Heimsfaraldur kórónaveiru hafði mikil áhrif á rekstur og starfsemi Síldarminjasafnsins á líðandi ári.

Samkomutakmarkanir urðu þess valdandi að safnið var lokað gestum í rúmar sex vikur á vormánuðum og aftur í rúmar átta vikur í árslok.

Skipulagðar heimsóknir ferðafólks í hópum þurrkuðust nær út og safngestir hafa ekki verið færri í áratug – eða frá því áður en Héðinsfjarðargöng komu til sögunnar.

Tæplega tólf þúsund gestir sóttu safnið heim á árinu og voru erlendir ferðamenn um 27%. Til samanburðar voru gestir ársins á undan tuttugu og sex þúsund talsins og erlendir ferðamenn 72%. Þá heimsóttu tæplega 600 nemendur á öllum skólastigum Síldarminjasafnið í skipulögðum námsheimsóknum og íbúar Fjallabyggðar eru jafnframt tíðir gestir á safninu og voru um 330 á árinu.

Skipulagðar leiðsagnir um safnið voru 63, samanborið við 355 á árinu áður.Þrátt fyrir að árið hafi verið verulega krefjandi að flestu leyti hefur það jafnframt verið lærdómsríkt og viðburðaríkt. Starfsfólk Síldarminjasafnsins hefur tekist á við fjölbreytt verkefni og sinnt faglegu starfi af miklum móð.

Starfsfólk safnsins þakkar öllum þeim er heimsóttu safnið á árinu kærlega fyrir komuna og óskar landsmönnum gleðilegs nýs árs.