Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endanlegt skiptihlutfall vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2021. Áður hafa verið gefnar út tvær áætlanir fyrir árið. Áætlað er að framlög ársins 2021 nemi rúmum 17,2 milljörðum króna.
Breytingar sem verða á skiptihlutfalli frá annarri áætlun eru til komnar vegna nýliðunar, endurmats og annarra minni uppfærslna á undirliggjandi gögnum. Nýsamþykkt og endanlegt skiptihlutfall byggir því á uppfærðum tölum og endurspeglar betur þann kostnað og þá þjónustu sem þjónustusvæðin veita.
Þá var samþykkt tillaga ráðgjafarnefndar um endurskoðaða og endanlega áætlun um úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda á grunnskólaaldri á árinu 2021, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 351/2002.
Framlögin eru veitt á grundvelli SIS mats þeirra nemenda er lögheimili eiga í sveitarfélagi, óháð því hvar nemendurnir fá kennslu.
Ráðherra hefur einnig samþykkt tillögu ráðgjafarnefndarinnar um úthlutun framlaga vegna lengdrar viðveru fatlaðra grunn- og framhaldsskólanemenda á árinu 2021. Framlögin falla undir heildarfjárhagsramma vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.
Framlögin byggja á umsóknum þjónustusvæða og koma þau til útgreiðslu á næstu dögum.
Fyrstu áætlanir fyrir árið 2022
Þá hefur ráðherra jafnframt samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um áætlaða úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda á grunnskólaaldri á árinu 2022.
Áætlunin verður tekin upp og endurskoðuð í nóvember 2022.
Ráðherra hefur loks samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um áætluð framlög vegna íslenskukennslu fyrir nemendur með íslensku sem annað tungumál á árinu 2022, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 351/2002.
Gert er ráð fyrir að endanleg áætlun verði tekin fyrir í mars næstkomandi.
Mynd/Golli