Myndasafn: Kátir skíðakappar njóta lífsins í austurrísku Ölpunum

Stór hópur skíðaiðkenda frá Skíðafélögunum í Fjallabyggð dvelur þessa dagana í bænum Neukirchen í Austurríki þar sem æfingar í alpagreinum standa yfir við afar góðar aðstæður. Ferðin er liður í markvissri uppbyggingu starfseminnar og gefur iðkendum kærkomið tækifæri til að æfa við aðstæður sem oft reynast vandfundnar hér heima.

Eins og fram hefur komið telur hópurinn alls um 40 manns. Þar af eru um 20 iðkendur auk þjálfara, fararstjóra og góðs hóps aðstandenda sem fylgir liðinu út. Slíkar ferðir hafa reynst afar mikilvægar fyrir framþróun ungra skíðaiðkenda og skapa jafnframt sterkan félagslegan ramma utan æfingatímans.

Það skín bros úr hverju andliti í hópnum, bæði meðal iðkenda og annarra, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg birti á Facebook síðu sinni í dag. Foreldrar, systkini, ömmur, afar og vinir fylgja gjarnan með í svona ferðum og þannig skapast einstakar samverustundir þar sem fjölskyldur og vinir njóta þess að vera saman í ferðalagi sem þessu.

Skíðaíþróttin er í senn krefjandi og skemmtileg og ekki síst frábært fjölskyldusport. Ef áhugi er fyrir hendi hjá barninu þínu að æfa skíði með félaginu er hvatt til að senda póst á netfangið sigloskiteam@gmail.com, þar sem öllum fyrirspurnum verður svarað.