Neysla íslenskra ungmenna í 8.-10. bekk á orkudrykkjum sem innihalda koffín er með því mesta sem þekkist í Evrópu.

Áhættumatsnefnd hefur rannsakað að beiðni Matvælastofnunar hvort neysla orkudrykkja sem innihalda koffín hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmenna í 8.-10. bekk.

Niðurstaða nefndarinnar er að neysla íslenskra ungmenna sé töluvert meiri en sést hefur í fyrri rannsóknum og gefi tilefni til aðgerða til að lágmarka neyslu ungmenna á orkudrykkjum sem innihalda koffín og fyrirbyggja neikvæð áhrif á heilsu þeirra.

Þau ungmenni sem innbyrða mest koffín, innbyrða tvöfalt til fjórfalt það magn sem EFSA leggur til sem öryggismörk fyrir koffíninntöku fullorðinna, eða 3 mg/kg líkamsþyngdar á dag.

Langtíma neysla á miklu magni (yfir 3 mg/kg líkamsþyngdar á dag) af koffíni getur valdið miklu álagi á hjarta- og æðakerfið.

Áhættumatið sýnir einnig að ungmenni í 8.-10. bekk sækjast eftir að kaupa sterka orkudrykki sem ekki er leyfilegt að selja einstaklingum yngri en 18 ára.

Framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja hérlendis virðist skila sér í því að neysla ungmenna í 8.-10. bekk sé meiri en æskilegt er, hafi neikvæð áhrif á svefn og andlega líðan þeirra og sé yfir því magni sem valdið getur hækkun á blóðþrýstingi og þar með auknu álagi á hjarta- og æðakerfið.

Á grundvelli áhættumatsins hyggst Matvælastofnun leggja til breytingar á reglum sem varða koffín í drykkjarvörum og aukna fræðslu með það að markmiði að takmarka aðgengi ungmenna að koffínríkum orkudrykkjum.

Sjá nánar á mast.is