Næsta verkefni hjá KF er á Laugardaginn 1. september kl 13:00, en þá mætir KH í heimsókn á Ólafsfjarðarvöll. Þetta er fyrsta skipti sem KH mætir á Ólafsfjarðarvöll enda liðin að spila í fyrsta skipti saman í deild. KH er svokallað venslalið hjá Val og eru þeir að spila í fyrsta skipti í 3. deildinni í ár.  Fyrri leikur liðanna fór fram á Hlíðarenda þar sem KH sigraði okkar menn örugglega 3-1.

KF ætlar að selja sig dýrara í þessum leik enda ekkert grín fyrir lið að koma til Fjallabyggðar að sækja stigin þrjú. KF er búið að vera á mjög góðu skriði í deildinni og hefur liðið sigrað síðustu fjóra leiki deildarinnar, og ekki fengið á sig mark í síðustu þremur leikjum. KF er í 4. sæti deildarinnar með 25 stig.
KH hefur hinsvegar misst dampinn heldur betur en liðið er búið að vera í öðru sæti deildarinnar nánast frá byrjun en liðið hefur verið að ströggla í síðustu leikjum og mistekist að ná sigri í síðustu 4 leikjum en eru þó aðeins með 1 stigi minna en KF í 5. sæti með 24 stig.

Staðan í deildinni er þannig að Dalvík/Reynir situr á toppi deildarinnar með 31 stig og

Screen Shot 2018-08-30 at 18.15.57.png

Staðan í deildinni fyrir leik KF og KH

16 leiki spilaða, KFG er í öðru sæti með 26 stig og 15 leiki spilaða. Vængir Júpíters í því þriðja með 26 stig og eins og Dalvík með 16 leiki spilaða. Síðan koma okkar menn KF með 25 stig og 15 leiki spilaða og í 5 sæti er KH með 24 stig og 15 leiki spilaða. Spennan er því gríðarleg fyrir síðustu 3 umferðir deildarinnar og eru öll lið í bullandi toppbaráttu og má ekkert lið við því að tapa stigum það sem eftir er.

Leikurinn á laugardaginn verður gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið, og verður það líkt og allir leikir KF miklir baráttu leikir og hvorugt liðið má misstíga sig í toppbaráttunni því tap útilokar nánast möguleika liðanna að komast upp um deild að ári.

Ljubomir Delic og Andri Snær Sævarsson koma tilbaka í hópinn eftir að hafa verið í banni gegn Ægi. Tveir aðrir leikmenn hjá KF fara í bann gegn KH og eru það Grétar Áki Bergsson og Halldór Logi Hilmarsson en báðir hafa þeir fengið 4 gul spjöld. Hópurinn hjá KF hefur þó ágætis breidd og kemur ávalt maður í manns stað.

Kfbolti.is náði tali af Halldóri Ingvari Guðmundssyni markmanni KF um komandi leik gegn KH og spurði hann um möguleika KF í þessum leik.
„Okkar möguleikar í þessum leik eru miklir enda kemur ekkert lið hingað á Ólafsfjarðarvöll og tekur 3 stig auðveldlega. KH er hinsvegar með öflugt lið og verður þetta spennandi leikur“.
Stuðningurinn skiptir miklu máli og hefur mætingin á völlinn í sumar verið þó nokkuð góð en það má alltaf gera betur.
„Já klárlega, stuðningurinn er gríðarlega mikilvægur og ef fólk ætti einhverntíma að hafa ástæðu til að styðja okkur og mæta á völlinn er það núna. Við ætlum okkur að leggja okkur alla fram til þess að knýja fram sigur og halda okkur lifandi í þessari toppbaráttu.“

Við hvetjum ALLA íbúa Fjallabyggðar og aðra stuðningsmenn KF til að mæta á völlinn og gera sér glaðan dag og styðja okkar menn til sigurs.

 

Frétt og skjáskot: Knattspyrnufélag Fjallabyggðar