Hvað finnst ykkur um niðurstöður úttektar Strategíu ehf. á stjórnsýslu Fjallabyggðar sem birtist í skýrslu sem þið fenguð í hendur í maí á síðasta ári og var síðar birt í fjölmiðli Trölla. Sú skýrsla vekur margar spurningar um stjórnsýslu og verklag stjórnar Fjallabyggðar sem ég tel að þurfi að ræða opinberlega.

Við lestur þessarar skýrslu skil ég betur það sem ég hef bæði upplifað sjálfur og orðið vitni að. Stjórnarhættir sveitarfélagsins virðast á köflum fjarlægir grundvallarreglum um gagnsæi og lýðræðislegt samráð. Í ljósi þessa langar mig að nefna nokkrum atriðum.

Þegar Gunnar heitinn Birgisson var leystur frá störfum sem bæjarstjóri, frétti ég af því út í bæ. Þó að ég hafi þá verið þriðji maður á lista Betri Fjallabyggðar og átt tvo fulltrúa í bæjarstjórn, var ég ekki upplýstur um þessa ákvörðun. Af hverju var þessi ákvörðun ekki tekin á opnum samráðsfundi meirihluta? Slíkt verklag fárra stuðlar að sundrungu, eins og í mínu tilfelli, þar sem ég sagði mig frá störfum fyrir flokkinn.

Nýr bæjarstjóri, Elías Pétursson, virðist hafa verið í sambærilegri stöðu og Gunnar. Hvers vegna var honum ekki boðið að halda áfram störfum eftir sveitarstjórnarkosningar? Enn fremur vekur það undrun að bæjarstjórn skuli nú hafa leyst  Sigríði Ingvarsdóttur frá störfum bæjarstjóra. Það vekur upp margar spurningar hvers vegna þrír bæjarstjórar hafa verið látnir taka pokann sinn á svo skömmum tíma.

Þrátt fyrir að Fjallabyggð standi vel fjárhagslega, sýnir skýrslan að stjórnsýslunni er víða ábótavant. Í ljósi þess væri eðlilegt að ráða utanaðkomandi sérfræðinga með þekkingu á góðum stjórnarháttum til að koma málum í lag. Var það aldrei íhugað? Voru fyrrverandi bæjarstjórar óhæfir til að leiða slíka vinnu, óreiða í stjórnsýslunni er ekki nýtilkomin, eða er þetta skortur á vilja eða áhuga hjá bæjarfulltrúum?

Þá vek ég athygli á því að samkvæmt skýrslunni hefur aldrei verið unnin starfslýsing fyrir bæjarstjóra/framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Hvers vegna hefur slík grundvallarvinna ekki verið unnin og gefur tilefni til margra spurninga um það hver stjórnar hverjum, hver á að gera hvað og hver ber ábyrgð?

Hafið þið íhugað hvernig störf ykkar endurspeglast í niðurstöðum skýrslunnar? Hafið þið litið innávið og spurt ykkur hvort sveitarfélaginu sé í raun stjórnað af embættismönnum frekar en kjörnum fulltrúum?

Er ástæða til þess að fara fram á það að ráðherra sveitarstjórnarmála blandi sér í málið með því að skipa óháða nefnd til að fara yfir og kafa dýpra í stjórnsýslu Fjallabyggðar?

Ég skora á ykkur, ágætu bæjarfulltrúar, að sýna bæjarbúum þá virðingu að veita skýringar og tryggja að stjórnsýslan starfi í samræmi við lýðræðislegar og faglegar grunnreglur.
 
  
Virðingarfyllst,
Konráð Karl Baldvinsson