Aðdragandi breytinga

Á árunum og jafnvel nokkrum áratugum eftir að trúfrelsi var lögleitt á Íslandi með stjórnarskrárbreytingum 1874, reyndu nokkrir nýir trúarhópar að festa sig í sessi hérlendis þó með litlum árangri væri. Hin íslenska þjóðkirkja var ennþá föst í sessi og rætur hennar lágu djúpt í hinu íslenska bændasamfélagi. Þegar leið að aldamótunum 1900 urðu þó ýmsir samfélagslegir þættir til þess að ofurvald prestastéttarinnar fór ört minnkandi, en það hafði ekki síður verið veraldlegt en andlegt. Það hefur verið bent á að aukin þéttbýlismyndun hafi þar vegið þungt, en tómthúsfólkið á eyrinni var ekki bundið sömu vistaböndum og vinnufólk til sveita. Einnig urðu hinar miklu framfarir í vísindum til þess að breyta hugarfari og hugsunarhætti fólks hérlendis sem erlendis, leiddu til aukins trúarefa og ruddu brautina fyrir gagnrýnni hugsun en áður hafði þekkst. Öll upplýsing meðal hinna lægri stétta fór líka hratt vaxandi með almennari menntun en áður hafði þekkst, þó oftar en ekki væri hún heldur fábrotin. Þá má ekki gleyma stóraukinni blaða og tímaritaútgáfu.

Ýmsir trúarhópar knúðu dyra

Mormónar reyndu trúboð hérlendis um miðja nítjándu öldina en með litlum eða engum árangri. Ekki er vitað til þess að þeir hafi lagt leið sína til Siglufjarðar, enda ekki eftir mörgum sálum að slægjast í þeirri útnárabyggð á þeim tíma.

Um aldamótin 1900 voru þeir fáu kaþólikkar sem í landinu voru aðeins erlendir trúboðar. Þeir reistu skóla og sjúkrahús, en einnig glæsilegustu kirkju landsins sem þá hafði verið byggð. Hún var kennd við Landakot og vígð snemma árs 1929. Frá Reykjavík lögðu þeir svo upp í útrás til Stykkishólms, en rötuðu heldur ekki í hinn ört vaxandi síldabæ í norðrinu.

Brautryðjendur Hvítasunnuhreyfingarinnar á Íslandi voru ung hjón, Signe og Erik Aasbö, sem komu til landsins frá Noregi hinn 31. júlí 1920 og hófu þá starf í Reykjavík. Upphaf starfs hvítasunnumanna hérlendis miðast þó við stofnun Betelsafnaðarins í Vestmannaeyjum árið 1921. Hinn 19. ágúst komu þau til Siglufjarðar og dvöldu þar í ellefu daga. Þau stóðu fyrir fjölmörgum samkomum, sumum í Sjómannaheimilinu, öðrum í kirkjunni, en einnig nokkrum útisamkomum. Eiginlegt starf hefst þó ekki á Siglufirði fyrr en Sigurlaug Björnsdóttir kaupir húseigina að Grundargötu 7a árið 1946 og nefnir húsið Zion. Þar stóð hún fyrir samkomum bæði fyrir börn og fullorðna til fjölmargra ára ásamt samstarfsfólki sínu.

Fríkirkjan var stofnuð á Reyðarfirði 1884 og var þá byggð kirkja á Eskifirði, í Reykjavík 1899 og í Hafnarfirði 1913. Ekki er mér kunnugt um að sá söfnuður hafi haft uppi neinar þreifingar í landnámi Þormóðs Ramma.

Herhúsið á Siglufirði var byggt árið 1914 og var mikið um samkomuhald þar á síldarárunum. Í Siglufirðingi 9.maí árið 1924 má sjá tvær smáauglýsingar sem gefa svolítið dæmi um þá fjölbreyttu starfsemi sem þar fór fram.

„Bazar verður haldinn til ágóða fyrir starfsemi Hjálpræðishersins, í samkomusal hans mánud. og þriðjudagskv. kl 8l /2- Ýmiskonar handavinna verður til sölu, ásamt öðru, sem hefur verið gefið til Bazarsins“.

Og…

„Hjálpræðisherinn. Hljómleikar laugardk. kl 8 /Flauta, fiðla, guitar horn; inngangur 35 au. börn 20 au. Sunnud. Barnasamk. kl. 6, alm. samk. kl. 8 s.d.“

Um 1980 var orðin lítil starfsemi í húsinu og um vorið 1999 komst það í eigu Herhúsfélagsins sem stóð fyrir endurbyggingu þess. Í Herhúsinu er nú rekin gestavinnustofa fyrir innlenda og erlenda myndlistarmenn.

