Árni Bergsson

Árni Bergsson

Þegar ég hóf störf til sjós þá hafði ég ávalt verið viss um að mitt félag stæði með mér þegar kæmi að launum og kjörum, taldi ég mig vissan um það og hef ég sótt laun mín til útgerðar með hjálp félagsins.

Aldrei hefði mig grunað að ég myndi hætta að trúa á félagið. Félagið sem hjálpaði mér með laun, sem barðist fyrir kjörum mínum í samningum og hugsaði um hag minn til sjós. Nú þegar ég hugsa aftur spyr ég: voru þeir að berjast fyrir kjörum sjómanna í síðustu samningum? Ég er ekki viss og mun aldrei verða viss.

Við skulum taka smá dæmi. Þú vinnur á nýju hóteli og hver einustu mánaðamót dregur eigandinn af launum þínum upp í kostnað við að byggja þetta hótel, myndir þú sætta þig við það?

En burt séð frá því öllu saman, Heiðveig María hefur allt frá síðustu samningaviðræðum barist fyrir hag sjómanna. Hún sá margt sem við sáum ekki þegar kom að þeim samningum og benti á það, en það var kramið niður eins hratt og auðið var. Heiðveig hins vegar sat ekki ráðalaus, hún gafst ekki upp heldur hélt áfram. Hélt áfram að fylgjast með sjómannafélaginu sem á að hugsa um hag sjómanna. Hún sá eitthvað athugavert og spurði út í það, hún fékk engin svör og gekk því eftir svörum, hún sendi þeim bréf, hún mætti á svæðið en aldrei fékk hún svör! Af hverju? Og það eina sem hún gerði var að reyna að fá svör!

Í kjölfar þess var hætt við viðræður um sameiningu, sem sagt þeir ætla að reyna að segja að þetta hafi orðið til þess að þeir drógu sig út úr samningum sjómannafélaganna, en mér þykir það virkilega óraunveruleg afsökun. Og því ætti það að eitt, að spyrja spurninga um félagið, að valda því skaða? Ég sé ekki leið til þess nema félagið og stjórn þess hafi eitthvað að fela!

Núna tel ég að þeir hafi reynt allt til að stoppa Heiðveigu Maríu í því að bjóða sig fram í næsta stjórnarkjöri félagsins, og þeirra síðasta tromp var að reka hana úr félaginu! Hvað eru þeir svona hræddir um, hvað er það sem Heiðveig getur skemmt fyrir þeim? Hvað veldur þessari hræðslu? Eru stórútgerðir að hugsa extra vel um “hag” stjórnar? Nei maður spyr sig, því það eina sem þeir gera með þessum ákvörðunum og hegðun er að opna á fleiri spurningar!

Ég trúi ekki öðru en að félagsmenn sýni henni stuðning því hún á hann svo sannarlega skilið! Kannski hún stofni bara nýtt félag og bjóði sjómönnum landsins um borð, en eitt er ég viss um, hún gefst aldrei upp!
Ef einhver getur sameinað þessa stétt þá er það Heiðveig María!

Að lokum vil ég taka það fram að ég starfa ekki lengur til sjós né borga til félagsins en ég á hins vegar marga vini sem gera það og hver veit nema maður fari aftur á sjó einn daginn, hafið kallar oft…

 

Grein: Árni Bergsson
Myndir: úr einkasafni