar sem farið var í kirkju um jólin, dansað var kringum jólatréð á aðfangadagskvöld og gefnir voru pakkar. Pabbi minn var fæddur í Hollandi en ættaður frá Belgíu, myndhöggvari, hann hafði gaman af lífinu og tilverunni og lifði fyrir listina, hann var hins vegar óskírður, og fannst allt þetta kristna aðventustúss, jólays og þys og gjafaflóð algjör óþarfi, þoldi ekki danskan jólamat og tjáði sig á hverjum jólum um það. Pabbi minn var alinn upp í hefðinni kringum biskupinn Sint Nikolas og aðstoðasveina hans, Swarte Piet sem 5. desember koma alla leið frá Spáni á gufuskipi, Sint Nikolas á hvítum hesti og hinir á svörtum hestum. Þeir færa góðu börnunum nammi en óþekku börnunum kol.

Ég man eftir laginu sem ég sönglaði með honum sem barn :

Zie, ginds komt de stoomboot
Uit Spanje weer aan!
Hij brengt ons Sint Nicolaas
Ik zie hem al staan.
Hoe huppelt zijn paardje
Het dek op en neer,
Hoe waaien de wimpels
Al heen en al weer.

Haustið 1965 var mamma mín að sauma fallegan rauðan flauels kjól með borðum úr hvítum kanínufeldi. Kjóllinn var handa annari stelpu og ég var notuð sem módel því stelpan var álíka stór og ég. Auðvitað lá alveg eins kjól í jólapakkanum mínum og ég á enn mynd af mér í honum á aðfangadagskvöld.

Í millitíðinni skildu foreldrar mínir og Jólin 1969 voru haldin í miðborg Kaupmannahafnar. Hér bjuggum við í stórri íbúð með stjúp-pabba mínum, sem var arkitekt og hönnuður. 1969 var fyrsta ferð mannkynsins til tunglsins og honum fannst tilvalið að halda upp á það á nýstárlegan hátt. Jólatrén, 3 samtals, voru hengd í loft upp og látin svífa yfir gulum svampbolta sem átti að vera tunglið. Táknrænt og svo sannarlega eftirminnilegt. En á aðfangadagskvöld dvaldi stjúpi minn yfirleitt hjá börnunum sínum og fyrrverandi og við heima hjá Afa eða Ömmu – þau voru líka skilin – með öllu tilheyrandi, jólatré og gjöfum, möndlugjöf og sögum.

Jólin 1974 voru fyrstu jólin okkar á Spáni og árin þar eru i minningu okkar þau jól sem við munum best eftir. Fyrstu jólin vorum við með spænskt furutré og bjuggum til nýtt jólaskraut sem við áttum það sem eftir var. Jólin á Spáni einkenndust af því að við sköpuðum okkar eigin jólahefðir í framandi landi, með því sem foreldrar mínir völdu að halda í sem var danskt (jólatré með kertum, julefrokost, möndlugrautur ), purusteik, brún sósa, og heimagert rauðkál en á bakka Miðjarðarhafsins – 50 m frá ströndinni, oftast í glampandi sólskini, alveg nógu hlýtt til að drekka kaffi á svölunum eða fara niður að fá okkur kaffi á veitingahúsinu rétt hjá.

Á aðventunni var tímanum varið í smákökubakstur, rúllupylsugerð, gera svínasultu, baka lifrarkæfu og pate, steikja kleinur, leggja síld í lögun, fara á markaðinn og kaupa inn fyrir jólin.

22. desember var yfirleitt farið snemma á markaðinn í Alicante og keypt inn fyrir jólin. Úti á götu og inni á öllum kaffihúsum hljómaði fyrir hádegi söngur ungra stráka sem voru að draga vinninga í jólalottóinu í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Með árunum fannst okkur það einmitt „hringja inn“ jólin.

Á Spáni er löng hefð fyrir því að setja upp stórar jólajötur úti á torgunum og keppt er um flottustu jólajötuna. Jólatrén hafa bæst við s.l. 4 áratugi en í þá daga voru þau oftast fleiri mánuði á leiðinni til landins og það mátti varla koma við þau því þá duttu nálarnar af. Við brugðum á það ráð að spreyja tréð með hárlakki og skreyttum það á aðfangadagsmorgunn.

Á aðfangadagskvöld var kveikt á kertunum á jólatrénu, við sungum alltaf sömu lögin, þar á meðal bara einn sálm en hin lögin endurspegluðu jólin sem hátíð sólstöðu t.d. þetta eftir nóbelsskáldið Johannes V Jensen:

Vor sol er bleven kold
vi er i vintervold
og dunkle dage.
Men nu er nedgang endt
og håbet tændt
– ja, håbet tændt,
for nu er solen vendt,
nu kommer lyset og den lange dag tilbage.

Við horfðum á kertin brenna niður á meðan við fegnum jólagjafir og borðuðum smákökur. Mamma okkar var alin upp við að sýna gestrisni, sérstaklega um jólin. Mér er minnisstætt þegar 2 ungir Marokkóbúar bönkuðu upp á hjá okkur á aðfangadag. Foreldrar mínir höfðu kynnst þeim í Marokkó á ferðalagi sínu þar. Þeir voru að efla loforð um gestrisni sem þeim var gefið þá. Þeir komu inn og fengu að borða, allir töluðu saman en svo héldu þeir áfram sína leið enda sérstök hátíð hjá okkur.

Á Spáni eru jólagjafir gefnar á þrettándanum, í anda jólaguðspjallsins. Á hverju ári mæta vitringarnir þrír til Spánar á stórum skrúðvögnum eða í skrúðgöngum, kasta nammi frá sér og skilja eftir gjafir sem börnin opna morguninn eftir. Á aðfangadagskvöld söfnuðust hins vegar stórfjölskyldurnar saman yfir kvöldmat og fóru í miðnæturmessu – la Misa del Gallo.

Á námsárunum mínum í Hollandi ferðaðist ég oft heim til Spánar en var líka einstöku sinnum í Hollandi um Jólin. Ég söng m.a. í kaþólskum kirkjukór í Haag í Hollandi og fór þá í miðnæturmessu á aðfangadagskvöld þar sem við sungum hollensk jólalög og fórum með bænirnar á latínu. Þegar heim var komið um miðnætti var borðaður jólamatur. Í Hollandi rifjaðist upp hefðin með Sant Nikolás og þegar fullorðna fólkið fagnaði saman Sint Nikolaas fylgdi hverri gjöf gáta sem átti að leysa áður en pakkinn var opnaður. Ég vandist því að fá fólk í kaffi 24. desember og það ríkti sannkölluð Þorláksmessu stemning enda allt opið. Jóladagur var hins vegar fullorðins hátiðardagur. Maður aðlagar sig auðvitað að mörgu.

Þegar foreldrar okkar voru á Spáni áttuðu þau sig á að það skipti máli að eiga eigin hefðir, sennilega af því þau voru stödd langt frá heimalandinu. Hefðirnar sem við bjuggum til endurspegluðu menningararfinn okkar og lífsviðhorfið en tókum til okkar ýmislegt af því sem tilheyrði menningarheiminum sem við vorum stödd í. Þetta varð að ramma sem var fastur en léttur og sveigjanlegur í senn, hann færði okkur dásamlega tilfinningu um öryggi, gleði og eftirvæntingu, sem eru svo mikilvæg í daglegu lífi.