Út er kominn geisladiskur ásamt USB lykli sem inniheldur áður útgefið efni tveggja geisladiska frá árunum 1999 og 2004 sem á þeim tíma nefndust „Svona var á Sigló“. Þessi útgáfa ber sama nafn auk undirtitilsins „24 Siglufjarðarsöngvar“. Allt er þetta efni sem tengist Siglufirði gegn um lagasmíðar, texta eða flytjendur fyrr eða nú. Auk endurútgáfunnar hefur verið bætt við fjórum lögum sem falla vel inn í hópinn ef þannig mætti að orði komast.
Eitt laganna er eins konar hátíðarútgáfa af laginu „Siglufjörður“ eftir Bjarka Árnason sem Þorsteinn Bjarnason syngur ásamt föngulegum kór sem auk Þorsteins skipa þeir; Ólafur Haukur Kárason, Hörður Júlíusson, Þorsteinn Bertu og Sveinssson, Steinn Elmar Árnason, Rafn Erlendsson, Jónas Halldórsson, Friðfinnur Hauksson, Leó R. Ólason, Þórarinn Hannesson, Birgir Ingimarsson, Björn Sveinsson og Stefán Friðriksson.
Þá er lag sem nefnist „Sumarstemning á Siglufirði“, en það er reyndar betur þekkt undir nafninu „Undir bláhimni“. Í þessu tilfelli er það sungið af þeim Þórarni Hannessyni og Birgi Ingimarssyni við texta Friðrist Stefánssonar (Fidda).
Í sumar og Sól er erlent lag við texta Guðmundar Ingófssonar, sungið af Hallvarði S. Óskarssyni sem nýtur ekki lakari bakradda en þeirra Eyþórs Stefánssonar og Þuríðar Sigurðardóttir.
Og þá er lagið sem er að ganga í heilmikla endurnýjun lífdaga þessa dagana með gerð tónlistarmyndbands þar sem söngvarinn fer á kostum og sýnir verulega mikla leikræna hæfileika, en það nefnist „Vodkafamelý“, mikið gleðipopp með þeim félögum í hljómsveitinni Kargo sem var upp á sitt besta á árunum 1986-89, en kom saman í hljóðveri á síðasta ári og hljóðritaði lagið. Höfundar lags eru hljómsveitarmeðlimirnir Þorsteinn Bertu Sveinsson, Örn Arnarson, Jón Ómar Erlingsson og Jóhann Friðfinnur Sigurðsson, en textann gerði Þorsteinn Bertu Sveinsson.
Dreifing er um það bil að hefjast fyrir norðan og söluaðilar eru Síldarminjasafnið, Ljóðasafn Íslands og Björgunarsveitin Strákar. Dreifing syðra mun hefjast fljótlega, en pöntunum má koma í formi einkaskilaboða á facebooksíðunni: https://www.facebook.com/leo.olason/ eða með sms í síma 863-9776.
Vodkafamilý – Hljómsveitin Kargo frá Siglufirði