Ári eftir að Herkastalinn var byggður eða 1915, var Norska sjómannaheimilið reist við Aðalgötu. Ýmsir mætir Norðmenn lögðu þar gott til, en sennilega hefur þó munað einna mest um aðkomu Ole Tynes. Í því húsi fór fram sjómannatrúboð, en einnig var rekin þar veitinga og lesstofa. Þar var einnig fyrsta sjúkrahúsið á Siglufirði. 

Ýmsir fleiri söfnuðir hafa þó eflaust kannað frjósemi jarðvegs trúarinnar hjá hnípinni þjóð í vanda sem var þó sem óðast að vakna til sjálfsvitundar, en látum þetta nægja að sinni.


Vilhjálmur G. Vilhjálmsson teiknaði þessa mynd af kirkju Aðventista á Siglufirði.

Aðventistar nema land

Kirkja Sjöunda-dags aðventista mun hafa verið stofnuð í Bandaríkjum Norður Ameríku á því herrans ári 1863 og spratt upp úr hreyfingu sem babtistinn Williams Millers fór fyrir. Hann var höfuðsmaður í her bandaríkjanna og tók m.a. átt í seinna frelsisstríði þjóðar sinnar sem stóð frá 1812 til 1815. 

Það var svo árið 1876 sem aðventhreyfingin barst til norðurlandanna með dananum John G. Matteson, en þann 9. Nóvember árið 1897 sigldi svíinn David Östlund frá Kaupmannahöfn til Íslands með gufuskipinu Láru í þeim tilgangi að boða aðventboðskapinn. Öslund er sagður hafa búið yfir verulegum sannfæringakrafti og verið mikill gáfumaður. Til marks um það hélt hann sína fyrstu ræðu á íslensku aðeins fimm vikum eftir að hann kom til landsins. Hann á eflaust mestan þátt í að hreyfingin festi rætur hérlendis, en hún var formlega stofnuð í Reykjavík árið 1906 og er því 110 ára í ár.

Olav Johan Olsen sem tók við af David Östlund fæddist í Noregi, en hafði ungur haldið til vestuheims og numið þar guðfræði. Hann kom til Íslands ásamt konu sinni Aline Josephine árið 1911 með farþegaskipinu Vestu. Olsen varð síðan öflugur forstöðumaður Kirkju sjöunda-dags aðventista allt fram til ársins 1947. Hann fór víða um land og stóð fyrir stofnun safnaða í Keflavík, Bolungarvík, Vestmannaeyjum, Siglufirði, Akureyri og á Fáskrúðsfirði.


Kirkja byggð á Siglufirði.

Olav Johan Olsen mun hafa komið til Siglufjarðar um haustið eða snemma vetrar árið 1928 í þeim tilgagni að stofna þar söfnuð og stóð fyrir fyrirlestrum veturinn 1928-29. Honum mun hafa orðið sæmilega ágengt og var söfnuður Sjöunda-dags aðventista á Siglufirði formlega stofnaður á árinu 1929. Ekki er mér kunnugt um hve fjölmennur hann varð, líklega einhverjir tugir þegar mest varð. Um sumarið 1929 byggði Olsen ásamt Snorra Mikaelssyni húsasmið og öðrum safnaðarmeðlimum lítið samkomuhús við Hverfisgötuna, en fyrsti safnaðarformaðurinn á Siglufirði hét Friðrik Sveinsson.

Vetrarmynd sem er tekin fyrir neðan Hverfisgötu 12 Þar sem Heiða Jóna og Elías Ísfjörð bjuggu, en þar sést Aðventistakirkjan sem var númer 10 við sömu götu ágætlega.


Í bæjarblaðinu Siglfirðing frá 16. febr. 1929 birtist eftirfarandi frétt:

„Trúarhreyfing hefir um skeið verið meiri hjer í bænum en venjulega. Olsen aðventistaprjedikari hefir haldið fyrirlestra öðru hvoru í kvenfjelagshúsinu. Hafa fyrirlestrar Olsens verið allvel sóttir, og mun nú ekki standa á öðru en skírnarathöfninni til þess, að söfnuður aðventista myndist hjer. — Hjálpræðisherinn hefir haldið samkomur þessa viku undir stjórn Árna Jóhannessonar og knúið fólk til bæna, og loks var hjer í gær eitthvað af götuprjedikurum, sem leituðust við að reka oss, þverbrotna siglfirska syndara að fótkör meistarans með hljóðum og hálf sóðalegu orðbragði. — Margar eru leiðirnar þótt markið sje eitt“.

Guðshúsið uppi á Brekkunni varð ein af útstöðvunum, en í höfuðstaðnum var allt mun stærra í sniðum. Þar reistu Aðventistar sér kirkju við Ingólfsstræti sem var vígð í janúar 1926, rúmaði 600 manns og kostaði stórfé, eða á annað hundrað þúsund krónur á þeim tíma.

Mínar heimildir herma að Hólmkell Jónasson verkamaður (1893-1955) og Jósefína Hólmfríður Björnsdóttir húsfrú (1894-1981) hafi haft einhvers konar umsjón með Aðventistakirkjunni á Siglufirði síðustu árin sem einhver starfsemi var þar. Þau bjuggu þá í næsta nágrenni við hana, eða að Hverfisgötu 12. Hólmkell var bróðir Björns Jónassonar „keyrara“ sem var faðir þeirra Ásgeirs og Þórhalls í Versló svo og Jónasar Björns. Hann var einnig bróðir Garðars, eða Gæa „gamla“ sem var svo faðir Óskars Garðars sem margir muna eflaust enn eftir.

Ég spurði Siglfirðinginn Erling Snorrason sem er sonur Snorra Mikaelssonar smiðs, um litla samkomuhúsið að Hverfisgötu 10. 

„Ég er fæddur og uppalinn að Aðalgötu 13 sem var eitt fyrsta steinsteypta íbúðarhúsið á Siglufirði, er mér sagt. Foreldrar mínir voru aðventistar, Snorri Mikaelsson, trésmiður, og Cecilie Mikaelsson (norsk), nuddkona. Við fjölskyldan, ásamt fleirum, fórum í kirkju á laugardagsmorgnum í Aðventkirkjuna við Hverfisgötuna“.

Erling er í dag formaður Aðventkirkjunnar á Íslandi.

Aðventistakirkjan eins og hún var alltaf kölluð var staðsett beint fyrir framan æskuheimili mitt sem var Hverfisgata 11, en þar býr í dag Tryggvi Sigurjónsson ásamt fjölskyldu. Það þýðir þá í leiðinni að hún var líka staðsett beint fyrir neðan Óla Kára. Í dag er þarna bílastæði sem var grafið inn í bakkann eftir að kirkjan var rifin.


Kirkjan fær nýtt hlutverk

Næstu 20 árin sótti söfnuður Sjöunda-dags Aðventista á Siglufirði kirkju sína samviskusamlega, en um 1950 fór ýmislegt að breytast til hins verra í Klondike norðursins. Síldin sem allt hafði snúist um varð enn hverfulli en áður, mætti jafnvel ekki á miðin þegar hennar var vænst og ævintýrið mikla hafði þarna náð hámarki sínu. Líklega varð íbúafjöldinn mestur á Siglufirði árið 1948 þegar hann fór eitthvað yfir 3.100 og stórir árgangar, eða í kring um hundrað börn fæddust þar sum árin. Ungt og bjartsýnt fólk hafði flykkst til bæjarins og líklega var meðalaldurinn í bænum á þessum tíma mun lægri en víðast hvar annars staðar á landinu. Þessir risastóru árgangar hurfu síðan að mestu leyti á braut. Allir voru allt í einu að flytja suður, foreldrar þeirra fluttu líka suður og atvinnan var líka á leið suður.

Starfsemi litla safnaðarins við Hverfisgötuna fór líka ört minnkaði um og upp úr 1950 þegar meðlimir safnaðarins fluttust flestir suður. Samkomuhúsið var selt árið 1962 og kaupandinn var maður í næsta húsi sem vildi hýsa bílinn sinn innan dyra yfir veturinn. Ragnar Sveinsson sem bjó þá að Hverfisgötu 8, var tengdasonur Þórðar á vélaverkstæði SR sem byggði það glæsilega hús. Hann rauf helgidóminn að ofan verðu, opnaði þar vegg og setti á hann bílskúrshurð. Árin á eftir varð húsið nýtt sem bílageymsla Ragga og nokkurra annarra.

