Nýlega kom út lagið Playing With Fire með Inki, Ingibjörgu Friðriksdóttur.
Þetta er fyrsta lagið af væntanlegri plötu Thoughts Midsentence sem kemur út í byrjun næsta árs. 

Inki er vel þekkt í tónlistarheiminum fyrir tónsmíðar en hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín sem hafa hljómað víða, í evrópu sem og vestan hafs. 

Ingibjörg Friðriksdóttir, Inki

Í laginu Playing With Fire gefur Inki í fyrsta skipti út tónlist þar sem hún syngur, en hún hefur áður gefið út tvær plötur. Það er aðeins rúmur mánuður síðan sú seinni kom út en á þeirri plötu, Brotabrot, blandaði hún saman tilraunakenndri raf- og danstónlist við frásagnir fyrrum fanga frá Kvennafangelsinu í Kópavogi. 

Playing With Fire var samið og tekið upp í upptökuveri Inki, Studió Bókó, í Reykjavík. Inki sá sjálf um upptökur en í laginu má heyra Kristófer Rodriguez Svönuson leika á trommur og Þórdísi Gerði Jónsdóttur á selló. 

Inki fékk til liðs við sig Ceastone, Hafstein Þráinsson, til að klára pródúseringuna á laginu og hljóðblöndun. 

En gaman er að geta þess að þau eiga öll sín eigin solo verkefni, og hafa gefið út plötur undir eigin nöfnum. Ceastone gaf út elektróníska plötu, Þórdís Gerður jazz-sellóplötu og Kristófer Rodriguez Svönuson latin-jazz. 

Inki segir um lagið Playing With Fire:

Það eru nokkur ár frá því að ég sagði vinkonu minni Önnu Marsibil Clausen að mig langaði til þess að gefa út plötu þar sem ég myndi syngja, þá var ég búin að eyða miklum tíma í hljóðverinu og var farin að sakna þess að koma fram. En bakgrunnur minn er í söng þar sem ég útskrifaðist með diplóma frá Söngskólanum í Reykjavík, áður en ég lauk meistaragráðu í tónsmíðum. 

Ég notaði það alltaf sem afsökun að ég gæti ekki gefið út þessa plötu af því að ég vildi ekki skrifa texta. Anna Marsíbil tók þá afsökun ekki gilda, hún er sjálf sterkur textasmiður og áður en ég vissi af byrjaði hún að deila með mér mögulegum textum. Svo ég hafði enga afsökun lengur. 

Textarnir eru oftast skrifaðir í hljóðverinu, við erum með einhverja hugmynd sem við síðan ræðum og hún kemur í bundið mál. Þessi texti fjallar um ástarsambönd, þetta er samt ekki ástarlag og ekki heldur „break-up“ lag, heldur einhverskonar millibilsástand þar á milli. Hver og einn getur síðan fundið sína merkingu í því.

Lagið verður frumflutt í þættinum Tónlistin á FM Trölla klukkan 13:00 á morgun.