Nýafstaðinn Samnorræn Strandmenningarhátíð samfara árlegri Þjóðlagahátíð á Siglufirði lauk formlega sunnudaginn 8 júlí. Þessum tveimur hátíðum var slegið saman og útkomunni má einna helst líkja við landlegur á síldarárunum hér í denn.

Fólk spjallaði saman á “Skandinavísku” út um allan bæ og það var sungið og dansað á bryggjuballi í lokin.

Tveir Færeyskir sjóarar og á milli þeirra situr eldri eldhress fyrrverandi Hreppstjóri frá Grímsey.

 

Bjarni (Bibbi) gamall Færeyskur skipstjóri gantast við Sigurbjörgu Árnadóttur formann Vitafélagsins.

Við getum léttilega sagt stolt að Siglufjörður varð enn og aftur “Nafli Alheimssins,” “Klonedyke Norðursinns” og “Höfuðborg Síldarinnar” þessa yndislegu daga og á félagsmiðlum mátti sjá að margir brottfluttir Siglfirðingar og svo margir aðrir sem tengjast firðinum ástarböndum voru með ákafa heimþrá og óskuðu sér einskins annars en að geta verið með í gleðinni í logninu og blíðunni á Sigló.

Frönsk skúta liggur við bryggjuna hjá Síldarminjasafninu í bakgrunninum sést í Húna og Norska skipið “Gamle Oksøy” sem er í rauninni fljótandi minjasafn.

Sumir sem voru í fýlu og með einhverja öfundsýki kölluðu þennan stað “Sódóma Íslands” hér áður fyrr en þeir hafa líklega aldrei upplifað svona daga og nætur sem enda með miðnætursól sem birtist í miðjum fjarðarkjaftinum þegar ballið er búið en þá vill enginn fara heim að sofa því það er dásamlegt þarna í þessu miðbæjarumhverfi með smábátahöfnina 100 metrum frá Torginu.

Hólshyrnan horfir ánægð yfir lífið og fjörið í bænum.

 

Segl og hátíðarfánar og okkar glæsilega hótel Sigló í bakgrunninum

Og hér voru sko enginn læti, bara gleði og vinátta.

Alls staðar eru gamlir vinir og ættingjar að hittast og þeir faðmast og kyssast að Siglfirskum sið. Þessi bær er að því leytinu skrítinn að “brottfluttir” eru líklega þrisvar sinnum fleiri en þeir sem búa þarna núna.

Brottfluttir, bæjarbúar og gestir hátíðarinna sitja á spjalli við Harbor House.

 

Vinir og ættingar á spjalli

Svíarnir sem voru í för með greinarhöfundi spurðu mig hvort ég væri skyldur öllum bænum því maður komst ekkert áfram í göngutúrum um bæinn og ég hikaði smá en svaraði svo: Ja….líklega er ég skyldur yfir 50 % og svo er maður tengdur öllum hinum frá vinaböndum úr barnæsku.

Örlygur og Gústi Dan taka lagið fyrir gesti hátíðarinnar sunnan við gamla frystihúsið sem nú hýsir Brugghúsið Segull 67. Í flökunnarsalnum uppi var stór og mikil listasýning.

Hér á Sigló er enginn bara einhver ókunnugur, hér eru allir velkomnir og allir vilja spjalla við þig á “túrísku” eða skandinavísku. Þessi innileiki og gestrisni Siglfirðinga kemur örugglega úr fortíð þar sem bæjarbúar höfðu þörf fyrir hjálp utan frá til þess að geta hreinlega bjargað öllum þeim verðmætum sem síldin (Silfur hafsins) bar með sér í land.

Frægur sænskur síldarréttakokkur steikir ferska sumarsíld fyrir gesti og gangandi við Síldarminjasafnið

 

Fallegur Færeyskur grindhvalaveiðibátur á siglingu í logninu með seglið uppi.

 

Gestir standa á bryggjunni við Síldarminjasafnið og horfa á þessa fallegu báta

Allt það fólk sem vann myrkranna á milli við að skapa þessa Skandinavísku landlegustemmingu á heiður skilið fyrir sína vinnu. Þá vill ég sérstaklega þakka Anitu Elefsen og hennar fólki á Síldarminjasafninu, Sigurbjörgu Árnadóttur hjá Vitafélaginu og öllum sem tengjast þeim félagsskap og síðast en ekki síst Gunnsteini Ólafssyni frænda mínum fyrir að hafa þessa einstæðu atorku í að með öllu sínu músík fólki setja upp Þjóðlagahátíð nítjánda árið í röð.

Anita Elefsen hleypur frá forsetaheimsókn til að ná því að kveðja sænska gesti

Það var dásamlegt að margir gestir töluðu um og dáðust af því útboði af menningu sem var hér í þessum litla bæjarfélagi og gildir það jaft listaviðburði, ljósmyndasýningar, tónleika og annað í bæði Siglufirði sem og Ólafsfirði. Það var gott að skreppa inn í Héðinsfjörð annað lagið og taka smá pásu í kyrrðinni þar.

Það hefur ætíð verið gríðarlegur ljósmyndaáhugi á Siglufirði og það var fjöldinn allur af ljósmyndasýningum í Fjallabyggð þessa daga. Hér er hún “Hadda símamær” ekkja Hannesar Bald við eina af hans frábæru bæjarlífsljósmyndum.

 

Þetta er hann Bibbi frá Færeyjum, þegar hann kom á málþing í Gránu gat ég ekki stillt mig sem ljósmyndadellukall að taka mynd af þessum mikla karakter. Ég hugsaði þegar ég sá hann: “Gamli maðurinn og hafið, Ernst Hemmingway sjálfur mættur á Sigló.

 

Tveir gamlir síldarsjómenn frá Svíþjóð, Arne 78 ára og Bernt 90 ára ræða við Íslenskt tröll í garðinum hjá Gistiheimilinum Hering House

Að lokum vill ég þakka fyrir mig og biðja alla þá sem ég ekki náði að heimsækja að fyrirgefa mér. Þetta var stíft prógramm.

Sjáumst næsta sumar.

Kveðja

Nonni Björgvins

Og að lokum sólarlagskveðja til ykkar allra frá skerjagarðinum í Lysekil á vesturströnd Svíþjóðar.

Texti og ljósmyndir:
Jón Ólafur Björgvinsson