Jólaveröld vaknar er nýtt jólalag eftir Gunnar Inga Guðmundsson og Nínu Richter, í flutningi Rakelar Pálsdóttur. Lagið kom út á miðnætti aðfaranótt 15. nóvember.

Lagið verður flutt á FM Trölla í dag, í þættinum Tíu Dropar, sem er á sunnudögum kl. 13 – 15.

Texti lagsins fjallar um sigur ljóssins yfir myrkrinu á þessum fallega árstíma, og ætti því að geta snert hátíðlega taug í öllum, óháð jólahefðum. 

Rakel Pálsdóttir

Rakel, flytjandi lagsins lærði söng við FÍH og tók þátt í söngvakeppni sjónvarpsins 2017 og 2018.

Lagið er ljúft og sykursætt, en tenórsaxófónleikur Jens Hanssonar úr Sálinni hans Jóns míns rammar tónlistina inn á sjarmerandi máta sem kallast jafnvel á við vinsælustu ítalsk- og bresk-ættuðu jólasmelli landans frá tíunda áratugnum,“ segir í tilkynningu um lagið. Gunnar Ingi Guðmundsson er höfundur lagsins Jólaveröld vaknar, 

Lagið var samið í desember 2020 og tók það stóran hluta af þessu ári að fullklára lagið hvað varðar útsetningu og raddsetningu hljóma, auk laglínu.

“Það hefur reynst mér best að semja bara mjög lítið í einu ég tek kannski 30-40 mínútur á dag og oftast koma bestu hugmyndirnar þá”, segir Gunnar. Ég sendi Rakel lítið demo af laginu og var hún strax til í þetta.

Upptökur fóru svo fram í september á þessu ári.

Við fórum í studíó Bambus til Stefáns Arnar Gunnlaugssonar og tókum upp grunn sem við byggðum ofan á og útkoman er létt jóla-popp lag. Sigurdór Guðmundsson hjá Skonrokk studio sá um masteringu.

Gunnar Ingi Guðmundsson, höfundur lagsins, lærði bassaleik, píanóleik og lagasmíðar við tónlistarskóla FÍH og Berklee college of music í Boston. Hann hefur samið lög fyrir Ragnheiði Gröndal, Sjonna Brink, Skítamóral, Arnar Dór, og fleiri, auk þess sem hann samdi  Þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja árið 2003 sem flutt var af Skítamóral og naut töluverðra vinsælda.

Nína Richter er textasmiður og kynningarfulltrúi. Hún hefur samið texta fyrir fjölda listamanna, þar á meðal Jóhönnu Guðrúnu, Hönnu Míu, Eyþór Inga og Lay Low, til dæmis smellinn Aftur heim til þín frá árinu 2019, og jólalag Eyþórs Inga, Desemberljóð, frá 2011.

Jólaveröld vaknar á Spotify