Trölli.is fékk senda ábendingu vegna 90 ára afmælis Björgunarsveitarinnar Stráka sunnudaginn 14. apríl.
Buðu þeir bæjarbúum til veglegrar veislu sem fjölmargir sóttu og fengu veglegar gjafir vegna þessara merku tímamóta.
Ábendingin var sú að það vakti athygli að Fjallabyggð sendi engar heillaóskir, gjafir né fulltrúa sinn til að fagna með Strákum sem hafa lagt ómælda vinnu á sig fyrir bæjarfélagið í gegnum árin.
 
Hver er stefna Fjallabyggðar vegna svona menningarviðburðar eins og stórafmæli Björgunarsveitarinnar?

 

Erindið var tekið fyrir á 601. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar þann 23. apríl og var gerð eftirfarandi bókun.
9. 1904067 – Leiðbeiningar varðandi gjafir til fyrirtækja og félaga
Lögð fram drög að leiðbeiningum fyrir sveitarfélagið Fjallabyggð um gjafir til fyrirtækja, stofnana, félaga og félagasamtaka.

Einnig lögð fram fyrirspurn Kristínar Sigurjónsdóttir fh. Trölla.is, dags. 15.04.2019 um stefnu sveitarfélagsins varðandi afmæli félaga.

Bæjarráð samþykkir að fela markaðs- og menningarfulltrúa að vinna lista yfir fyrirtæki, stofnanir, félög og félagasamtök og felur deildarstjóra fjármála- og stjórnsýslu að vinna drögin áfram.

Bæjarráð felur markaðs- og menningarfulltrúa að svara erindi Trölla.is.

Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar svaraði fyrirspurn Trölla.is.

“Ekki er til stefna eða verklagsreglur um gjafir vegna afmæla í Fjallabyggð en verið er að vinna að leiðbeinandi reglum fyrir sveitarfélagið um gjafir til fyrirtækja, stofnana, félaga og félagasamtaka.

Vonast ég til að þær reglur verði útgefnar fyrir sumarfrí.”

 

Sjá frétt frá afmælinu: HÉR