Lesendur Trölla.is hafa kosið Anitu Elefsen safnstjóra Síldarminjasafns Íslands sem mann ársins á Siglufirði.

Frá 11. desember gafst lesendum Trölla.is kostur á að tilnefna þá manneskju sem sem skarað hefur framúr á Siglufirði 2018 að þeirra mati. Fjöldi tilnefninga hefur borist og hlaut Anita flestar tilnefningar.

Það sem skrifað var af lesendum til stuðnings tilnefningar Anitu hefur verið vel rökstutt og hér að neðan má sjá nokkrar færslur.

  • Skipuleggjandi strandmenningarhátíðar, ritstjóri afmælisbókar – auk þess að reka stærsta ferðamannastað byggðarlagsins af elju og metnaði.
  • Starf að komu skemmtiferðaskipa, strandmenningarhátíð, Síldarminjasafni og bókaútgáfunni.
  • Vegna útgáfu Ljósmyndabók Siglufjarðar.
  • Stendur sig rosa vel í starfi sínu í Síldarminjasafninu.
  • Vinnur ótrúlega flott starf bæði fyrir samfélagið með óendanlega hag þess fyrir brjósti. Ps. gerir það hægt og hljótt og hreykir sér ekki af því.
  • Glæsilegur fulltrúi Siglufjarðar meðal unga fólksins.
  • Vegna alls þess óeigingjarna starfs sem hún gerir af svo mikilli ástríðu og metnaði fyrir allt samfélagið utan vinnuskyldu sinnar. Allir frá leikskólabörnum til ellilífeyrisþega og frá heimamönnum til ferðamanna fá að njóta krafta hennar.
  • Eldklár og lipur stjórnandi og mikill dugnaðarforkur.
  • Er glæsilegur fulltrúi fyrir markaðssetningu Siglufjarðar og flink í sínu starfi.
  • Verðugur fulltrúi bæjarins í öllu sem hún framkvæmir.