Noregur er fallegt land og hefur upp á allmargt að bjóða. Flotta náttúru, mörg söfn og aragrúa af gönguleiðum um norsk fjöll og firnindi, svo fátt eitt sé nefnt.

Við hjónin í Gestaherberginu fórum í stuttan bíltúr um miðjan júlí og kíktum á safn eitt sem staðsett er í bænum Kapp sem er í fylkinu Innlandet. Til að staðsetja Kapp fyrir lesendur er hægt að segja að Kapp sé nánast beint í norður um 100 km frá Oslo.

Safnið sem við skoðuðum heitir Dukkehjem og þar má sjá gríðarlega flott safn af dúkkum og leikföngum ætluð börnum.

Á vefsíðu safnsins segir:

Dúkku- og leikfangasafnið í Kapp býður upp á frábæra upplifun með sýningu á leikföngum og dúkkum frá því í gamla daga. Hér finnur þú hluti frá 18. öld og fram til um það bil 1975. Þarna eru þúsundir hluta út um allt, háir og lágir, svo sem leikföng, dúkkur, bækur, myndir og margt fleira.

Þetta er staðurinn fyrir þá sem vilt endurupplifa bernskuna, þá sem hafa áhuga á fornminjum og unga fólkið sem villa aðra upplifun en þau þekkja i dag. Dúkku- og leikfangasafnið í Kapp er eitthvað alveg allt annað. Gudrun Langdalen er konan sem hefur safnað öllum þessum munum á langri ævi. Að auki höfum við einnig verslun sem er opin á sama tíma og safnið.

Það er vel þess virði fyrir fólk sem hefur áhuga á gömlum dúkkum og leikföngum að gera sér ferð til Kapp og kíkja í heimsókn í Dúkkuheimilið.
Smellið á myndina að neðan til að sjá nákvæmari staðsetningu.