Það fer væntanlega ekki fram hjá neinum að kosningar eru á næsta leiti. Í ljósi þessa ákváðum við að efna til okkar eigin kosninga hér á Núpaskál. Að sjálfsögðu fór fyrst fram prófkjör þar sem hvert barn fyrir sig tjáði sig um hvað væri besti maturinn þeirra og þau vildu jafnframt að yrði á boðstólum í hádeginu. Niðurstöður voru svo teknar saman og voru 3 réttir sem lentu á kjörseðlinum sem voru myndrænir, Hamborgari, Grjónagrautur og Pizza.

Nú að sjálfsögðu þurfti einnig að útbúa kjörkassa og kjörklefa. Þegar allir voru búnir að kjósa þurfti að sjálfsögðu að telja atkvæðin en þau voru sett á blað upp á vegg þar sem sýnilegt var í stöplariti hvaða réttur vann kosninguna. Að því loknu skunduðu börnin með niðurstöðurnar til Lísu inn í eldhús og afhentu henni formlega. Grjónagrauturinn vann kosninguna.
Mjög fljótlega verður svo grjónagrautur í matinn 😊

Með þessu getum við með sanni sagt að við séum að vinna í anda Aðalnámskrár leikskóla sem og Námskrá Leikskála, en einn grunnþáttur menntunar er einmitt lýðræði og mannréttindi. Enn eins og svo oft áður erum við ekki að vinna með einn þátt menntunar en inn í þetta verkefni kemur stærðfræði, samvinna og svo margt annað.

Börnin voru mjög áhugasöm og ánægð með þessa vinnu.

Frétt og mynd: aðsent