Í dag föstudaginn 24. ágúst kl. 12:00 mun Þórarinn Hannesson flytja frumsamin lög við ljóð eftir norðlensk skáld. Má þar nefna ljóð eftir Davíð Stefánsson, Ólöfu frá Hlöðum, Hjört Pálsson, Jón frá Ljárskógum, Sverrir Pál Erlendsson, Láru Stefánsdóttur og fleiri.

Þórarinn Hannesson hefur verið að vasast í tónlist í 40 ár og af því tilefni ætlar hann að halda 40 tónleika á þessu ári. Tónleikarnir á Amtsbókasafninu verða númer 24. Tónlistarferillinn hófst þegar trommusett var keypt fyrir fermingarpeninga og hljómsveitin Brestur var stofnuð, hún var skólahljómsveit Barnaskóla Bíldudals 1978 – 1979. Síðan hefur Þórarinn starfað með hljómsveitum og sönghópum á Bíldudal, í Reykholti og Siglufirði.

Fyrir um 30 árum fór hann að semja eigin lög og texta og koma fram sem söngvaskáld, hefur hann gert mikið af því á síðari árum. Þórarinn er íþróttakennari að mennt og kennir við Menntaskólann á Tröllaskaga, auk þess sem hann fæst við þjálfun, skriftir og fleira smálegt. Hann stofnaði Ljóðasetur Íslands á Siglufirði árið 2011 og er forstöðumaður þess, þar kemur hann reglulega fram með gítarinn. Hann hefur sent frá sér 5 ljóðabækur og 5 geislaplötur með frumsömdu efni.

Ókeypis verður inn á tónleikana. Verið hjartanlega velkomin!

Frétt og mynd: 40 ár – 40 tónleikar