Sjúkrahúsið á Akureyri ítrekar að um þessar mundir er mjög mikið álag á bráðamóttöku sjúkrahússins. Almenningur er hvattur til að leita þangað einungis ef brýn þörf er á bráðri læknisþjónustu. Í vafatilfellum er bent á að hringja í upplýsingasímann 1700.

Kristín Ósk Hólm Ragnarsdóttir, deildarstjóri á bráðamóttöku SAk, segir mikilvægt að minna fólk á að þeir sem eru minna veikir eða með langvarandi einkenni leiti frekar til heilsugæslunnar. Þannig geti starfsfólk bráðamóttökunnar sinnt bráðveikum og slösuðum sjúklingum. Hún bendir jafnframt á að biðtími geti verið mjög langur um þessar mundir. Þá minnir hún á að grímuskylda sé í gildi á bráðamóttökunni og að einungis einn aðstandandi megi fylgja sjúklingi, ef þörf krefur.

Jón Pálmi Óskarsson, yfirlæknir á bráðamóttöku SAk, undirstrikar einnig mikilvægi þess að greina á milli þess hvort rétt sé að leita á bráðamóttöku eða til heilsugæslu. Hann segir að allir sem koma á bráðamóttöku séu metnir af reyndum hjúkrunarfræðingi eins fljótt og kostur er, en þeim sem ekki eru metnir í þörf fyrir bráðameðferð verði vísað áfram á heilsugæsluna.

Hér má finna almennar leiðbeiningar um hvert skal leita, á heilsugæslu eða á bráðamóttöku:
https://view.officeapps.live.com/op/view.aspx…

Á Heilsuveru eru ítarlegar upplýsingar um ýmsa sjúkdóma og gagnlegar ráðleggingar varðandi veikindi barna og fullorðinna. Nánari upplýsingar í tengslum við inflúensu má nálgast hér: https://www.heilsuvera.is/…/sjukdomar-fravik…/influensa/

Mynd: SAk