Við þjónum með gleði til gagns eru einkunnarorð allra starfsmanna sveitarfélagsins og ‏ með því hugarfari tökum við á móti farþegum skemmtiferðaskipa sem stíga hér á land. Við starfrækjum sérstakt þjónustuhús þ‏ar sem starfsfólk upplýsingamiðstöðvarinnar liðsinnir fólki og afhendir vandaða upplý‎singabæklinga á fjórum tungumálum um hvað því stendur til boða í sveitarfélaginu. Svo erum við með salerni á tveimur stöðum fyrir þessa gesti. Við vöndum okkur sérstaklega í allri þessari gestamóttöku því hún færir höfninni miklar tekjur og samkeppni er milli staða um þessi viðskipti.
Þá er það skýr stefna að hafnir okkar séu sýnilegar á helstu alþjóðlegum Cruise-ráðstefnum.

Áður en lengra er haldið skal það tekið fram að hér talar Guðmundur M. Kristjánsson (Muggi) hafnarstjóri á Ísafirði. Meðfylgjandi ljósmynd er aftur á móti tekin af brúarvæng skemmtiferðaskips við Óskarsbryggju á Siglufirði 8. júlí síðastliðinn.

Og áfram heldur Muggi: Við skreytum hafnarsvæðið sem gestir okkar fara um með blómakerjum og komum fyrir setbekkjum til að gera höfnina og Ísafjarðarbæ sem mest aðlaðandi. Þá borgum við starfsmanni í kirkjunni fyrir leiðsögn og eftirlit þar.
Fyrir nokkrum árum gerðum við þá tilraun að fá ungmenni klædd viðeigandi búningum til að flytja tónlist og sýna dansa við skipshlið og vakti það mjög mikla og jákvæða athygli. Þetta féll því miður niður því það vantaði stjórnanda gjörningsins.

Auk venjulegra hafnargjalda innheimtum við 125 kr á hvern farþega þessara skipa og er það hugsað til að greiða fyrir alla þá þjónustu sem við veitum þeim kringum höfnina – sagði Muggi að lokum.

Á þessu ári er von á 134 heimsóknum skemmtiferðaskipa til Ísafjarðarhafna og og af þeim eru áætlaðar 150 millj. kr tekjur. Seint getum við hér í Fjallabyggð borið okkur saman við Ísafjarðarbæ í þessum efnum – nema að einu leyti. En það eru gæði þjónustunnar sem við veitum. Stóra spurningin er getum við ekki lært eitthvað af þeim þar vestra?

Eitt atriðið er hvernig skemmtiferðaskipunum er of oft, að margra mati, beint að Óskarsbryggju þar sem sorpgámarnir standa í röðum og öll aðkoma er heldur ókræsileg. Við bjóðum ekki gestum okkar inn bakdyramegin ef glæsilegur aðalinngangurinn er sæmilega greiðfær – nema taka til og fegra.

Ástæða er til að við, íbúar Fjallabyggðar (ekki síst bæjarstjórnendur!), veltum því fyrir okkur hvort ekki sé eðlilegt að sveitarfélagið marki sér stefnu í móttöku gesta sinna sem hafnarstjórinn og starfsmenn hans geta fylgt á einfaldan hátt? – ekki síst í ljósi þess að Fjallabyggðahöfn innheimtir sérstök gjöld eða um 170 kr á hvern farþega skemmtiferðaskipanna!

Örlygur Kristfinnsson