Enn og aftur get ég ekki sagt farir mínar sléttar varðandi ofurdýr og léleg viðskipti við Íslandspóst og PostNord og ekki virðast gervigreindar samskipti á milli þessara Norrænu fyrirtæka sem bæði eru í ríkiseign vera í lagi heldur.

„Köp inte grisen i säcken!” ( Ekki kaupa svínið í pokanum) er gamall sænskur talsmáti og áminning um að láta ekki plata sig í viðskiptum, en því miður, neyðist maður til að nota þessa ömurlegu rándýru póstþjónustu og þá sérstaklega þegar maður vill gleðja vini og skyldmenni kringum jól og afmælisdaga með gjafasendingum á milli landa.

„Ég var að senda þér pakka, pakkanúmerið er: CG004334463IS“, skrifaði minn kæri bróðir til mín á Messenger rétt eftir hádegi 7 desember.
Í sama augnabliki þegar ég kleif sjálfur út frá umboðsaðila PostNord hér heima í Ale kommun. Af fenginni reynslu fyrri jólaára var ég mjög duglegur við að „skrifa á ensku“ í þetta skiptið, nákvæma lýsingu um innihald pakkans og að þessar jólagjafir kostuðu bara 400 sænskar krónur, svo að bróðir þyrfti nú ekki að borga innflutningsgjöld af þessum jólagjöfum.

Surprise!
Það stendur utan á pakkanum hvað þú færð í jólagjöf.
Við bræðurnir áttum síðan stutt netspall og vorum við báðir í áfalli yfir að hafa borgað hvor um sig, rétt yfir 5000 Isk. undir pakka sem voru rétt yfir 1,5 kg. Semsagt, samanlagt yfir 10.000 Isk. fyrir 3 kg af jólagjöfum á milli Svíþjóðar og Íslands.

Til gamans og samanburðar má geta, að ég get keypt flugmiða (fram og til baka) undir minn 110 kg. þunga rass, frá Gautaborg til Spánar fyrir ca. 16.000 Isk.

Þetta pakkakílóverð er gjörsamlega óskiljanlegt og ekki batnar þjónustan í samræmi við verðlagninguna.

Í fyrra skrifaði ég harðorðaða grein hér á Trölli.is um „Póstræningja og tolla af jólagjöfum“ og ekki virðist samnorrænt samstarf hafa batnað á milli ára, hvorki varðandi betri þjónustu, hvað þá, álagningu og innflutningsgjöld á gjöfum.

Tollur af jólagjöfum og póstræningjar

Furðulegt misræmi á gjaldtöku á gjöfum á milli landa.

Hér í Svíþjóð eru mörkin fyrir að fá til sín tollfrjálsar gjafir 500 skr. ( 6.900 Isk.).

Allt þar yfir fær á sig innflutningsgjöld í samræmi við verðmæti gjafarinnar og það fyndna er að það er alsaklaus móttakandi, óvitandi um innihald og verðmæti sem á að borgar brúsann.

Heima á skerinu gilda svipaðar reglugerðir, samkvæmt “dagsferskum” upplýsingum á skatturinn.is.

„Jólagjafir frá útlöndum. 4.12.2018

Nú styttist til jóla og margir eiga von á pakka frá vinum eða ættingjum sem búsettir eru erlendis.

Tollstjóri vill benda á að í ákveðnum tilvikum þarf ekki að greiða aðflutningsgjöld af jólagjöfum, sem sendar eru til landsins. Þetta á við um þær gjafir sem sendandi, búsettur erlendis, hefur meðferðis til Íslands eða sendir hingað og ef verðmæti hverrar gjafar er ekki meira en 13.500 krónur. Sé verðmæti gjafarinnar meira þarf að greiða aðflutningsgjöld af þeirri upphæð sem er umfram 13.500 krónur. (978 skr) Sé gjöfum til fleiri en eins einstaklings pakkað saman er mikilvægt að það komi fram í fylgiskjölum.“

Það er helmingsmunur á leyfilegri gjafmildi Íslendinga og Svía.

Hvaðan kemur þetta skattamisræmi á vörum sem búið er að borga virðisaukaskatt af við innkaupin á gjöfunum í sitthvoru landinu? Er norrænna samstarfið einskins virði í dag?

Hvar er jólapakkinn minn?

Undur og stórmerki! Minn ástkæri bróðir fær sænska pakkann frá mér, heim í hús vandræðalaust á innan við viku. En ekkert bólar á pakkanum sem hann sendi mér sama dag, 7 desember.

9 dögum seinna fæ ég eftirfarandi kröfubréf frá PostNord:

Hér er PostNord að krefja mig um greiðslu á samlagt 354 sænskum krónum (4.885 Isk.) í innflutningsgjöld og afgreiðslukostnað fyrir að fá að taka á móti jólagjöfum og ef ég greiði þetta ekki, þá senda þeir pakkann til baka til föðurhúsa. Sem betur fer þá fannst mér þessar tölur skrítnar með það í huga að bróðir hafði sagt mér að hann hefði skrifað á fylgiseðilinn að verðmætið væri innan við 10.000 Isk. (724 skr.)

