Sigurvegarar Gagnaþons fyrir umhverfið hlutu 750.000 kr. í verðlaun og voru það þeir Davíð Phuong Xuan Nguyen, Róbert Ingi Huldarsson, Þórður Ágústsson og Þórður Friðriksson eða Volgar pulsur.

Sigurlausn þeirra Flikk flokk er snjallsímaforrit (App) sem auðveldar endurvinnslu með því að veita upplýsingar um hvernig má endurvinna vöru, þegar strikamerki hennar er skannað.

„Með því að vinna sífellt að nýsköpun skapast ný verðmæti sem tryggja hagsæld landsins, bæta lífskjör fólks og hjálpa okkur að ná markmiðum sem við höfum sett okkur í umhverfis- og loftslagsmálum. Verkefni eins og það sem við verðlaunum hér í dag hefur líka þann augljósa kost að einfalda fólki lífið, með því að gera almenningi auðveldara að leggja sitt af mörkum til umhverfismála,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann afhenti verðlaunin fyrir besta gagnaverkefnið.

Tilgangur gagnaþonsins var að ýta undir sýnileika opinberra gagna og stuðla að nýsköpun með verkefnum sem ráða bót á fjölbreyttum umhverfisvandamálum.

Þátttakendur skiluðu inn lausnum í einum af þremur flokkum:
Besta gagnaverkefnið,
besta endurbætta lausnin og
besta hugmyndin.

17 teymi skiluðu inn lausnum í keppninni.

Nýsköpunarkeppnin Gagnaþon fyrir umhverfið stóð yfir dagana 12. – 19. ágúst.

Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins.