Í næstu viku fá bæði nemendur og kennarar Menntaskólans á Tröllaskaga tilbreytingu. Staðnemar fá ný viðfangsefni og nýja kennara eða leiðbeinendur við þau. Að þessu sinni geta nemendur valið milli þriggja áfanga.

Í einum áfanganum kynnast nemendur aðferðum við að skrifa fjölbreyttan texta frá eigin brjósti. Verkefnin eru ögrandi og húmor er eitt af því sem talið er æskilegt við úrlausnir, ekki síst húmor fyrir sjálfum sér. Leiðbeinendur eru Anton Helgi Jónsson, rithöfundur og Þórarinn Hannesson, ljóðskáld.

Í öðrum áfanga leggja nemendur stund á þjálfun í samskiptum, sjálfsaga, slökun og fleira sem gagnast við að ná betri tökum á námi og lífinu almennt. Leiðbeinandi er Sólveig Helgadóttir, markþjálfi.

Þriðji áfanginn fjallar um heilsuvernd og hreyfingu. Þar verður boðið upp á æfingar, útiveru, hugleiðslu, fræðslu um mataræði og fleira. Leiðbeinandi er gamall nemandi í MTR, Guðrún Ósk Gestsdóttir, einkaþjálfari.

Fjarnemar hafa ekki sérstök skipulögð verkefni í miðannarvikunni. Þeir sem vilja geta notað hana til að vinna sér í haginn fyrir síðari hluta annarinnar eða til að njóta tilbreytingar af einhverju tagi og efla andann fyrir vikurnar sem á eftir koma.

Kennarar þurfa að fara yfir margvísleg verkefni og úrlausnir og gefa síðan öllum nemendum miðannareinkunnir. Þeir nota líka tímann til að huga að námsefni síðari hluta annarinnar og einnig vonandi til að veita sér einhverja tilbreytingu frá hinu daglega amstri.

Mynd/Gísli Kristinsson