Kannski hafa Aðventistar rétt eins og svo margir aðrir beðið þess að síldin kæmi aftur, bærinn öðlaðist sína fyrri reisn, fólkið kæmi aftur heim og safnaðarstarfið hæfist á ný. Ég veit ekki, en þá hefur vonin um það sennilega slokknað endanlega árið 1970 þegar söfnuðurinn á Siglufirði var formlega lagður niður. Ég kom nokkrum sinnum þarna inn á sjöunda áratugnum þegar ég var lítill gutti á Brekkunni og sá tvenna ólíka tíma mætast þar innan dyra þó ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en löngu síðar. Þróin eða laugin sem notuð var til skírnar eða niðurdýfinga sóknarbarnanna og verkfæri upp við vegg, gamlir kirkjubekkir og smurning á gólfi, kvistótti panellinn á veggjunum málaður daufum litum og brotnar og skítugar rúður í gluggum. Súrrealískt sambland þess sem áður hafði verið og þess sem tók síðan við. Þegar Raggi og Erla flytja suður ásamt börnum sínum eins og svo margir höfðu gert á undan þeim, kaupir Jónas Björns Hverfisgötu 8 og Aðventistakirkjan fylgir með í pakkanum. Jónas notaði húsið á sama hátt og fyrri eigandi hafði gert, en það var rifið upp úr 1980. Nú er þarna malbikað bílastæði og ekkert minnir á það sem einu sinni var og hét.

Leikvöllur og miðpunktur alls

Á mínum uppvaxtarárum gegndi kirkjuhúsið þó allt öðru hlutverki en rakið er hér að framan. Ef leikir okkar krakkanna á Brekkunni fóru ekki fram uppi í fjalli, niðri á bryggjum eða suður á öskuhauaugum, var Aðventistakirkjan miðdepill leikja okkar og kennslustaður lífsleikninnar sem í þá daga hafði ekki öðlast þann virðulega sess að verða orðið sérstakt fag sem kennt var í skólum. Á hlýjum og björtum sumarkvöldum varð oft fjölmennt þarna og ýmsir leikir iðkaðir sem sumir hverjir eru um það bil að falla í gleymsku.

„Salt og brauð“ fyrir Jónu, Steina, Sigrúnu eða Kristjönu einn, tveir og þrír, heyrðist stundum kallað frá krikjutröppunum, týpýskur „feluleikur“ og „nafnabolti“ eða „nafnagáta“. Hvernig var það nú aftur. Jú, ég þarf aðeins að rifja þetta upp. Einn stjórnaði og hinir stóðu í röð. Sá sem stjórnaði var með lítinn bolta og var búinn að ákveða eitthvert mannsnafn. Hann eða hún kastaði boltanum til fyrsta manns og sagði t.d. karlmannsnafn sem byrjar á Þ. Viðkomandi giskaði þá á eitthvert nafn og ef það var ekki rétt í fyrstu umferð, var bætt við næsta staf, t.d. o. Þá var komið Þo. Mjög líklega kom r, næst á eftir. Þorsteinn, Þorgeir, Þorgrímur… Auðvitað var oft reynt að hafa eitthvert flókið nafn, en áfram var haldið þangað til nafnið var komið. Mig minnir að stjórnandinn hafi hent frá sér boltanum og sá sem gat rétta nafnið þurfti síðan að ná honum, henda í stjórnandann og hitta hann til að ná stjórninni. Þetta var vinsæll leikur og góð stafsetningarkennsla. Það var hún Jóna Möller sem rifjaði þennan leik upp fyrir mig.

„Yfir“ var þó líklega vinsælasti leikurinn, enda hentaði húsið alveg sérlega vel til iðkunar hans. Það var svo hæfilega hátt, þakið passlega bratt og ágæt aðstaða beggja megin. Hópnum var skipt í tvö lið, yngri krakkarnir voru gjarnan fyrir ofan, en þeir eldri og stærri fyrir neðan. Bolta var kastað yfir mæninn og kallað YFIR. Þá átti að grípa hann hinum megin, hlaupa fyrir annað hvort hornið og reyna að hitta einhvern í mótliðinu. Við það fækkaði smátt og smátt í liðunum þar til sigurvegarinn stóð einn eftir.

Ég man að einu sinni átti Nonni Sæm sem bjó þá í sama húsi og ég, leið fram hjá og við báðum hann að kasta fyrir okkur. Nonni var einstaklega stór og kraftmikill maður. Hann tók glottandi við boltanum, tók vel á og við sáum hann fljúga af stað áleiðis til skýjanna. Fyrstu viðbrögð hinum megin var löng þögn, en svo kom hópurinn niður fyrir húsið og einhver spurði í forundran; „hver kastaði eiginlega, boltinn er einhvers staðar uppi á Hávegi“.

Leó R. Ólason.

Heimildir:

  • Kristófer Eggertsson (ritgerð til B.A. prófs).
  • Erling Snorrason.
  • Björgvin Snorrason
  • Bæjarblaðið Siglfirðingur.
  • Lesbók Morgunblaðsins
  • Heimasíða Herhússins
  • nat.is
  • Jóna Möller