Það er ömurleg staða  þegar menn eru sakaðir opinberlega um græðgi og að hrifsa til sín eigur annarra þó að fyrir liggi munnlegir og „rykfallnir samningar“ um annað, en hér virðist tilgangurinn helga meðalið.

Innrás – árás

Árni Örvarson fór mikinn með útreikninga í grein hér á Trölla um daginn þar sem hann sýndi fram á ofsagróða sjálftökumanna í æðarvarpi Siglfirðinga, þ.e. þeirra sem standa utan Leirutanga. Það hefur því miður tekið óþarflega langan tíma að afla gagna til að svara þessari vitleysu. En við útreikninga Árna er eitt og annað að athuga, í fyrsta lagi gefur Árni sér að varpið hafi gefið samtals 9 kíló af hreinsuðum dún á ári í 30 ár, þetta er algjör fásinna þar sem lítið sem ekkert varp var á svæðinu þegar við fengum leyfi og var því engum hlunnindum komið í hendur útvalinna. Í 30 ár hefur með herkjum tekist að fjölga varpfugli á svæðinu þrátt fyrir ýmis ytri áföll og lætur nærri að svæðið allt gefi nú um 4.5 kg. af dún og ætla má að meðal dúntekja hafi verið 2.4  kg. á ári, eða 72 kg. af hreinum dún þetta 30 ára tímabil. Árni gefur sér að meðalverð á æðardún síðustu 30 ár hafi verið kr. 200.000 og segist þar styðjast við gögn frá Hagstofu Íslands, okkar athuganir benda til þess að þetta sé nærri 180.000 kr. (mismunur í 30 ár kr. 1.440.000) en látum það vera. Þetta verð er meðalverð skv. útflutningsskýrslum, uppreiknað með vísitölu neysluverðs.

Við „smábændur“ fáum ekki þetta verð fyrir okkar dún, það gefur auga leið að útflytjandi borgar okkur ekki sama verð og hann fær fyrir útflutning, auk þess þurfum við að borga fyrir hreinsun á dúninum. Við skulum ekkert flækja þetta með því að draga laun útflytjanda og hreinsunarkostnað frá þessum tölum, höldum okkur bara við hið meinta útflutningsverð. Þá lítur dæmið svona út, 72 kg. x 200.000  = 14.400.000. Það er óralangt frá bullinu um 54.000.000 kr. sem kokkað var upp til þess eins að gera okkur tortryggilega og valda úlfúð. 

Heildarsala á dúni miðað við ofangreindar forsendur er því kr. 14.400.000 , það gera kr. 480.000 á ári fyrir þessi þrjú svæði samtals.

Nú í vor þegar umsjónarmaður æðarvarpsins á Leirutanga treystir sér ekki til að sinna því lengur var það boðið út. Ef ekki væri fyrir vinnu hans undanfarin mörg ár, annarra æðarbænda og fuglavina á Siglufirði væri ekkert að bjóða út, það væri ekkert varp, nú stefnir hins vegar í að bærinn fái  afgjald af Leirutanga um ókomin ár auk þess sem uppbygging á varpsvæðum sem við sinnum eru framtíðarverðmæti.

Það er þekkt aðferð að skapa úlfúð og sá fræjum efasemda með hálfkveðnum vísum og rangfærslum  til að ota eigin tota, við vonum sannarlega að Siglfirðingar sjái í gegnum þennan málflutning Árna.

Það hlýtur að vera hlutverk bæjaryfirvalda að koma þessum málum í viðunandi farveg, það hefur aldrei staðið á okkur að endurskoða gerða samninga og höfum við beinlínis óskað eftir því. 

Verða þetta okkar lokaorð um þetta efni.

Hjálmar Jóhannesson
Ingvar Hreinsson
Örlygur Kristfinnsson

Mynd/ÖK