Nemendur 10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar unnu glæsilegan sigur í Fjármálaleikunum – landskeppni grunnskólanna í fjármálalæsi.
Keppnin, sem nær til grunnskóla um allt land og dregur til sín yfir þúsund nemendur, er mikilvægur vettvangur til að efla fjármálavitund ungs fólks.
Sigurinn tryggði skólanum farandbikar og 200.000 krónur í verðlaunafé. Þá munu tveir nemendur úr skólanum taka þátt fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni í fjármálalæsi sem fram fer í Brussel í maí – spennandi ævintýri fram undan segir á vefsíðu Grunnskóla Fjallabyggðar.
Í gær komu Ingi Steinar, María Petra og Tinna fyrir hönd fjármálafyrirtækja og afhentu verðlaunin við hátíðlega athöfn í skólanum.
Fjármálaleikarnir eru spurningakeppni þar sem nemendur þurfa að sýna þekkingu á fjölbreyttum sviðum fjármála, svo sem útreikningum á vöxtum, tryggingum, réttindum og skyldum á vinnumarkaði, lífeyrissparnaði, gengissveiflum og verðlagsþróun.
Sjá upplýsingar um keppnina á www.fjarmalavit.is
Forsíðumynd/ Sigurvegarar Fjármálaleikanna 2025! 10. bekkur Grunnskóla Fjallabyggðar tók gullið heim
Mynd/af vefsíðu Grunnskóla Fjallabyggðar