Sjálfsbjörg á Siglufirði var stofnuð 9. júní 1958 og hefur starfað af krafti síðan. Í dag er aðal starfsemin í húseign félagsins að Lækjargötu 2, Siglufirði.

Í norðurenda hússins er starfrækt vinnustofa þar sem allir eru velkomnir. Vinnustofa Sjálfsbjargar er opin alla virka daga frá kl. 13.00 – 16.00 og koma þangað einstaklingar til að föndra í keramik eða gleri fyrir sjálfan sig, aðrir koma með sitt föndur, prjóna eða hekludót. Síðan eru enn aðrir sem vinna í sjálfboðavinnu við að gera hin fegurstu listaverk sem síðan eru seld til styrktar Sjálfsbjörg, til að halda starfseminni úti eru þessir fallegu handgerðu munir seldir á opnunartíma.

Sögðu þær að meðal annars væri orðið algengt að ferðafólk, jafnt Íslendingar sem útlendingar komi inn úr dyrunum til að vinna fallega muni með þeim. Þess má einnig geta að þarna koma einnig börn og unglingar til að föndra og eru þau virkilega velkomin. Daglega mæta um 10 -15 manns.

Það eina sem þarf til að koma og vinna sér fallega muni er að drífa sig með góða skapið, annað sjá þessar dugnaðarkonur um. Til sölu á staðnum eru óunnir keramikmunir, innifalið er í verðinu eru allir litir og brennsla. Sama má segja um glermunina, þarna eru öll verkfæri og hráefni til staðar ásamt tilsögn. Þær eru einnig með til sölu minningarkort fyrir Sjálfsbjörg á Siglufirði.

Sjálfsbjörg á Siglufirði á einnig íbúð í suðurenda hússins sem er leigð út og lætur gott af sér leiða víðs vegar í bænum.

Þarna er unnið af áhuga eins og sjá má

Fyrsta Sjálfsbjargarfélagið var stofnað á Siglufirði þann 9. júní 1958 og á sama ári voru stofnuð félög í Reykjavík, á Ísafirði, Akureyri og í Árnessýslu.

Landssamband Sjálfsbjargar var svo stofnað ári seinna, 4. júní 1959 og sama ár bætast við félög í Bolungarvík og í Vestmannaeyjum.
Árið 1960 á Húsavík, 1961 á Suðurnesjum og 1962 á Sauðárkróki.

Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) var stofnað árið 1961 en Ólöf Ríkarðsdóttir, ritari Sjálfsbjargar hafði frumkvæði að því. Í dag er Sjálfsbjörg aðildarfélag ÖBÍ. Árið 1963 hóf Sjálfsbjörg samstarf við norræn systursamtök í gegnum Nordisk Handikap Förbund. Sama ár gefa aðildarfélögin Sjálfsbjörgu fundarhamar úr fílabeini eftir Ríkarð Jónsson, myndhöggvara. Ríkarður samdi vísubrot sem síðan þá hefur verið einkunnarorð samtakanna „Alltaf beita upp í vindinn, eygja, klífa hæsta tindinn“.

Málað og prjónað

Árið 1970 voru Sjálfsbjargarfélög stofnuð í Stykkishólmi, á Akranesi árið 1970 og árið 1974 í Neskaupstað. Sjálfsbjörg kom að stofnun Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík ásamt ÍSÍ árið 1974. Árið 1976 kom Sjálfsbjörg að stofnun Hjálpartækjabankans sem var seldur Össuri hf. árið 1995.

Sjálfsbjörg skipulagði „jafnréttisgöngu“ fatlaðra 1978 í tilefni árs fatlaðra og um 10 þúsund manns mæta á baráttufund til að sýna stuðning við fatlaða.

Árið 1981 var stofnað Sjálfsbjargarfélag í Austur-Húnavatnssýslu, árið 1984 á Höfn í Hornafirði og á Vopnafirði árið 1991. Þá voru félögin innan landssambandsins orðin 16. Árið 1993 tók hópur manna sig saman og stofnaði „Hollvini Sjálfsbjargar“, samtök einstaklinga sem leggur reglulega fram fasta upphæð til styrktar samtökunum.

Árið 1996 gerðist Félag heilablóðfallsskaðaðra aðili að Sjálfsbjörg.

Glæsilegir handgerðir glermunir sem eru til sölu

Í tilefni af 60 ára afmæli félagsins verður opið hús laugardaginn 9. júní frá 14.00 – 17.00
Kaffiveitingar verða í boði og allar vörur seldar með 25% afslætti.


Frétt og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir