Í kjallara herbergi á Siglufirði situr svartskeggjaður karlmaður, nokkuð þrekinn, og smíðar örsmáar fígúrur sem hafa vakið heims athygli. Nákvæmnin í þessari smíði er með hreinum ólíkindum. Nánast óskiljanlegt hve smíðin er fíngerð og nákvæmt unnin, sérstaklega þegar maður sér hendurnar á manninum. Svo málar hann hlutina með penslum sem sumir ná ekki nema einum tíunda úr millimetra á breidd.

Fyrsta módelið, takið eftir rúnaletri á sverðinu !

 

Ég kíkti í heimsókn á dögunum, tók svartskegg tali og fékk að skoða vinnustofuna og verkin.

 

Nákvæmnin er með ólíkindum, allt handmálað.

 

En út á hvað gengur þetta ?  –  Jú, þetta er í tengslum við herkænskuspil sem nefnist Warhammer 40.000 og á að gerast árið 40.000 !!  Það yrði allt of langt mál að fara nákvæmlega út í hvað það er hér, en fyrir þá sem vilja kynna sér Warhammer 40.000 þá má sækja lýsingu á því hér

Það eru heilmiklar bókmenntir á bak við þetta.

 

Warhammer bókmenntir

 

Óli Símon að mála eitt módelið.

 

Svartskeggur heitir í raunheimum Ólafur Símon Ólafsson og starfar sem matreiðslumaður á Sigló hóteli.  Óli Símon er með Instagram síðu, með um 5.500 “followers” sem þykir mjög gott, sérstaklega vegna þess hve sérhæft þetta er. Til samanburðar er Warhammer Official, sem er aðal Warhammer Instagram síðan, með ca 52.000 fylgjendur á meðan Óli Símon er með um 5.500 eins og fyrr segir. Það er því nokkuð ljóst að hann er mikils metinn í þessum fræðum.

Nexus “nördabúðin” í Reykjavík er styrktaraðili, eða “sponsor” fyrir Óla, og þar má finna glerskáp með nokkrum af módelunum sem Óli Símon hefur gert.

 

Óli Símon að grunn-mála módel

 

Óli Símon býr lang flest módelin til sjálfur, oft með því að nota ýmsa hluti úr hinum og þessum ósamsettum módelum, sem hann breytir og bætir á ýmsa vegu, og sumt smíðar hann alveg frá grunni. Hann keypti t.d. nýlega Volkswagen dótabíl á Aliexpress og setti á hann byssur og alls kyns hernaðardót til að hann félli inn í Warhammer samfélagið, en þar gilda strangar reglur um hvað má og hvað ekki varðandi magn og gerð vopna og búnaðar. Málningarvinnan er líka stór og mikilvægur þáttur.

 

Volkswagen bifreið, talsvert breytt og endurbætt !!

 

Nýlega var sérstök umfjöllun um piltinn og verk hans hjá Warhammer official sem kallast “Hobbyist focus” og þykir mikil viðurkennig að fá slíka sér-umfjöllun.

 

Hobbyist focus hjá Warhammer Official

 

Óli Símon notar líka leir, gítarstrengi, þykkan pappír og allt mögulegt í módelin.

 

Glæsileg þessi

 

Hundurinn Óskar, með nafnið sitt á hálsólinni, tilbúinn í stríð.

 

Stríðsmennirnir kallast Orkar, og Óli Símon lýsir þeim svona: “Orkarnir eru brútal gaurar sem smíða alls kyns tæki og tól úr engu, peningarnir þeirra eru tennur andstæðinganna, súper grotesk víkingar, eini tilgangur þeirra er stríð, þeir bara verða að berjast, og sá sem er búinn að slást mest, hann er stærstur og sterkastur og ræður. Þannig er þeirra samfélag.”

 

Stríðsmenn

 

Fleiri stríðsmenn í safninu hans Óla Símonar

 

Það tekur 40 – 100 klukkustundir að smíða hvert módel.

 

Metallinn á fullu í vinnustofunni !

 

Sumir vilja hafa frið og ró þegar þeir eru að einbeita sér, en hér er það METALLINN sem gildir ! Kröftugt skal það vera.

Óli Símon er fæddur og uppalinn á Siglufirði, kominn af listafólki og hefur alltaf teiknað og málað, lærði myndmennt hér og sótti kvöldskóla hjá Örlygi Kristfinnssyni, fór suður til náms eins og svo margir, lærði heilbrigðis- iðnaðar- og vélaverkfræði sem hann lauk þó ekki, og segist ekki ætla að klára af því hann nennir ekki að sitja á skrifstofu og reikna út föll, þótt hann eigi auðvelt með það. Þrífst ekki nema vera að gera eitthvað með höndunum.

 

Ólafur Símon Ólafsson á vinnustofunni.

 

Hér er hægt að finna miklu fleiri myndir af verkum Ólafs

 

Myndir og texti: Gunnar Smári Helgason.