Heitar umræður hafa skapast manna á milli í Eyjafirði um mengun skemmtiferðaskipa. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa undanfarna daga mælt mengun frá skemmtiferðaskipum í Reykjavíkurhöfn. Í frétt á Vísi.is kemur fram að mælingarnar sem unnar voru með aðstoð þýsku náttúruverndarsamtakanna Nature and Biodiversity union (NABU) sýna að magn örsmárra agna í útblæstri skipa var um 200 sinnum meira en eðlilegt megi teljast.

Frá Akureyri. Mynd úr einkasafni

„Þegar skemmtiferðaskipin eru ekki inni þá er nánast engin mengun. Mjög lítil. Mun minni en í evrópskum stórborgum af þessum efnum. Þannig að þetta er svona 200 sinnum meira en grunnástand væri,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, í samtali við Vísi.

„Þetta eru agnir af sóti sem myndast við bruna á svartolíu sem þessi skemmtiferðaskip brenna. Þau mega ekki brenna þegar þau eru í landi en þau brenna svartolíu á leiðinni til dæmis í kringum landið. Þetta er gríðarleg mengun sem berst mjög víða og mjög langt. Sótagnir af þessu tagi þær leggjast á ís og jökla og hraða bráðnuninni,“ segir Árni.

Þegar sótagnirnar leggjast á jökla minnkar endurkast sólarljóss frá ísnum, ísinn drekkur í sig meiri hita og bráðnar þar af leiðandi hraðar.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Banna eigi bruna svartolíu

Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökunum segir að brýnt sé að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir bruna svartolíu á norðurslóðum, bæði til að vernda heilsu almennings og hægja á hlýnun andrúmsloftsins. Þar segir einnig að flutningar á svartolíu séu ógn við lífríki norðurslóða og að svartolíu til að knýja skip beri að banna.

„Brýnt er að stjórnvöld banni losun brennisteins og bruna svartolíu innan efnahagslögsögu landsins (Emission Control Area (ECA)), en slík svæði hafa verið stofnuð í Eystrasalti, Norðursjó og meðfram ströndum Norður Ameríku. Enn fremur, upphæð hafnargjalda ætti að hækka eftir því sem skipin menga meira. Skipafélögin verða að sýna meiri ábyrgð gagnvart náttúru landsins og heilsu almennings.“

Adam Óskarsson tók þessa mynd fyrr í sumar, en skipið er á móts við Dalvík, spúandi reyk frá svartolíubruna.

Dr. Axel Friedrich var vísindalegur ráðgjafi við mælingarnar og lagði hann áherslu á þann skaða sem mengun frá skipum getur valdið á heilsu almennings. Hann benti á að samkvæmt mati framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins látist árlega um 50 þúsund einstaklingar af völdum loftmengunar frá skipum.

„Vélar eins og eru um borð í skemmtiferðaskipunum myndu ekki fá starfsleyfi á landi og það er hneyksli að skipafyrirtæki komist upp með að menga jafn mikið og raun ber vitni,” sagði Friedrich, og bætti við, að „Fyrir hendi eru tæknilausnir sem duga vel til að leysa þennan vanda.”

Frétt: Vísir.is og Náttúruverndarsamtök Íslands
Myndir: úr einkasafni og Vísir.is