Laugardaginn 16. júní voru opnaðir og vígðir tveir glæsilegir strandblakvellir í Dalvíkurbyggð en vellirnir eru staðsettir sunnan við íþróttamiðstöðina á Dalvík.

Það eru félagar í blakfélaginu Rimum sem eiga veg og vanda af þessu framtaki en félagið vann alla vinnu og skipulag í kringum vellina í sjálfboðavinnu með góðum styrkjum frá Dalvíkurbyggð, Samskip og Kötlu ehf. Vellirnir eru tveir, eins og áður sagði, og heita þeir Samskipa-völlurinn (austan megin) og Kötlu-völlurinn (vestan megin).

Hægt er að bóka vellina með því að fara inn á facebook síðu vallanna Strandblak Dalvik en þar er að finna skráningarskjal til að bóka vellina. Fyrir þá sem ekki hafa aðgang að tölvu er hægt að hafa samband við íþróttamiðstöðin og biðja starfsfólk þar um að bóka völlinn.

Umsjónarmenn vallanna biðja notendur þeirra að ganga vel um svæðið, týna upp rusl og skilja svæðið eftir í góðu ásigkomulagi. Eins er vert að minna á að þeir sem eiga völlinn bókaðan ganga fyrir og ber þeim sem eru á vellinum á þeim tíma að víkja þegar bókaður tími byrjar.

Meimild: Dalvík.is