Í Ólafsfirði, Tröllaskaga og víðar var einmuna veðurblíða um helgina.
K. Haraldur Gunnlaugsson var einn af þeim sem naut útiverunnar með fjölskyldu sinni og sagði skemmtilega frá laugardeginum í færslu á facebook síðu sinni í máli og myndum, sem sjá má hér að neðan.
“Á þannig dögum nýtur fólk útiveru, á göngu- lausfóta um bæinn og fram sveitina. Á fjallaskíðum og vélsleðum um öll fjöll eins og lætur nærri.
Fjöldi fólks var á gönguskíðum í 10 km langri braut sem liggur um Skeggjabrekkudal og Skíðafélag Ólafjarðar heldur úti. Rúdolf hefur auk þess farið a.m.k. 2, en vonandi fleiri ferðir upp á Múlakollu í dag.
Við í fjölskyldunni lékum okkur góða stund á skíðum í dag í laut neðan við golfvöllinn í Skeggjabrekku. Það var Gunnlaugur Ingi Haraldsson sem hafði veg og vanda að þessari skemmtilegu ferð.
Fékk hann Björn Arason til að draga okkur upp á Pisten Bulli 100, troðaranum sem hann á og hefur að öllu jöfnu í snjómokstri í Fljótunum. Þetta var stór skemmtilegur dagur og ágætt að liðka ryðgaða liði, áður en alvaran hefst aftur 15. apríl”.