Sunnudaginn 16. desember fengu þau Kristín Sigurjóns og Gunnar Smári góða gesti til sín í þáttinn Tíu dropa sem er á dagskrá alla sunnudaga á FM Trölla milli kl. 13.00 – 16.00.

Það voru þau sómahjón Sigrún Kristjánsdóttir og Pálmi Bjarnason og tilefni heimsóknar þeirra var útgáfa ljósmyndabókarinnar “Þingvellir” sem þau voru að gefa út.

Hér má heyra viðtalið við þau, það byrjar á um það bil 23. mínútu. Hlusta

 

.

Pálmi er fæddur og uppalinn í sveit og hefur alltaf liðið best með náttúrunni. Þegar hann flutti á mölina byrjaði hann að ferðast um landið og frá upphafi var myndavélin hluti af farangrinum, hvort sem hann ferðaðist um á jeppa eða á tveimur jafnfljótum með bakpoka.

Fyrir fimmtán árum fór ljósmyndaáhuginn að taka á sig nýja mynd og mun alvarlegri. Tók Pálmi þátt í sinni fyrstu ljósmyndasýningu og þá var ekki aftur snúið. Fyrsta ljósmyndabókin, sem hann tók þátt í með þremur félögum sínum, kom út 2008.

Síðan þá hefur  hann tekið þátt í útgáfu fjögurra ljósmyndabóka, síðustu þrjár með konunni sinni, Sigrúnu Kristjánsdóttur. Ljósmyndunin hefur alltaf verið áhugamál, sem unnið var við samhliða fullri vinnu.

 

Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson skrifaði formála að bókinni

 

Sigrún er eins og Pálmi, uppalin í sveit. Hefur hún alla tíð veri náttúruunnandi þó svo að hún hafi ekki áttað sig á því fyrr en á fullorðins árum. Faðir hennar átti myndavél og hafði tekið nokkuð af myndum sem henni þótti gaman að skoða þegar hún var barn.

Sigrún var um ellefu ára þegar hún eignaðist sína fyrstu myndavél. Ætli það séu ekki um fimmtán ár síðan áhuginn kom fram af alvöru.

Eins og Pálmi hefur hún tekið þátt í ljósmyndasýningum ásamt öðrum og svo fór hún að gefa út ljósmyndabækur, fyrsta bókin hennar kom út 2008. Hluti af vinnu hennar er ljósmyndum og myndvinnsla.  Sigrún hefur verið að taka myndir fyrir “Sumarhúsið og garðinn” í sirka þrjú ár.

Upphafið að útgáfu ljósmyndabókar þeirra var hugmynd um að gera litla ljósmyndabók um Þingvelli, með staðreyndatextum. Þingvellir urðu fyrir valinu vegna þess að þeir eru einn af merkilegustu stöðum Íslands, en samt er ekki til nein nýleg ljósmyndabók frá staðnum.

Þegar þau fóru að vinna við ljósmyndunina í bókina fannst þeim að staðurinn ætti skilið meira en litla bók. Fljótlega settu þau sér það markmið að reyna að sýna Þingvelli í öðru ljósi en flestir ferðamenn upplifa staðinn, sem er á milli kl. 9 og 18.

Þegar þau fóru að velta fyrir sér uppsetningu á bókinni kviknaði sú hugmynd að finna textahöfund til að skrifa um staðinn. Það var auðvelt að finna höfundinn; þau þekktu Hörpu Rún og höfðu lesið texta sem hún hafði skrifað. Þau voru bæði hrifin af stílnum og vissu að Harpa Rún hefði lag á að nálgast efnið frá öðru sjónarhorni en flestir aðrir.

Mynd úr bókinni

Harpa Rún hafði algjörlega frjálsar hendur hvernig hún nálgaðist verkefnið. Niðurstaðan varð að hún skrifaði yfir sextíu ljóðræn textabrot (án þess að skoða myndirnar) og Sigrún og Pálmi völdu myndir úr myndasafni sínu sem þeim fannst falla að textanum. Hvort þetta er ljósmyndabók með ljóðrænum texta eða ljóðabók með ljósmyndum verður hver og einn að ákveða fyrir sig, markmiðið er að myndir og texti styðji hvort annað og myndi sterka heild.

Flestar myndanna voru sérstaklega teknar fyrir bókina á árunum 2015-2016, en elstu myndirnar eru frá 2005 og þær yngstu frá 2018. Textinn hennar Hörpu í bókinni er ljóðrænn og skemmtilegur.

Hörpu Rún langaði að gera eitthvað öðruvísi og skipta um sjónarhorn þegar hún fékk þetta verkefni að finna texta við ljósmyndabók um Þingvelli. Þingvellir eru risa fyrirbæri, náttúrufræðilega, menningarlega og hugmyndafræðilega, þeir eru svona hluti af þjóðarsálinni. Það er vonlaust að gera svoleiðis löguðu skil í stuttum prósa.

Undirtitill bókarinnar, Í og úr sjónmáli (In and out of sight), endurspeglar kannski þá hugmyndafræði sem Harpa Rún lagði upp með. Ljósmyndir sýna svo margt en það er líka svo margt sem er ekki hægt að taka myndir af, eins og andrúmsloft, saga, fortíðin og tilfinningar. Hana langaði að textinn sýndi eitthvað af þessu sem er úr sjónmáli.

Reyndar sá hún ekki nema örfáar af myndunum fyrr en hún var búin að skrifa textann, vildi ekki skrifa um myndir, heldur leyfa textanum að verða til á sjálfstæðan hátt, alveg eins og Sigrún og Pálmi tóku ekki myndir við textann.

Þannig mætast tvö listform og skapa eitthvað nýtt í sameiningu, af því að þau geta líka staðið ein og sér. Í upphafi las hún einhver ósköp um Þingvelli, eiginlega alveg yfirþyrmandi mikið. Óx henni í augum að gera þessu öllu skil og lengi vel skrifaði Harpa nánast ekkert nema sögur af umbrotum í iðrum jarðar, aftökum og ofbeldi.

Mikið af þessum textum er bein endursögn af einhverju sem hún las, bara með aðeins öðrum orðum. Það tengist þessu með að skipta um sjónarhorn. Við nálgumst alltaf lífið með sjálf okkur sem viðmið, en það er mikilvægt að reyna að setja sig í spor annarra, hvort sem það er hitt kynið, náttúran, blóm eða dýr. Þannig verðum við aðeins skárri heldur hún.

Hörpu Rún langaði til að vekja upp raddir sem ekki fá endilega að heyrast og segja söguna frá þeirra augum. Einnig fór hún nokkrar ferðir á Þingvelli vopnuð blaði og penna. Fannst henni skemmtileg upplifun að sitja þar innan um öll snjalltækin og skrifa.

Forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson skrifaði formála að bókinni og er hún bæði á íslensku og ensku.

 

Myndir:úr einkasafni/Trölli.is