Útnefning Bæjarlistamanns Fjallabyggðar og afhending menningarstyrkja fór fram í Menningarhúsinu Tjarnaborg, fimmtudaginn 6. febrúar.

Elías Þorvaldsson hefur starfað að tónlistarmálum á Siglufirði í áratugi. Meðal annars má nefna að hann lék með hinni landsfrægu hljómsveit Gautum um árabil, var skólastjóri tónskólans á Siglufirði, stjórnaði ýmsum kórum og lék undir með þeim auk þess að stýra óteljandi tónlistarviðburðum.

Elías hefur verið kórstjóri hjá Karlakórnum í Fjallabyggð frá upphafi kórsins, sem fyrst hét Karlakór Siglufjarðar og var stofnaður um síðustu aldamót. Hann hefur einnig útsett fjölda laga fyrir karlakórinn, og samið nokkur lög sem kórinn hefur flutt.

Enn í dag er Elías mjög virkur í tónlistarlífinu í Fjallabyggð. Hann er því vel kominn að þessum titli: Bæjarlistamaður Fjallabyggðar.

Ólafur Stefánsson, formaður markaðs- og menningarnefndar setti athöfnina.

Eftir það lék Hörður Ingi Kristjánsson á píanó. Linda Lea Bogadóttir, markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar ávarpaði viðstadda.

Því næst var komið að öðru tónlistaratriði, en það voru þau Guðmann og Hófi sem sungu og léku tvö lög.

Næst voru afhentir menningarstyrkir Fjallabyggðar fyrir árið 2020.

Listi yfir styrkina er hér.

Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2020, Elías Þorvaldsson, var útnefndur og gestir stóðu upp og hylltu hann með lófaklappi.

Að lokum söng Karlakórinn í Fjallabyggð tvö lög. Að lokinni formlegri dagskrá bauð Fjallabyggð gestum upp á léttar veitingar.

Myndir: aðsendar.