Merkilega góð þjónusta hjá þeim að setja símanúmerið í þjónustuverið sitt með í bréfið, en oft er það eitt meiriháttar vesen að finna hvernig maður getur fengið að tala við lífslifandi starfsmenn og komist hjá því að tala við gervigreind sem segir bara: „Computer says NO.

Löng símalínu biðröð tekur nú við eftir allskyns fáránlegar gervigreindar spurningar frá PostNord á sænsku og loksins svarar elskulegur starfsmaður á plani og eftir mikið „om och men“ þá komust við að því að þetta kröfubréf hefur ekkert með minn pakka að gera.

Það er einhver annar íslendingur sem á að fá þennan jólapakka og borga þessar 354 skr.

Nú verða Danir (Svíar) hissa… eða ekki!

Með það í huga að enginn pakki til mín sem fer í gegnum PostNord via Íslandpóst hefur hingað til komist vandræðalaust til mín.

Þetta er semsagt svona bréfleg svindlkrafa frá ykkur sjálfum eins og þið eruð að vara fólk við á netinu með að opna í sms-um og tölvupósti, eða hvað?  Eða er ég ekki örugglega að tala við starfsmann hjá PostNord eða ertu einhver netsvindlari?
Enginn gáfuleg svör komu en innileg afsökunarbeðni um að rangt pakkanúmer hafi fylgt þessari kröfu og jú ég vinn hjá PostNord bætti hann við hissa á að ég grunaði hann um gæsku.

Þá spyr ég forviða?


En hvernig í ósköpunum getur þetta „fína samnorræna póstburðartölvukerfi“ sent mér kröfubréf á mitt heimilisfang, um pakka þar sem móttakarinn er einhver allt annar og þar fyrir utan með heimilisfang í allt öðru bæjarfélagi? Á ekki þessi fína tölvu gervigreind að gata lesið eitthvað úr þessu rugli og sagt „Computer say‘s NO, það er eitthvað sem ekki stemmir hér?

Ef ég hefði borgað þetta þegjandi og hljóðalaust og treyst á að ég væri þá samviskulega að borga sænska ríkinu og PostNord fyrir að fá jólagjafir frá Íslandi og síðan beðið eins og asni eftir að fá jólapakka sem síðan eftir greiðslu, fer eitthvað allt annað og gleður einhvern annan sem slapp við að borga 354 skr. og fær þar að auki til sín jólagjafir frá Íslandi vandræðalaust…

Finnst þér þetta boðleg þjónusta spyr ég saklausan starfsmann PostNord? Það er fátt um svör en hann viðurkennir að þetta sé svolítið fárálegt að þetta sér hægt. Þ.e.a.s. senda kröfubréf á rangan mótakanda.

Kæmi mér ekki á óvart að fleiri en ég hafi lent í þessu líka.  

Síðan spyr ég enn og aftur… og hvar eru þá jólagjafirnar mínar?

Ertu með “annað” sendingarnúmer? Já, reyndar, því bróðir sendi mér það á Messenger 7 desember.

CG004334463IS, sem er ekkert líkt númerinu í kröfubréfinu.

Computer says: Þessi pakki er enn á Íslandi!

Svarar elskulegur starfsmaður PostNord.
What?

9 dögum eftir að bróðir skilaði honum í hendurnar á Íslandspósti er þessi pakki enn á skerinu góða. Ég hrindi í bróður minn og segi honum þessa póstburðarhamfarasögu og hann nennir ekki að eltast við að skrifa tölvupóst eða bíða í biðröð símleiðis, svo hann fer á sama stað og hann sendi pakkann og krefst svara.

Þessi pakki er löngu farin frá Íslandi og PostNord er greinilega ekki búinn að skrá hann inn í landið hjá sér úti í Sverigelandi…. er svarið sem hann fær og nú bendir hver á annan.

Þetta gerðist 16 desember og þegar þessi lokaorð eru skrifuð 20 desember getur pistlahöfundur einungis lesið eftirfarandi orð þegar leitað er að pakkanum með réttu númeri í mótökukerfi PostNord:

“7 desember 2022.
Okkur hefur borist beðni um að flytja til þín pakka. Nánari upplýsingar munu berast til þín þegar að pakkinn hefur borist til PostNord.”

🎶 Nu är det jul igen… 🎶 och julen varar ända framtill påska…🎶

…syngja svíarnir um jólin og ég sé fyrir mér að opna þennan jólapakka rétt fyrir páska eftir að hafa fengið nýtt kröfubréf í janúar 2023 um að greiða tilskilinn leyfisgjöld og fá þá loksins að taka á móti úldnum konfektkassa og tveimur gömlum bókum rétt fyrir páskafrí.

Gleðileg jól. 😏

P.s. ég er fyrir löngu síðan búinn að skrifa harðort kvörtunarbréf til “umboðsmanns kúnna” hjá PostNord en ekki fengið svar enn. En ég fékk reyndar strax svar frá kurteisum gervigreindarritara, sem þakkaði mér fyrir að nenna að kvarta og lofaði mér manneskjusvari innan 30 daga.

Höfundur, ljósmyndari og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Aðrar sögur, greinar og fleira eftir sama höfund á trölli.is, sjá yfirlit hér:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON