Hann stóð þarna við gröfina hennar með rauðar rósir í hendinni, henni fannst þessi rauði litur alltaf svo fallegur.
Hann leit í kringum sig til öryggis og fullvissaði sig um að enginn annar en hún sem lá í gröfinni myndi heyra það sem hann loksins þorði að segja.

Þessi stóra spurning:

Hef ég elskað þig rétt?

Hafði elt hann uppi í vöku og draumi frá því að hann fékk boð um að hún væri dauðavona og síðan stanslaust eftir að hún dó.

Hann vissi auðvitað að hún sem hann hafði elskað, búið með og deilt gleði og sorg með í tæp þrjátíu ár gæti ekki lengur svarað fyrir sig.
En hann veit mikið vel að hann yrði samt að fara varlega með orðin því hún svarar honum ennþá, inni í hans eigin haus því hún þekkir hann svo vel og hún býr enn í honum og þetta með að…

… “þar til dauðinn okkur aðskilur” er bara ekki alls ekki satt.

Því þó svo að hún sé nú dáinn og að þau höfðu skilið fyrir langa löngu þá dó ástin aldrei alveg, en hún breyttist og þau reyndu að láta ástina vaxa yfir í vináttu og sátt sem er auðvitað ekkert einfalt mál og eftir að friðarpípan var reykt þá lá það í loftinu að margt og mikið yrði aldrei sagt eða rætt til hlítar.

Aldrei settur PUNKTUR og þessi ást endaði mest í komma, punktur, strik og stórum og mörgum ???? merkjum.

Og það eitt er sönnun þess að öll ást hefur eigið eilíft líf og einmitt þess vegna er ekki til ein reglugerð um hvernig ást á að enda.

En ástin getur auðvitað breyst og þroskast eða þróast og tekið allskyns ný form og jafnvel snúist út í andstæðu sína miðað við þá fallegu sameiginlegu minningu frá því þegar þau hittust og elskuðust svo innilega og ákaft í fallegu bleiku blómahafsskýi og allt í einu fór sama ást út í hatursstríð þar sem ekkert er heilagt.

En Guði sé lof fórum við tvö aldrei svo langt, en samt næstum því.
Kannski í smátíma þegar við skildum hugsaði hann með eftirsjá og tár í sálinni.

Svo heldur hann áfram og segir allt upphátt, því hann vill að hún heyri allt sem hann hefur haldið inni í öll þessi ár því hann vildi ekki særa hana meira en hann hafði þegar gert þegar hún lifði.

Hann fann frá fyrstu byrjun þegar þau kynntust að hún bar í sér brothætta, óörugga og viðkvæma sál en hann elskaði hana svo mikið að hann hreinlega þvingaði sjálfan sig að elska þessa hlið á henni líka.

Ást er einhvernvegin þannig, maður verður að elska allt eða ekkert og ekki bara valda hluta sem manni líkar við.

Og kannski hafði hann hreinlega þörf fyrir að heyra sjálfan sig segja þetta allt saman upphátt líka:

Elskan mín, ég man að þegar við hittumst þá urðum við svo yfir okkur átfanginn og við vorum einhvernvegin svo ótrúlega mikil björgun fyrir hvort annað.

Vildum bæði næstum flýja að heiman og okkur lá svo mikið á, í að byrja að skapa okkar fallegu framtíð sem átti bara að byggja á ást, trú og kærleika.
Við tvö ætluðum að verða fyrsta parið í heiminum sem myndi takast að lifa fullt út í sannleika þessara þriggja orða og alls ekki taka neitt með okkur úr sorglegum hjónaböndum foreldra okkar.  

En heyrðu elskan, við vorum ung og vitlaus og ástin gerði okkur blind. Manstu þegar við vorum svo upptekin í því daga og nætur að segja hvort öðru sannleika lífs okkar og ekkert mátti lengur vera mitt eða þitt leyndó…..

En við vitum bæði núna að við sögðum ekki allt, því sumt vill maður ekki muna og hvað þá segja öðrum.

Ekki satt, ha?

Það kemur ekkert svar úr gröfinni en sterkar tilfinningamyndir fljúga hratt í gegnum minningarhraðbrautir huga hans.

Og elskan mín ég meina ekkert illt með þessu en það var eins og að við tvö tókum með okkur sitthvora ferðatöskuna úr okkar eigin unga óþroskaða lífi með innrömmuðum fyrirmyndum úr foreldrahúsum og svo sturtuðum við öllu saman í stóran haug á gólfið í stofunni í okkar fyrsta heimili og svo fannst okkur svakalega gaman að hræra þessu öllum saman í okkar sameiginlegu yndislegu ástarsæluhrærivél.

En það voru greinilega leynihólf í bæði minni og þinni ferðatösku.

Ha, þetta er næstum fyndið, en við vissum ekki betur… því strax frá byrjun þá var það gefið að þetta myndir enda með ósköpum.
Því lengi vel vissi ég ekki hvar ég endaði eða hvar þú byrjaðir og hver átti hvaða vandamál sem við núna bæði bárum í okkur.

Sumt held ég að maður verði að fá að eiga sjálfur og að það sé skyldumæting í að reyna að leysa sín vandamál sjálfur og reyna að láta það hafa ekki áhrif á þá sem við elskum.

Já, nú erum við eldri, reyndari og greindari og fyrirgefðu ég gleymdi mér aðeins… og þú reyndar dauð núna en ég fæ engan frið í mína aumu sorgmæddu sál svo ég bara verð að fá að segja þetta allt, því ég vill ekki fara með þetta í mína eigin gröf.  

Sem greinilega verður ekki við hliðina á þér, þrátt fyrir að við eigum saman yndisleg börn og barnabörn og bráðum barnabarnabörn.

Já, elsku ástin mín eina sanna, svona getur lífið verið bæði skítið og jafnvel óréttlátt og þú af öllum brothættum verum áttir alltaf betra skilið.

Mundu líka að allt það slæma sem gerðist í þinni barnæsku var aldrei þér að kenna, þú varst bara barn og ég er löngu búinn að fyrirgefa að það var það sem að lokum át upp okkar annars svo fallegu saklausu ást.

Við tvö fengum aldrei sanngjarnan sjéns í að þessi ást myndi vaxa og dafna úr góðum grunni, því grunnurinn var hreinlega ekki til.

En ég verð að fá að segja og biðja þig fyrirgefningar á… tja… veit ekki hvernig ég á að segja þér þetta.
En þú veist… allt þetta sem ég aldrei skildi en vildi og reyndi að mildra og tóna niður en mér tókst það aldrei.

Líklega vegna þess að ég átti ekkert í þessu sjálfur og vegna þess að ég hélt í einfeldni minni að ég væri þá að elska þig RÉTT.

Ég sé líka að ég elskaði þig RANGT þegar mér leið svo illa yfir að þér leið svo oft illa. En þú sagðir að þetta snérist ekki um mig og þú baðst mig að bíða aftur og aftur og að þú ætlaðir alltaf að laga þetta sjálf.

En þá upplifði ég svo mikla höfnun, því ég beið og beið og ég sé svo eftir því að hafa þá refsað þér með þögn.
Sem er ljótur eiginleiki sem var falin í mínu leynihólfi, eitthvað hræðilega ljótt sem ég lærði í minni barnæsku.

Sé svo eftir því að hafa aldrei lært að rífast almennilega og að klára hvert einasta rifrildi í sátt.

Að refsa þeim sem maður elskar með ÞÖGN er hræðilega ljót og eigingjörn aðferð og ég sé svo ofboðslega mikið eftir að hafa gert þér þetta.

Þér af öllum, konunni og barnsmóður minni sem ég elskaði út af lífinu.

Svo ég segi fyrirgefðu enn einu sinni og í síðasta skiptið, hér við þína gröf og ég vildi óska að ég hefði sungið þetta lag fyrir þig á hverjum degi þegar við deildum lífi og ást.

Manstu hvað við vorum bæði hrifin af Bo Kapers Orkester og textunum í öllum þeirra lögum.

En einmitt þetta lag heitir TAKK og er á plötunni:

Tilbúinn í að brotna saman!

Takk fyrir að þú sért til

Og að þú vilt elska mig

Ég lofa að aldrei taka það sem gefið

Að ég fái að sofna þér við hlið

Takk fyrir að þú réttir mér hjálpahönd

Og dróst mig upp úr vandræðum mínum

Takk fyrir alla framtíðardaga

Sem ég trúði að við tvö myndum fá

Já það tók tíma að snúa bátnum

Og fá fyrirgefningu gamalla synda

Ég óttaðist að þú færir mér frá

En vonandi þarftu aldrei, aldrei að

efast eða eftir því að sjá

að ÞÚ og ÉG höfum lifað og elskað

Saman um alla eilífð án eftirsjá

Takk fyrir að þú sért til

Og að þú viljir elska mig

Ég lofa að aldrei taka það sem gefið

Að ég fái að sofa þér við hlið

Smásögu höfundur, ljósmyndari og þýðandi texta:
Jón Ólafur Björgvinsson

Nýlegar birtar greinar og sögur eftir sama höfund:

LANDSBYGGÐARFORDÓMAR! OG LANDSBYGGÐARGRÍN!

SUNNUDAGSPISTILL: HORFT YFIR FJÖRÐINN Í GALDRALOGNI

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

SÍÐASTI BÓNDINN Í HÉÐINSFIRÐI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

AÐRAR SÖGUR OG GREINAR EFTIR

JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON Á TROLLI.IS.