Dagana 4.-7. september sl. var haldin ráðstefna “The Viking Surgeons Association” á Sigló Hótel.

Félagsskapur þessi er samtök skurðlækna, sem starfa á litlum og afskekktum stöðum og hefur staðið að viðlíka ráðstefnum í 45 ár. Skipuleggjandi að þessu sinni var Siglfirðingurinn Jósep Ó. Blöndal og fer frásögn hans hér á eftir. Trolli.is þakkar Jósepi fyrir þessi líflegu skrif og ekki fer milli mála að hann er ánægður með sinn gamla stað.

The Viking Surgeons Association var upphaflega stofnaður af tveimur skurðlæknum, öðrum á Hjaltlandseyjum, hinum á Suðureyjum. Tveir íslenzkir skurðlæknar hafa verið félagar í samtökunum síðan um miðjan 9. áratuginn, þeir Einar Hjaltason, fyrrum yfirlæknir sjúkrahússins á Ísafirði, seinna á Selfossi, og Jósep Ó. Blöndal, fyrrum yfirlæknir sjúkrahússins á Patreksfirði, seinna á Franciskusspítala í Stykkishólmi. Það var Jósep, sem skipulagði ráðstefnuna, en hún er sú 46. í sögu samtakanna.

Samtökin njóta mikillar virðingar á Bretlandseyjum, og þörfin fyrir skurðlækna, sem hafa breiða og yfirgripsmikla reynslu og þekkingu fer vaxandi, ekki hvað sízt í þróunarlöndunum, og hafa félagar í samtökunum komið þar talsvert við sögu.

Félagar eru og hafa verið einkum frá Skotlandi (Fort William, Oban, Wick, Elgin, Isle of Arran o.fl.), skozku eyjunum (Hjaltlandi, Orkneyjum, Suðureyjum), Isle of Man, Isle of Skye, Penzance, Norður Írlandi, Færeyjum, Íslandi, ásamt læknum frá Hollandi, Póllandi, Bretlandi o.fl., sem starfa í þróunarlöndum.

Ráðstefnan hófst á miðvikudeginum 4. september með golfmóti, en fyrir því er löng hefð. Fór keppnin fram á nýja golfvellinum í Hólsdal. Alastair Coutts frá Elgin í Skotlandi sigraði í keppni VSA félaga, en Eiríkur Jónsson, þvagfæraskurðlæknir á LSH, í hópi fyrirlesara og gesta.

Alastair Coutts og Stuart með golfskjöldinn

 

Vísindaprógrammið fór svo fram í sal Siglo Hotel fimmtudag og föstudag. Fyrirlesarar voru frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Íslenskri erfðagreiningu, Oban, Fort William og Glasgow í Skotlandi, sjálfstætt starfandi íslenzkur bæklunarlæknir, skozkur læknir starfandi í Mali, hollenzkur læknir starfandi í Uganda og Hilmar Janusson, framkvæmdastjóri Genis, sem kynnti hugmyndir og rannsóknir að baki Benecta.

Þótti vísindaprógrammið afar vel heppnað og almenn ánægja með það meðal þátttakenda, fyrirlesara og gesta. Þá þótti hinn félagslegi hluti ekki síður heppnast vel, en á fimmtudeginum leiddi Kristbjörg Edda, framkvæmdastjóri Rauðku, maka og gesti um bæinn og heimsótti ýmsa staði. Síðan bauð bæjarstjórn allri hersingunni í kokkteil og meðlæti í Bátahúsinu, en þar sátu Haukur Orri Kristjánsson, harmonikkuleikari, Ómar Hauksson, bassaleikari og Þorsteinn Bertu Sveinsson, trommari og söngvari, á dekki og skemmtu hópnum, og Jósep greip um tíma í píanóið  með félögunum.

Margrét Brynja og Þorsteinn

 

Um kvöldið var svo “The Viking Dinner”, sem er eiginlega hápunktur ráðstefnunnar, en hann var haldinn í Rauðku með glæsilegu hlaðborði og tilheyrandi drykkjarföngum. Þar komu fram Jón Þorsteinsson, óperusöngvari í Ólafsfirði, sem kvað rímur af mikilli leikni, en söng svo við undirleik Jóseps tvö íslenzk lög. Þá söng Margrét Brynja Hlöðversdóttir tvö lög við eigin  gítarundirleik. Vöktu bæði mikla lukku gestanna.

Jón Þorsteinsson og Jósep

 

Séð yfir hluta borðhaldsins

 

Hápunktur “The Viking Dinner” er jafnan “The Viking Lecture”. Sá fyrirlestur má alls ekki fjalla um læknisfræði!  Geta má þess, að í þau tvö skipti, sem Jósep hefur staðið fyrir ráðstefnunni áður (1988 og 2001), var fyrirlesarinn sá frægi sjónvarpsmaður BBC, Magnús Magnússon, en hann var heiðursfélagi samtakanna. Í þetta sinn var það Anita Elefsen, sem hélt ræðu kvöldsins, en þetta var í fyrsta sinn í sögu samtakanna, sem kona heldur hátíðarræðuna. Það gerði Anita með glæsibrag á fínustu ensku og voru Íslendingarnir afar stoltir af frammistöðu hennar.

Þá var krýndur forseti samtakanna, Jósep Ó. Blöndal, og var þá settur á höfuð hans hjálmur, sem er afar sérkennilegur, svo ekki sé meira sagt, en á honum eru fjaðrir í stað horna –  til marks um að félagarnir fari með friði, þrátt fyrir að þeir kunni vel til verka með hníf og skærum!

Krýning í litum

 

Að loknu vísindaprógrammi föstudagsins leiddi svo Anita allan hópinn um Síldarminjasafnið og vakti safnið að vonum mikla hrifningu alls hópsins. Að því loknu var farið í heimsókn í Segul, og dagurinn – og þar með ráðstefnan – endaði í heita potti Siglo Hotels.

Siglo Hótel hentar afar vel fyrir litlar ráðstefnur sem þessa, og á efalaust framtíð fyrir sér á því sviði. Þá er Siglufjörður, náttúrufegurðin, sagan og fólkið einstakt  á Íslandi, ef ekki í heiminum. Ekki spillir veðráttan fyrir, en þrátt fyrir ausandi rigningu að morgni miðvikudagsins, var logn og sólskin alla þrjá dagana. Þátttakendur, fyrirlesarar og gestir luku upp einum munni um að ráðstefnan, umgjörðin, skemmtiatriðin, fyrirlestrarnir og veðrið hefðu verið til mikillar fyrirmyndar.

 

Myndir: Ingvar Erlingsson