Veðrabrigði eru þessa dagana, segir á Blika.is. Suðvestanvindurinn í háloftunum er að eflast og jafnframt að færast norðar á Atlantshaf og þar með nær okkur.  Lægð með sunnanátt var í gær um leið og háloftastrengurinn festir sig í sessi yfir landinu. Með honum er spáð allhvassri og hvassri SV-átt, en tiltölulega mildu veðri. 

En með svo ákveðna háloftaröst sem sjá má á spákortinu og gildir á sunnudag (vindhraði í 300 hPa, ~ 9 km hæð) verður þess ekki langt að bíða að með henni birtist næsta lægð.

Á kortið hefur verið teiknað inn háloftadrag sem nú er vestur af Hudsonflóa.  Með þeirri bylgju er kaldasti háloftakjarninn sem finna má á norðurhvelinu nú snemma haustsins. Dragið berst með bylgjugangi í suðausturátt og í veg fyrir sérlega hlýtt og rakt Atlantshafsloft. Um helgina er því spáð að það teygi sig inn á Nýfundnaland.   

Og þá er ekki að sökum að spyrja; kjöraðstæður fyrir myndun haustlægðar. Saman fer sumarhlýtt loft úr suðri, þrungið raka og skarpt háloftadrag úr norðvestri.  Lægðinni er síðan spáð á mánudagsmorgunn í líkani ECMWF um 955 hPa  austur af Langanesi.  Þetta spákort er “ljótt” eins og stundum er sagt.  GFS spáin bandaríska er líka með djúpa lægð um svipað leyti, en hún hins vegar fyrir vestan landið!  ECMWF reiknar 20-30% líkur á þeim ferli lægðarinnar. 

Sem betur fer kemur fellibylur ekki við sögu, en Paulette verður á sveimi um líkt leyti nokkru sunnan við aðalátakasvæði loftmassanna á vestanverðu Atlantshafi.  Sem betur fer, nægur er hitastigullinn fyrir og viljum við ekki fyrir nokkra muni sjá fellibyljaleifar spóla upp snúninginn á dýpkandi lægðinni.
   

*Spákortið á mánudag, 21. sept. er af Brunni Veðurstofunnar.