Jón Trausti Traustason

Jón Trausti Traustason bóndi, vitavörður og veðurathugunarmaður á Sauðanesi við Siglufjörð sendir Veðurstofunni mánaðarlega tíðaryfirlit yfir veðráttu mánaðarins.

Yfirlit yfir veðrið í desember 2018 frá veðurstöðinni á Sauðanesvita.

Fyrstu þrjá daga mánaðarins voru N. og N.A. áttir með snjóéljum. Hvasst var þ. 1. en svo smá lægði vindhraða. Dagana þ. 4. og þ. 5. voru hægar S.A. áttir en áfram frost. Að kveldi þ. 6. gerði svo aftur N.A. átt með éljagangi á ný. Stóð þetta veður svo áfram þ. 7. með nokkurri slyddu. Lægði svo aftur þ. 8. með lítilsháttar snjóéljum.

Þar á eftir gerði svo 9 daga veðurstillu. Þá voru hægar S.A. áttir ríkjandi með úrkomulitlu veðri og góðum hita. Að kveldi þ. 19. gerði þoku og var þoka eða þokuloft viðloðandi hér á og við stöðina til og með þ. 21. Þoka á þessum árstíma er ekki fordæmalaus hér en þó óalgeng. Frá og með þ. 22. til þ. 29. voru svo suðlægar áttir ríkjandi með mildu og úrkomulitlu veðri. Síðustu tvo daga ársins gerði svo N.A. og N. áttir með kólnandi veðri. Slydda og snjókoma var meðfylgjandi og mældist mesta staka úrkoman að morgni þ. 31. eða 21,4 mm.

 

Tekið 3. janúar og ekki snjóföl á túnum. Mynd: Jón Trausti Traustason

 

Meðalhiti mánaðarins var + 2,27 stig og úrkoma mældist 56,8 mm.
Hæst komst hitinn í + 11,6 stig þ. 11. og lægst þ. 4. er hiti fór niður í – 6,1 stig.

Í heild séð telst þessi Desember mánuður mjög góður hvað veðurfar varðar og talsvert betri en í meðalári. Mánuðurinn var mildur eins og sést á meðalhita hans. Snjólag var gefið fram til þ 25. en þar af aðeins flekkótt jörð frá þ. 17. Mesta snjódýpi var þá 20 sm þ. 2. til og með þ. 5. Jarðlag var gefið dagana 26. til 30. og þá sem rök jörð. Kannað var með frost í jörð og fannst það ekki hér á láglendi.

Síðustu tvo dagana var svo aftur gefið snjólag og þá var snjódýpt 6 sm. Úrkoma var lítil heilt yfir og tiltölulega langir veðurkaflar án úrkomu. Alls voru 11 dagar í mánuðinum þar sem engrar úrkomu varð vart. Til gamans má deila heildarúrkomumagni mánaðarins niður á daga hans og er úrkoma per dag þá 1,8 mm.

Sjá frétt um tíðarfar nóvembermánaðar á Sauðanesi: Hér

 

Forsíðumynd: Halldór Þormar