18 útskriftarnemar frá Listaháskóla Íslands eru á Siglufirði og Ólafsfirði þessa dagana í listasmiðju ásamt kennara sínum, sem Aðalheiður Eysteinsdóttir hýsir í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Aðalheiður starfar einnig sem kennari LHÍ í þessu samstarfi.

Sindri Leifsson kennari hópsins sagði í viðtali við Trölla að þetta er stór hluti útskriftarnemanna, sem valdi að koma norður í tveggja vikna vinnustofu. Annar hluti nemanna er í vinnustofu í Reykjavík. “Þetta snýst mjög mikið um að tengjast samfélaginu hér og starfa með ýmsum ólíkum aðilum” sagði Sindri. “Viðvera okkar hér er blanda af kennslu með fyrirlestrum og innlögnum frá heimamönnum, við fáum þrjár heimsóknir heimamanna með fyrirlestra og innlagnir”. Auk þess er um að ræða sjálfstæða vinnu nemendanna á tímabilinu.

Nemarnir munu skipuleggja viðburði í bænum næstu tvær vikurnar og nú þegar er búið að skipuleggja viðburð sem verður í Herhúsinu næsta laugardag, og samsýningu í Segli 67 laugardaginn 26. janúar n.k.

Krakkarnir eru búin að skoða marga staði á Siglufirði, svo sem Síldaminjasafnið, sundlaugina, bakaríið, rakarastofuna, bókasafnið, Sjálfsbjörgu og eru full af hugmyndum.

Í kvöld fara svo nemar tveir og tveir saman í mat til heimafólks á Siglufirði og í Ólafsfirði. Þetta gefur þeim tækifæri til að kynnast heimamönnum, og einnig heimamönnum að kynnast þessum ungu og upprennandi listamönnum. Þannig myndast tengsl milli fjölskyldna og listafólksins sem er að stíga sín fyrstu skref utan skólans, nýbúin að skila lokaritgerðum sínum, og eru að undirbúa lokaverkefnin til að útskrifast frá LHÍ í vor.

“Þetta myndar svo mikilvæg tengsl, bæði fyrir listafólkið en ekki síður fyrir okkur íbúa Fjallabyggðar, að kynnast og tengjast þessu unga og upprennandi listafólki sem er að stíga sín fyrstu skref eftir skólann” segir Aðalheiður.

“Það hefur sýnt sig með þessa hópa sem hafa verið að koma til okkar hingað í Alþýðuhúsið, bæði Reitir og listasmiðjan SKAFL, að þetta fólk er að skila sér mikið aftur inn í samfélagið með ýmsum hætti, til að sýna, koma með fjölskyldurnar sínar, og tveir eru búnir að kaupa sér hús hérna, og sumir vilja helst setjast hér að. Allt er þetta árangur af því skapandi starfi sem fram fer hér” segir Aðalheiður einnig.

 

(aftari röð): Ólöf Björk Ingólfsdóttir, Salka Rósinkranz, Jóhanna Rakel, Jóhann Ingi Skúlason, Hákon Bragason, Hjördís Gréta Guðmundsdóttir, Katla Rúnarsdóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, Nína Kristín Guðmundsdóttir, Sindri Leifsson kennari, (fremri standandi): Sigrún Erna Sigurðardóttir, Valey Sól Guðmundsdóttir, Patricia Carolina, María Rún Þrándardóttir, Bernharð Þórsson, Helena Margrét Jónsdóttir, (sitjandi): Óskar Þór Ámundason, Harpa Dís Hákonardóttir, Hildur Elísa

 

Heimsóknin er liður í starfi LHÍ, í samstarfi við Aðalheiði og aðra heimamenn, en er einnig hugsað sem smá pása frá hefðbundnu skólastarfi.

Búast má við ýmsum uppákomum hjá þessu listafólki þessar tvær vikur sem þau dvelja á Siglufirði.

Trölli.is mun birta fleiri fréttir af þessu starfi.