Unnur Valborg Hilmarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og tekur hún við starfinu 1. júlí næstkomandi af Birni Líndal Traustasyni. Í tilkynningu segir að Unnur Valborg hafi áralanga reynslu af rekstri og stjórnun. Síðastliðið ár hafi hún starfað við stjórnendaþjálfun og námskeiðahald, rekstur íbúðagistingar á Hvammstanga, verið framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands, framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi og aðstoðarframkvæmdastjóri Hreyfingar, heilsuræktar.

Unnur var oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra á árunum 2014-2018 og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir sveitarfélagið á þeim tíma. Hún er einnig formaður Ferðamálaráðs, formaður stjórnar Markaðsstofu Norðurlands og á sæti í skólanefnd Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra.

Unnur er með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og Diploma í viðskipta- og rekstrarfræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið prófi í Stjórnendamarkþjálfun frá Opna Háskólanum og Coach U.

Eiginmaður Unnar er  Alfreð Alfreðsson húsasmíðameistari og eiga þau 3 börn.

 

Af huni.is