Janúar hefur upp á meira að bjóða en myrkur og kulda hér norður á Siglufirði eins og frásögn Þórarins Hannessonar frá í gærmorgun ber með sér.

“Þessi elska, sem kallast víst Gullglyrna, varð næstum hluti af morgunmatnum mínum í morgun.

Var í mestu makindum að stinga upp í mig AB-mjólkinni þegar ég sé skyndilega eitthvað koma flögrandi að andlitinu á mér og stefndi í sömu átt og skeiðin. Tókst mér með snarræði að skella í lás. Þá flögraði vinkonan í átt að ljósinu yfir eldhúsborðinu og tyllti sér þar. Þá var hægt að virða hana betur fyrir sér.

Reyndist þetta vera ljómandi falleg lífvera sem ég hafði ekki áður augum litið. Þótti mér einkennilegt að sjá svona eintak um miðjan janúar norður á Siglufirði og hvað þá í eldhúsinu hjá okkur.

Í samráði við eiginkonuna var ákveðið að lokka hana ofan í krukku til frekari greiningar. Eftir myndatöku og samráð við samstarfsfólk í Menntaskólanum á Tröllaskaga fannst lausnin: Gullglyrna, sem er víst orðin nokkuð algengur flækingur hér á landi”.

 

Nánar má lesa um þessa áhugaverðu lífveru og flakk hennar til Íslands á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands: Hér